föstudagur, desember 27, 2019

Engillinn

Leiksýning byggð á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar. Leikstjórn, handrit og leikmynd: Finnur Arnar Arnarson. Dramatúrg: Gréta Kristín Ómarsdóttir. Aðstoðarleikmyndahönnuður: Þórarinn Blöndal. Búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Tónlist: Pétur Ben og Elvar Geir Sævarsson. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Elvar Geir Sævarsson. Sýningastjórn og umsjón, og þátttakandi í sýningu: Guðmundur Erlingsson og Tómas Baldursson. Leikarar: Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 21. desember 2019.

Heimspekileg absúrdrevía

Í skemmtilegu viðtali við Finn Arnar Arnarson, leikstjóra og handritshöfund Engilsins, á vef Þjóðleikhússins leggur hann út af ást og áhuga Þorvaldar Þorsteinssonar á einkennisbúningum og hlutverkunum sem þeir þröngva okkur í. Nauðugum en oft því miður viljugum líka. Þetta birtist að sögn Finns, og í sýningunni sem hann hefur sett saman ásamt Grétu Kristínu Ómarsdóttur, bæði í bókstaflegri merkingu og sem almennur útgangspunktur og leið inn í þetta fjölskrúðuga og um margt einstaka höfundarverk. Hér úir og grúir af skátum, löggum, stöðumælavörðum, ofurhetjum, flugfreyjum og prestum, fyrir utan reykkafarann sem vakir yfir þessu öllu í björgunar- og forvarnarskyni. Hlutverkin sem einkennisbúningarnir fella fólkið í eru einatt tekin skoptökum í textum Þorvaldar, en það er alltaf líka stutt í afmennskun og ofbeldi undir absúrd-húmorísku yfirborðinu. Hvergi kannski jafn stutt og í hrollvekjandi Vasaleikhúsverki um dauðadæmdan fanga og prestinn sem kominn er til að veita hinstu huggun.

En hinn óræðari og heimspekilegri skilningur á einkennisbúningum er alltumlykjandi í verkum Þorvaldar og í sýningunni. Hvernig við festumst í samskiptaháttum, hvernig tjáning okkar og hugsun fylgir ákveðnum brautum þar sem valdastaða, kynhlutverk og dauður vani stýra för. Hvernig klisjurnar í máli og hugsun taka völdin. Á fyrri hluta ferilsins varð þessi vinkill Þorvaldi endalaus uppspretta hárbeittrar og afhjúpandi kímni. Á síðasta skeiði sínu, þegar hann hafði komið auga á skólakerfið sem helsta blóraböggulinn í afskræmingu og lömun sköpunar og heilbrigðra samskiptahátta, átti húmorinn til að víkja fullmikið fyrir boðskapnum, en ein snjöll eldræða af því taginu fær að fljóta með í Kassanum.

Stærsti hluti texta sýninganna er úr Vasaleikhúsverkunum og örverkasafninu Engill meðal áhorfenda. Samfléttun efnisins og notkun vísana í myndlistarverk Þorvaldar hefur tekist afburðavel. Þannig fær sögn hvers atriðis að lifa sínu sjálfstæða lífi og koma sínum boðskap eða hugsun til skila, en rennur jafnframt hæfilega saman við heildina. Eins er stöðug óræðni þess hvenær verið er að leika og hvenær við erum vitni að listafólki að störfum ákaflega skemmtilega og áreynslulaust útfærð og að áhorfandanum læðist grunur um að stílbrögð og fagurfræði Grétu Kristínar eigi þar drjúgan þátt. Frumraun hennar í leikhúsinu, Stertabenda, kemur upp í hugann. Og enn og aftur má dást að fumleysinu sem íslenskt leikhúsfólk hefur náð tökum á í framsetningarmáta af þessu tagi, og ekki síður hvað það getur gengið að vísu læsi og skilningi áhorfenda. Hér erum við samstiga og efniviður Þorvaldar Þorsteinssonar nýtur sín einkar vel við þessar aðstæður.

Það sama má segja um textann sjálfan. Ást Þorvaldar á stirðum og „bóklegum“ samtölum, t.d. eins og þau hljómuðu í útvarpsleikritum af ómerkilegra taginu á uppvaxtarárum hans, er ein höfuðuppspretta stílsins sem einkennir sviðsverk hans en þó enn frekar Vasaleikhústextana. Til að miðla þessu efni þarf að feta nokkuð þröngt einstigi þar sem helsti vegvísirinn er kannski einhverskonar „innblásin flatneskja“. Ekki alveg fjarskylt innblæstrinum sem Ionesco sótti í enskukennslubækur þegar hann setti saman Sköllóttu söngkonuna. Þetta einstigi feta þau Arndís Hrönn Egilsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Eggert Þorleifsson, Guðrún S. Gísladóttir og Ilmur Kristjánsdóttir nánast alltaf af stakri fimi í sínum fjölmörgu hlutverkum. Það liggur við að stundum hefði verið gaman að sjá stílnum ögrað meira. Önnur nálgun en hin viðtekna og sjálfsagða hefði verið prófuð, svona af því sýningin er í og með einhverskonar endurmat á höfundarverki skáldsins. Mögulega hefði reynslumeiri leikstjóri en Finnur gengið lengra í þessa átt. En auðvitað má vera að það hafi einmitt verið reynt og niðurstaðan orðið þessi, og svo á maður auðvitað að fara varlega í að óska sér. Það er fullt öryggi í leikstjórnarlegum ákvörðunum sem sýningin byggist á.

Leikmynd Finns Arnar er í þessum sama anda, sótt beint í nálgun og hugmyndaheim höfundarins. Nytjahlutum safnað og unnið úr því tilviljanakennda efni sem þannig rak á fjörur leikhússins. Útkoman engu að síður vel nothæf til að styðja við þær sögur sem segja átti. Bráðsnjallt að staðsetja áhorfendur baksviðs megnið af sýningunni, sem hjálpaði til við að skerpa meðvitund okkar fyrir því að alls óvíst er hvað er leikið og hvað raunveruleiki. Eins þakklátt þegar við fáum loksins að sjá inn á „sviðið sjálft“ í viðamesta atriði sýningarinnar þar sem við fáum að sjá þann stjörnuleik hjá Eggert Þorleifssyni sem alltaf má reikna með. Dæmigerður Þorvaldarkarakter sem heldur dauðahaldi í frosin samskiptamynstur til að reyna að halda aftur af sálarmyrkrinu og ofbeldinu undir niðri. Og morðfyndið vitaskuld.

Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur eru trúir grunnhugmyndinni, samtíningslegir og banal og fyrir vikið hárréttir. Hljóðmynd Péturs Ben og Elvars Geirs Sævarssonar flott, ekki síst gítarhetjunúmerið undir eintalinu úr And Björk, of Course… Megasarlögin meistaraleg.

Engillinn er þörf áminning um þann magnaða fjársjóð frumleika og andagiftar sem verk Þorvaldar Þorsteinssonar eru. Heimspekileg absúrdrevía sem kætir, kitlar og kemur við okkur. Næst hlýtur að þurfa að taka til fullrar endurtúlkunar hans viðamestu og lífvænlegustu sviðsverk. Maríusögur og And Björk, of Course… væru efst á mínum óskalista.