föstudagur, mars 17, 2006

Íslenski fjölskyldusirkusinn

Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð. Spunaverk unnið undir stjórn Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur. Aðstoðarleikstjóri: Árni Grétar Jóhannsson, tónlistarhöfundur: Helgi Rafn Ingvarsson, búningar:
Anna Sigríður Skarphéðinsdóttir, Kristjana Birna Birgisdóttir og Stefanía Ósk Ómarsdóttir. Verinu í Loftkastalanum 17. mars 2006.

Heima er best

ENGIN heilög kýr nýtur annarrar eins skilyrðislausrar virðingar og fjölskyldan. Ef fá á stóran hóp af fólki til að kinka kolli er eitt besta ráðið að segja eitthvað jákvætt um fjölskylduna, fjölskyldugildi og hvað miklu skipti að standa vörð
um hana.

En „fjölskylda“ er vitaskuld siðferðilega hlutlaust fyrirbæri. Þó svo að hin fullkomna fjölskylda sé vitaskuld eftirsóknarverð þá skyldi ekki gleymast að
griðastaðurinn heimilið er því miður stundum ekkert annað en afgirt veiðisvæði fyrir illvirkja og ofbeldismenn. Og eitt af því magnaðasta við grunnhugmynd Íslenska fjölskyldusirkussins er sú staðreynd að þótt sirkusnum og og fjölskyldunni sé stillt upp sem andstæðum þá eru samkennin líka til staðar.

Sirkusinn snýst um yfirborð, þá framhlið sem snýr að áhorfendum. Og þau hryllingshús sem er sýnt inn í í sýningunni eru að sama skapi upptekin af því að varpa falsmynd af ástandinu til umhverfisins. Grunnhugmynd Íslenska fjölskyldusirkusins er hreint frábær. Í sirkusi einum fyllast skemmtikraftarnir þrá eftir venjulegu fjölskyldulífi.

Sirkusstjórinn hefur nasaþef af svoleiðis og býður þeim frelsi sem getur fundið eina hamingjusama fjölskyldu. Eftir það skiptast á svipmyndir af fimm fjölskyldum sem allar hafa sinn djöful að draga og skrautleg sirkusatriði, en við fáum einnig óvænta innsýn í fjölskyldulíf innan fjölleikahússins
sjálfs.

Þetta er bráðskemmtilegt form. Hópurinn fékk leiðsögn í sirkuslistum og á nokkra ágæta spretti í þeim, en þó verður þessi þáttur sýningarinnar óneitanlega bragðminni en hversdagsatriðin. Ræður þar mestu skiljanlegt reynsluleysi, en einnig hefði mátt stytta þau atriði og þétta. Kostir þessara atriða; litagleðin og krafturinn og snjöll notkun rýmisins, hefði notið sín enn betur með hæfilegum niðurskurði.

Sýningin er glæsileg útlits. Búningar hreint listaverk og hráslagalegt rýmið í Héðinshúsinu nýtt á magnaðan hátt. Hljóðmyndin einstaklega vel útfærð og frumsaminn hluti hennar lofar svo sannarlega góðu með framtíð Helga Rafns. Sigrún Sól hefur áður sýnt að henni lætur bæði vel að laða fram ótrúlega þroskaðan og innlifaðan leik hjá nýgræðingum á sviði, án þess að fórna kraftinum og stjórnleysinu sem í reynsluleysinu býr.

Þessir góðu eiginleikar eru áberandi í sýningunni. Svipmyndirnar úr fjölskyldulífinu eru frábærlega unnar. Spuninn skilar margflata og sönnum persónum og handrit hvers þáttar er síðan yddað þar til ekkert stendur eftir af óþarfa. Morgunverðurinn á heimili barnaníðingsins, fatlaða stúlkan að reyna að horfa á sjónvarpið með ofvirkum bróður sínum, mæðgurnar að takast á við skrópasýki dótturinnar, uppgjörssenan í fjölskyldu þingkonunnar, heimkoma dóttur lögmannsins með útlenda kærastann. Allt saman eins og best verður á kosið í leikhúsi. Fyndið, grimmt, nákvæmt, satt.

Ég ætla að stilla mig um að hrósa einstökum leikurum, þó að margir hafi skilað eftirminnilegum tilþrifum. Læt nægja að geta þess að ég hef fáar sýningar séð þar sem jafn stór hópur skilar jafn góðu jafnvægi milli stjórnlausrar orku og agaðrar nákvæmni. Að hópurinn skuli geta þetta svona ungur er ekkert minna en kraftaverk. Kannski er það fjölskyldum þeirra að þakka, það er ómögulegt að segja og skiptir ekki máli. Íslenski fjölskyldusirkusinn er einhver eftirtektarverðasta sýningin á fjölum borgarinnar í dag.