sunnudagur, maí 27, 2007

Partýland

Gilligogg, Þjóðleikhúsið, Listahátíð í Reykjavík og Mindgroup.
Þjóðleikhúsið 27. maí 2007

Höfundur: Jón Atli Jónasson, leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson, lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason, búningar: Íris Eggertsdóttir, leikmynd: hópurinn.

Leikendur: Björn Thors, Erlingur Gíslason, Friðgeir Einarsson, Jón Páll Eyjólfsson, Jón Atli Jónasson, Laufey Elíasdóttir og fleiri.

En fjallkonan?HVAÐ segir 17. júní um okkur? Hvernig endurspeglast þjóðarsálin í því hvernig við fögnum tilveru okkar sem þjóðar? Og hvað er það eiginlega að vera Íslendingur í dag, á tímum alþjóðavæðingar, frægðardekurs, Íraksstríðs og nýríkra rappaðdáenda?

„Lítum nánar á þetta,“ segja landsstjórar Partílands eins og ábúðarmiklir fréttaskýringarþáttastjórnendur og bjóða síðan upp á beina útsendingu frá móður allra þjóðhátíða. Í sönnum anda raunveruleikasjónvarpsins hefur sýningin losaralegt og stefnulaust yfirbragð veruleikans, en er í raun ísmeygileg og þaulskipulögð eftirmynd hans. Allt sem sést er ákvörðun þess sem stýrir sýningunni – allt er hluti af merkingu hennar og sögn.

Hver er sú sögn? Hún er vísvitandi óskýr og misvísandi í sýningunni, þar sem ægir saman mærðarlegum hátíðarræðum og mishallærislegum skemmtiatriðum í fornum stíl, og stuttum leikþáttum þar sem ádeilubroddurinn er afhjúpaður stutta stund áður en varnarhjúpur kaldhæðninnar er aftur vafinn þétt utan um hana.

Partýland á tvo foreldra í fortíð höfunda sinna.

Fyrir nokkrum árum settu Jón Atli og Stefán Jónsson saman dansleikhúsverk þar sem þeir unnu með félagsskap áhugafólks um danslistina. Hópurinn mætti í Borgarleikhúsið og dönsuðu sér til ánægju meðan stefnuskrá hópsins birtist okkur í kraftbirtingu Powerpoint á skjá. Útkoman var mögnuð tjáning á einföldum sannindum um dans og afstöðu hans í samfélagi listgreinanna.

Um svipað leyti vann Jón Páll með Stúdentaleikhúsinu einhverja beittustu og áhrifaríkustu pólitísku revíu sem sést hefur á Íslandi. Þú veist hvernig þetta er hét hún og var aldeilis mögnuð í afdráttarlausri afstöðu sinni sem myndaði órofa heild með aðferð hópsins þar sem tilfinningalegt örlæti leikhópsins réttlætti kaldranalegt yfirborðið og gerði sýninguna áhugaverða sjálfar sín vegna, óháð boðskapnum.

Þeir Jónar hafa semsagt lengi glímt við það slungna verkefni hvernig leikhúsið gerir sig gildandi í gagnrýninni umræðu um þjóðfélagið. Það væri ofrausn að segja að þeir hafi leyst það hér, en hrós eiga þeir skilið fyrir að hafa skýra grunnhugmynd sem sjálf leggur þeim bísna mikið til. Á 17. júní stendur þjóðarsálin berskjölduð, þetta er jú dagurinn þegar hún er viðruð. Og ef hún sést ekki fyrir skrumi, ólíkindum, hundasýningum, stjörnuheimsóknum og öðrum fíflalátum þá segir ÞAÐ líka eitthvað um sjálfsmynd okkar.

En fyrir utan þennan sniðuga og tæknilega vel útfærða ramma þá falla þeir bræður því miður á næsta prófi. Þeir hafa nefnilega harla lítið nýstárlegt, ögrandi eða umhugsunarvert að segja um viðfangsefni sitt. Allavega ekkert sem dæmigert samsafn af frumsýningargestum Þjóðleikhúss og Listahátíðar getur ekki sagt sér sjálft. Mér skilst að þetta hafi verið eina fyrirhugaða sýningin á Partýlandi. Hvert var þá erindi hópsins við þennan tiltekna og vel skilgreina markhóp? Var eitthvað í alvöru vogað við spaugstofulega brandara um hina nýríku og forsetafrúna? Var hinn rausnarlegi hlátur áhorfenda ekki bara til vitnis um sjáfsánægju þeirra sem telja sig uppýsta og nutu þess að fá staðfestingu á siðferðilegum yfirburðum sínum frá tveimur listamönnum sem búið er að gefa stöðuna „ögrandi en áhugaverðir“.

Það er erfitt að búa til leikhús sem er bæði listrænt framsækið og innihaldslega ögrandi. Og það þarfnast meira plásss og dýpri þekkingar en ég bý yfir til að greina hvers vegna svona margar tilraunir eru gerðar til að ná þessum illsamræmrýmanlegu markmiðum í sömu verkefnunum. Það tókst ekki núna. En fólkið hló og skemmti sér eins og á hverri annarri afraksturssýningu markaðsleikhússins. Það er kannski áfangasigur.