miðvikudagur, desember 05, 2018

Rejúníon

Eftir Sóleyju Ómarsdóttur. Leikstjórn: Árni Kristjánsson. Hreyfileikstjórn: Vala Ómarsdóttir. Leikmynd og búningar: Fiona Rigler. Tónlist og hljóðmynd: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Myndband: Ingi Bekk. Leikarar: Sólveig Guðmundsdóttir, Sara Martí Guðmundsdóttir og Orri Huginn Ágústsson. Leikhópurinn Lakehouse frumsýndi í Tjarnarbíói föstudaginn 30. nóvember 2018.

Hvunndagsraunir

Það virðist nokkuð samdóma álit fólks, ekki síst skrifandi og hugsandi fólks, að ansi hreint margt í nútímanum, í hversdagslegum veruleika okkar allra, ekki síst í forréttindakima vestræns millistéttarfólks, sé af hinu illa. Mannskemmandi og sálarmyrðandi. Þegar verst lætur ríða hvunndagsraunirnar okkur á slig, eins og Megas orðaði það svo eftirminnilega á Drögum að sjálfsmorði árið 1979. Þetta var sem sagt orðið svona þá, þó engir væru samfélagsmiðlarnir, hvað þá Snapchat-stjörnur á borð við ferlafræðinginn Júlíu sem bakar bollakökur við mikinn fögnuð sinna níu þúsund fylgjenda. Hvað nákvæmlega setur hana út af sporinu, spillir tengslum hennar við mann, barn og vinkonur og kippir hennar sjálfsöruggu og afskaplega dæmigerðu fótum undan henni kýs Sóley Ómarsdóttir að hafa nokkuð óljóst. Enda væri eitthvað bogið við að benda af öryggi og sannfæringu á eitthvað eitt. Það er nefnilega svo margt í nútímanum sem er sennilega óhollt fyrir okkur, jafnvel einkum það sem okkur finnst hvað skemmtilegast og við getum síst hugsað okkur að vera án. Einmitt það verður okkur fjötur um fót.

Það virðist allt leika í lyndi hjá Júlíu og Berki þegar þau koma heim af fæðingardeildinni með Þórdísi litlu. Samhent og glöð, en auðvitað líka dálítið stressuð og fyrstu mánuðirnir taka sinn toll. Nokkrum árum síðar er Börkur á leið í framhaldsnám erlendis og er farinn á undan með barnið meðan Júlía hnýtir lausa enda í fyrirtækinu. Hún hefur líka tekið að sér að skipuleggja endurfundapartí fyrir grunnskólabekkinn sinn með bestu vinkonunni Hrefnu, sem hefur dvalið langdvölum erlendis, farið allt aðra leið í lífinu en ferlafræðingurinn en er komin í stutta heimsókn vegna veikinda móður sinnar. En það leikur ekki allt í lyndi eins og smám saman kemur í ljós.

Ákvörðun Sóleyjar að setja hrun Júlíu ekki upp sem endapunkt skýrs og vandlega útmálaðs orsakasamhengis hefur óneitanlega veikjandi áhrif á dramatískan áhrifamátt sýningarinnar, sérstaklega þegar á líður og ljóst verður að líf litlu fjölskyldunnar er að liðast í sundur, móðirin og eiginkonan við það að segja sig úr lögum við hana. Líklega hjálpar ólínulegur frásagnarhátturinn heldur ekki til, en á móti kemur að hann olli heldur ekki alvarlegum ruglingi, enda ágætlega skýrt haldið utan um framvinduna og tímaflakkið í handriti og í vinnu leikstjórans, Árna Kristjánssonar.

Seint í verkinu, en snemma í sögunni, verður atvik sem mögulega má skilja sem upphaf endalokanna, en því er engu að síður haldið nokkuð óljósu, en þó einkum nákvæmlega hvernig það geti hafa sett hrunið af stað þremur árum síðar. Til þess að gera það hefði Sóley þurft að leggja mun meiri rækt við að sýna okkur samspil, tilfinningatengsl og valdatogstreitu hjónanna ungu. Sá þráður er of vannærður í textanum, það er næstum eins og hafi verið tekin ákvörðun að taka Börk „út fyrir sviga“ í sögunni. Hann er meira og minna í Noregi alla sýninguna og hlustar á undanbrögð og hálfsannleik eiginkonunnar í gegnum Skype. Langþreyttur en skilningsríkur, og varla þátttakandi í atburðarásinni sem er erindi sýningarinnar. Og án mótspils og samhengis verða örlög Júlíu illsýnanleg. Þetta er helsta brotalöm verksins.

Öðru máli gegnir um hinn meginþráðinn, samband vinkvennanna sem endurnýja kynnin eftir langan aðskilnað í tilefni af fyrirhuguðu partíi sem gefur verkinu nafnið. Í senum Júlíu og Hrefnu tekst Sóleyju að búa til sannfærandi dramatísk samtöl sem afhjúpa persónurnar, sérstaklega þegar þær reyna að fela eitthvað eða ota tilbúinni framhlið hvor að annarri. Upprifjanir á fortíðinni eru skemmtilegar, sem og allir litlu árekstrarnir sem verða við það þegar þær uppgötva hversu ólíkar þær eru orðnar, og ólíkar þeim sem þær voru. Þessar senur eru helsti styrkur verksins. Sóley ofgerir þessum andstæðuleik aldrei, né heldur gengur hún of langt í að láta stallsysturnar vera fulltrúa ólíkra lífsviðhorfa eða gilda, þó þess sjáist vissulega stað. Það dregur úr slagkraftinum en eykur trúverðugleika sálræna raunsæisins sem hér er unnið með. Þegar á heildina er litið gengur Sóley of langt í að halda öllu opnu og bæta of litlu eldsneyti á bálið, á því tapar fjölskyldudramað en vinkvennasenurnar græða. Þær bara geta ekki verið aðalatriðið, ekki þegar vanræksla barns og sambandsslit móður við það er hinn þráðurinn. Með svoleiðis efni í bakgrunninum mun bakgrunnurinn krefjast aðalhlutverks í huga áhorfandans, sama hvað.

Að þessu öllu sögðu þarf ekki að koma á óvart að Sólveig Guðmundsdóttir og Sara Martí Guðmundsdóttir njóta sín talsvert betur á þessu Rejúníoni en Orri Huginn Ágústsson, sem vinnur þó mjög snyrtilega og áreynslulaust úr rýrum efnivið í hlutverki Barkar. Flökkueðlið og nútímalegt frjálslyndi Hrefnu verður alveg sannfærandi hjá Söru Martí og niðurbrot Júlíu verður að teljast á heimavelli Sólveigar Guðmundsdóttur, sem virðist vera sú leikkona sem helst er hringt í ef konur á barmi taugaáfalls birtast í handritinu. Hún gerir þetta næsta óaðfinnanlega en þarf að fara að fá hlutverk af öðrum toga í bland. Samleikur þeirra Sólveigar og Söru er fallegur og áreynslulaus og fínlegar tímasetningar vöktu oft hlátur.

Umgjörð Fionu Rigel og hljóðmynd Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur eru þénugar og uppsetningarvinna Árna honum til sóma. Gaman hefði verið að Skype-samtölin hefðu fengið aðeins raunsæislegri umgjörð en míkrófón fyrir Börk á hliðarpalli, svona í ljósi þess að skjávarpi og tjald eru til staðar og gegna veigamiklu hlutverki við að sýna okkur Snapp-drottninguna að störfum, sem var skemmtilega gert hjá Inga Bekk.

Rejúníon hélt athygli minni allan tímann og bestu sprettirnir eru höfundi, leikstjóra og leikendum til sóma. Þegar á heildina er litið hefði samt þurft meiri kraft og einurð og skýrari stefnu um hvað verið væri að segja, hvernig og hvers vegna mál þróast svona hjá litlu læknis- og ferlafræðingsfjölskyldunni.