mánudagur, maí 08, 2006

Skuolfi

SKUOLFI

Jojk-ópera eftir Johan Sara jr. og Harriet Nordlund. Beaivvás Sámi Teáhter. Norræna húsinu 8. maí 2006.

Ugluspil


HÚN fór ekki hátt, heimsókn þjóðleikhúss Sama til Íslands að þessu sinni. Enda voru áhorfendur næsta fáir í Norræna húsinu á sunnudaginn þegar þau sýndu seinni sýningu sína á jojkóperunni Skuolfi.

Samt er þetta víðfrægt leikhús með gott orðspor og sterka Íslandstengingu í gegnum Hauk Gunnarsson sem um árabil var leikhússtjóri og hafði mótandi áhrif á listræna stefnu leikflokksins. Og einhvern tíma hefði því nú verið haldið fram að íslenskt leikhús væri fábrotnara en svo að leikhúsiðkendur og -áhugamenn hefðu menningarleg efni á að láta jafnframandi sýningu og þessa fram hjá sér fara.

Og það er framandleikinn sem heillar í Skuolfi. Seiðurinn í tónlistinni, hljómur tungumálsins, einlægnin í andlitunum. Innihald sýningarinnar er næsta óljóst, textinn virðist upphafinn og óræður, en sagan sem samkvæmt leikskrá kemst tæpast til skila.

Að einhverju leyti er vitaskuld um að kenna tungumálinu, en ég hef séð nógu mikið af sýningum á málum sem ég skil ekkert í til að vita að hér hefði verið hægt að miðla mun skýrar. Sterkari andstæður og minni óræðni hefði hjálpað okkur að skilja og samlíða með náttúrubarninu Jovna Nilas sem nefndur er Uglan í tilraunum hans til að fóta sig í breyttum heimi nútíma lifnaðarhátta.

Sýningin virðist ekki miðla því efni sem upplýsingarnar benda til að sé tilgangurinn. Á hinn bóginn er það sem fyrir augu og eyru ber áheyrilegt og áferðarfallegt í sjálfu sér. Tónlistin einföld en sterk, hljóðmynd slagverks, bassaklarínetts og sópransaxófóns skemmtileg og söngurinn látlaus og hreinn. Umgjörðin falleg og óvenjuleg, með hálfu hvítu tjaldi og hálf-þjóðlegum búningum. Ingor Ántte Áilu Gaup og Egil Keskitalo buðu af sér látlausan þokka í hlutverkum Nilas og prests, en það var Mary Sarre sem fangaði hugann í torræðu hlutverki einhvers konar náttúruanda (að ég held) með skýru og óvenjulegu líkamsmáli, sem jaðraði við dans, og fjölbreyttri raddbeitingu. Skuolfi er torskilin sýning en falleg. Það er alltaf þakklátt að fá að skyggnast inn í framandi heima, en leikhúsið býður upp á talsvert öflugri hjálpartæki við að skilja annað fólk en þau sem Beaivvás Sámi Teáhter beitti hér.