sunnudagur, mars 12, 2006

Sódóma

Thalía, Leikfélag Menntaskólans við Sund Leiksýning byggð á kvikmynd Óskars Jónassonar. Leikstjórar: Aino Freyja Järvelä og Hrefna Hallgrímsdóttir. 12. mars 2006.

Smákrimmagrín

SKÓLALEIKFÉLÖGIN sækja í kvikmyndirnar sem aldrei fyrr. Leikfélag Menntaskólans við Sund vann út frá ástsælustu gamanmynd Íslandssögunnar í fyrra og snúa sér eðlilega núna að þeirri næstskemmtilegustu. Eða skemmtilegustu, myndu sumir segja.

Ef íslenski meikdraumurinn í Með allt á hreinu er hallærislegur þá eru undirheimar Reykjavíkur í Sódómu hálfu vesælli. Fyrir nú utan að forsendum beggja mynda hefur eiginlega verið kippt í burtu. Sífellt fleiri íslenskar hljómsveitir standa sífellt fagmannlegar að útrás sinni, og Arnaldur og félagar hafa gert íslenskar glæpabókmenntir sannfærandi. Samt eru báðar myndir ennþá fyndnar.

En flutningurinn af tjaldi á svið er ekki þrautalaus og tekst því miður ekki nógu vel hér, þrátt fyrir að leikstjórar og hópur taki sér nauðsynlegt frelsi frá myndinni hvað varðar atburðarás og einstök atriði. Sviðsetninguna skortir tilfinnanlega snerpu og þótt það hafi verið reynandi að hafa leikmyndina jafn naumhyggjulega og raun bar vitni þá gerir hún þá miskunnarlausu kröfu til leikendanna að þeir haldi athygli áhorfandans þrátt fyrir allt sjónræna áreitið og óreiðuna.

Svið Loftkastalans útheimtir hreinni bakgrunn og skipulegri notkun á rýminu en leið Aino og Hrefnu býður upp á. Mér þykja leikstýrurnar heldur ekki hafa stýrt sínu óvana liði nægilega vel. Hópurinn er greinilega lítt reyndur, en klárlega hæfileikar innan um.

Mögulega er það því að kenna að efnið er sótt í kvikmynd að leikstíllinn er almennt of tilþrifalítill, of lágt talað og of lítil meðvitund um að „senda“ út í sal það sem verið er að gera. Það næst ekki nógu hátt spennustig milli sviðs og salar.

Eins og gjarnan í menntaskólasýningum er það dans og söngur sem er fagmannlegast leystur. Hér er hljómsveit af holdi og blóði á sviðinu með þeim kostum og göllum sem því fylgir miðað við undirleik af bandi. Söngur kraftmikill og dans fallegur.

Af leikurum vekja mesta athygli Hólmgeir Reynisson sem gerir smákrimmann góðhjartaða, Ella, að stærri persónu en hlutverkið gefur tilefni til. Ingi Steinn Bachmann er einna kröftugastur sem sprúttsalinn Aggi. Einnig er miðpunktinum Axel ágætlega borgið hjá Karli Sigurðssyni. Þá er Edda Rut Þorvaldsdóttir allgóð sem hin óþolandi mamma.

Sódóma Thalíu býr að sumum kostum menntaskólasýninga. Hrá, á köflum fyndin og í tónlistaratriðum kraftmikil. Meiri skerpa og snerpa hefði gert hana ansi góða. Og hún fékk mig til að langa til að sjá myndina aftur til að athuga hvernig hún hefur staðist tímans tönn.