laugardagur, febrúar 13, 2021

Vertu úlfur

Leiksýning byggð á sjálfsævisögulegri frásögn Héðins Unnsteinssonar. Leikstjórn og leikgerð: Unnur Ösp Stefánsdóttir. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Leikmynd og myndbandshönnun: Elín Hansdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Halldór Örn Óskarsson. Hljóðhönnun: Elvar Geir Sævarsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Titillög: Emilíana Torrini, Markéta Irglová og Prins Póló. Texti í titillögum: Emilíana Torrini. Leikari: Björn Thors. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 22. janúar 2021.

Í auga hugarstormsins

Saga baráttumannsins Héðins Unnsteinssonar vakti mikla athygli þegar hún kom út á bók fyrir nokkrum árum. Mér skilst að fljótlega hafi leikhúsfólk ákveðið að þarna væri bitastætt efni til úrvinnslu á leiksviði. Það er alveg skiljanlegt. Annarlegt hugarástand hefur verið eitt af eftirlætisviðfangsefnum leikhússins frá örófi alda, gott ef helstu gúrúar geðlæknisfræðinnar litu ekki í þá smiðju til að skilgreina sálarlífið og hnúta þess. Svo er hitt: leikhúsið er í sífelldri leit að tilefnum til að gera sig gildandi í umræðu um málefni samtíðarinnar, og staða geðsjúkra og skilningur á geðheilbrigði hefur nú um árabil verið ofar á dagskrá þess eilífa málfundar en undanfarna áratugi og aldir. 

Héðinn hefur verið áberandi í þessari umræðu, vopnaður Geðorðunum tíu og fleiru góðu, til dæmis eldmóði og örri lund. En hann hefur líka frá persónulegri reynslu að segja og það gerði hann í Vertu Úlfur sem kom út fyrir sex árum síðan og er nú komin í leikbúning upp á svið, enduropnunarsýning Þjóðleikhússins eftir langa lokun vegna faraldursins.

Ef við byrjum að tala um sviðsetninguna þá ber hún þess örugglega merki að verkefnið var flutt úr Kassanum á Stóra sviðið á endaspretti þess langhlaups sem undirbúningurinn hefur verið. Þá er ég ekki að meina þá ákvörðun að hafa víðáttu sviðsins óbeislaða af tjöldum, veggjum eða öðrum fyrirferðarmiklum umbúnaði. Það er mjög viðeigandi fyrir glímu persónunnar við sinn óbeislaða anda. Það er frekar hvernig Unnur Ösp Stefánsdóttir er óhrædd við að grípa til hverrar brellunnar á fætur annarrar og nýta flestar tæknilausnir nútímaleikhússins til að magna upp áhrifamáttinn, mögulega á kostnað listrænnar heildar. Hringsviðið snýst, hljóðkerfið er þanið meðan ljósin blikka (smart lýsing Björns Bergsviens Guðmundssonar og Halldórs Arnar Óskarssonar), myndvarparnir fylla bakvegginn. Og auðvitað þarf að flæða vatn. 

Þá er rof fjórða veggjarins mikilvægur þáttur í nútímaleikhúsinu, og fullnýttur hér, með beinum ávörpum, hljóðnema, leik fyrir framan fortjald og við innanstokksmuni áhorfendasalarins, hlaupum út í sal, fram í anddyri. Óreiðan og ofgnótt meðala á auðvitað vel heima í miðlun þessa tiltekna efnis, en dyggð hreinleikans er engu að síður dyggð og stundum vaknar spurningin hvort sýningin hefði ekki haft gott af að kjarna sig. Vera í punktinum. 

Sterkasta sviðsræna lausnin í umgjörð Elínar Hansdóttur er er tvímælalaust hin ógnarlanga hvíta sæng sem Úlfurinn (eins og hann er kallaður í handriti) rúllar út um það bil sem hans fyrsta innlögn á geðdeild hefst. Það má alveg sakna þess að hún fengi víðtækari hlutverk, gengi í gegnum fleiri umbreytingar og kæmi í staðin fyrir eitthvað af hinum lausnunum. En gott og vel: ofgnótt og sundurgerð er líka stíll og listræn ákvörðun sem þjónar tilgangi, hefur áhrif og afleiðingar. 

Hljóðmynd Valgeir Sigurðssonar er einföld og áhrifarík eins og hans var von og vísa, hverfur í skuggann af vel valdri þekktri tónlist sem hljómar þegar á þarf að halda, og svo auðvitað „titillögunum“ tveimur. Þetta höfundareinkenni leikhússtjórans ryður sér nú til rúms í húsinu og ég get ekki sagt að ég fagni því. Er mjög efins um að það sé listræn þörf sem kallar á þessa útvarps- og samfélagsmiðlavænu mola. Þau Emilliana Torrini, Markéta Irglová og Prins Póló hafa líka öll átt umtalsvert betri daga í stúdíóinu.

Ekkert af þessu hefur samt viðlíka vægi og leikarinn, sem einn þarf að bera uppi sýninguna, halda hita á kviknöktu stóra sviðinu og athygli allra í Covid-gisnum salnum. Það tekst Birni Thors mætavel. Hann er á heimavelli í svona yfirgíruðum og viðkvæmum persónum og fipast hvergi. Allavega þykist ég vita að öll augnablikin þar sem hann stoppar og afvegaleiðist í miðjum klíðum og miðjum setningum hafi ekki verið óöruggur leikari að koma upp um sig heldur einmitt innlifaður fagmaður að túlka óróa í huga, óþægilega vel. Þau tök sem sýningin nær á áhorfendanum eru fyrst og fremst að þakka tökum Björns á list sinni og viðfangsefninu og vinnu hans með leikstjóra sínum.

Það sem helst stendur Vertu úlfur fyrir þrifum til að verða listrænn fullnaðarsigur er hins vegar úrvinnsla efnisins yfir í leikhandrit, og mögulega efniviðurinn sjálfur. Það er vissulega æsilegt að fara með Héðni/Úlfi í rússibanareið maníunnar, sá þáttur er sá sterkasti í bókinni og flyst vel yfir á tungutak leiksviðsins, sem hefur alltaf sótt í og nærst á þessum efnivið. Það mætti jafnvel segja að hann haldi sýningunni uppi. En leikhúsið afhjúpar líka vankanta. Það skýtur skökku við þegar boðuð er dýnamísk, húmanísk sýn á viðhorf til og meðferð við geðsjúkdómum, að orsakasamhengi veikinda Úlfs sé nánast enginn gaumur gefinn. Við sjáum bara virtúósíska túlkun einkenna sem spretta fram aðdraganda- og skýringalaust, nema að svo miklu leyti sem handvömm og andvaraleysi við lyfjagjöf er um að kenna. 

Lykilatvik sýningarinnar, illa ígrunduð og hranalega framkvæmd sjálfræðissvipting, er áhrifarík og sláandi í nærgöngulli og tilfinningalega örlátri túlkun Björns, en það virðist vera krafa – jafnvel aðalerindi – sýningarinnar og textans að af henni eigi að draga víðtækar ályktanir um brotalamir og kerfislægt óréttlæti og ofbeldi. Hún knýr ekki eins sannfærandi á um það og mig grunar að hafi verið ætlunin. Til þess er allt samhengi of persónulegt, og vanreifað. Hugleiðingar bókarinnar um geðheilbrigði, hugtakanotkun og forvarnarvinnu þóttu mér á sínum tíma full-almennar og losaralegar og sú tilfinning magnast upp þegar þær þurfa að keppa um athygli við tilþrifaríka túlkun maníu og trúðatæknileg samskipti flinks leikara við salinn. 

Vertu úlfur í Þjóðleikhúsinu er undir svipaða sök seld og aðrar nýlega leiksýningar sem sækja fast að vera innlegg í þjóðfélagsumræðu. Að sumu leyti eru hún of sein; ýmislegt hefur breyst síðan það sem hún lýsir átti sér stað, bæði í lagaumhverfi og viðhorfum. Þó víða sé pottur brotinn eru þeir færri og kannski að einhverju leyti aðrir. Umræða um geðheilbrigðismál kallar á ígrundun hugtaka og djúpköfun í tilfinningar sem rímar illa við útleitna tilþrifamennsku sýningarinnar. 

En vitaskuld er alltaf fengur í sjálfu sér að heyra reynslusögur úr heiminum utan hversdagsreynslunnar. Og að sjá einn af okkar fremstu leikurum hnykla tjáningarvöðvana. Unnendur leikhúss sem beitir öllum sínum vopnum af ástríðu og krafti fá mikið fyrir sinn snúð í enn einni opnunarsýningu Þjóðleikhússins, vonandi þeirri síðustu að sinni.