mánudagur, maí 01, 2006

Þrek og tár

Leikfélag Hveragerðis Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson, leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson. Völundi 1. maí 2006

Í víðmynd 


EINHVERN tímann las ég í kennslubók um ljósmyndun að dýrustu linsur væru þær sem tækju víða mynd sem væri þó laus við bjögun fiskaugans. Þannig er sjónarhorn Ólafs Hauks í Þreki og tárum. Það horfir vítt yfir hversdagsraunir og -gleði óhversdagslegrar fjölskyldu í Reykjavík á sjötta áratugnum. Tóntegundin er létt og mest björt, og munar þar mest um tónlistina sem spannar sviðið frá rómantík til væmni. En samt rúmar verkið okurlánastarfsemi, tryggingasvik, geðveilur, eiturlyfjaneyslu, heimilisofbeldi, útskúfun, íkveikjur og sjálfsvíg.

Og þetta virkar hvað með öðru. Verkið boðar umburðarlyndi og fyrirgefningu, og það þarf svo sannarlega umburðarlyndan höfund til að tryggja farsælt sambýli þessara stríðu efnisþátta. Þessi einkenni gera einnig ríkar kröfur til leikstjóra. Sú jafnvægislist ræður í raun úrslitum um hversu heilstæð sýning á Þreki og tárum verður.

Og það verður að játast að Ólafi Jens hefur ekki tekist til fullnustu að skapa einingu milli hins bjarta og dimma, létta og þunga í leikarahóp sínum. Það er vitaskuld freistandi að skemmta áhorfendum, en ef of langt er seilst í þá átt missa alvarlegri þræðirnir áhrifamátt sinn og þau atriði þar sem þeir eru í forgrunni falla dauð.

Þetta verður þeim mun dapurlegra þegar leikarahópurinn er þó jafn traustur og hér, með Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson fremstan meðal jafningja. Sigurgeir fer vitaskuld létt með að gera Jóhann ættföður drepfyndinn í öllum sínum snjöllu tilsvörum, en hann hefði þurft að fá strangara aðhald til að stilla sig í gríninu og leggja á djúpið.

Þeir einu sem mér þóttu ganga þannig á hólm við sitt hlutverk var Magnús Ólafsson, sem lýsti Einari sem lágstemmdum samanbitnum manni, og Sveinn Óskar Ásbjörnsson sem sonur hans. Margir náðu hins vegar skýrum skoptýpum, og sýningin er vissulega bráðskemmtileg og iðulega sniðuglega sviðsett á ágætlega þénanlegu sviðinu í Völundi. Tónlistin vel flutt.

Fullur salur af áhorfendum hló og skemmti sér sem vonlegt var. Ég líka. En mig vantaði tárin.