þriðjudagur, mars 28, 2006

Emma og Ófeigur

Stoppleikhópurinn Eftir Árna Ibsen í samvinnu við Völu Þórsdóttur og leikhópinn. Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir, leikmynd, búningar og grafík: Guðrún Öyahals, hljóðmynd; Björn Thorarensen og leikhópurinn. Leikendur: Eggert Kaaber, Katrín Þorkelsdóttir og Sigurþór Albert Heimisson. 28. mars 2006

Að vera Hamlet, eða ekki 


STOPPPLEIKHÓPURINN fagnar tíu ára afmæli sínu með þessari sýningu sem á það sammerkt með flestum fyrri verkum hans að vera ætluð börnum og unglingum, en bregður út af vananum að því leyti að henni er ekki ætlað sérstakt fræðsluhlutverk eins og lengst af hefur verið helsta viðfangsefni hópsins.

Reyndar hafa síðustu verk þeirra farið meira inn á þær brautir að kynna fornsögurnar fyrir yngri kynslóðum með aðferðum leikhússins, og mögulega er Emma og Ófeigur rökrétt framhald af þeirri vinnu. Því hér er sjálfur Hamlet lagður til grundvallar. Eitthvert merkasta og margræðasta leikverk sögunnar, byggt á fornri sögu um ungan mann í erfiðri stöðu. Býsna áhugavert viðfangsefni fyrir leikhóp af þessu tagi, lýsir metnaði og vekur upp væntingar.

Því miður verður minna úr efninu en vonir stóðu til. Bæði handrit og sýning eru hálflosaraleg. Allsstaðar glittir í góðar hugmyndir sem ekki tekst að bræða saman í skýra heild. Það er snjallt hjá Árna Ibsen að snúa kynhlutverkunum við, láta Emmu glíma við tilfinningar sínar gagnvart fósturmóður sinni. Þessi umturnan gefur ýmis færi á skemmtilegheitum, ekki síst þegar kemur að þeim Rósinkrans og Gullinstjarna, sem hér eru djammbollurnar Rósa og Gulla. Þá eru spennandi möguleikar fólgnir í hugmyndinni um að nota sýndarheim verðbréfaviðskipta nútímans sem hliðstæðu við leikritið sem Hamlet setur á svið í verki Shakespeares til að svæla morðingja föður síns úr greninu.

En úrvinnsla þessara skemmtilegu hugmynda hefur ekki komist alveg nógu langt. Verkið verður það brotakennt að sagan sem sögð er verður tæpast nógu skýr til að standa ein og óstudd án innsýnar í frumverkið. Hlutverk draugsins, en þó sérstaklega Ófeigs (Ófelíu) nær til að mynda ekki að lifa sjálfstæðu lífi í sýningunni. Leiklausnin er líka ófullnægjandi. Eftir stendur tilfinning um góða hugmynd, ónýtta möguleika og ósk um að ekki verði látið staðar numið hér við að þroska hana.

Úrvinnsla Ágústu og leikhópsins hjálpar síðan ekki nægjanlega upp á sakirnar. Efnistök hópsins ýkja eiginlega miklu fremur upp brotakennt eðli handritsins. Stundum skilar slík leið skemmtilegri misklíð, en það næst ekki hér og þó það sé fánýtt að vera vitur eftir á þá vekur útkoman grun um að þveröfug leið einfaldleika og kyrrðar hefði byggt betur undir persónurnar og styrkt framvinduna.

Eins og með handritið eru tilteknar hugmyndir í uppfærslunni bráðskemmtilegar, ekki síst óvenjuleg útfærslan á föður Emmu, sem ekkiverður ljóstrað upp hér hvers eðlis er. Reyndar saknaði ég atriða þar sem samband þeirra feðgina væri sýnt, en í staðinn fáum við snjalla og táknræna mynd af hinum sterka og þögla heimilisföður sem síðar gefur kost á hroðalegum endalokum.

Katrín Þorkelsdóttir hefur myndugleika og fallega nærveru í hlutverki Emmu, gefur skýrt í skyn bæði styrk persónunnar og veikleika. Eggert Kaaber lætur vel að sýna lágan status á eðlilegan en um leið spaugilegan hátt, en nær ekki að yfirvinna óskýran tilgang Ófeigs í verkinu. Sigurþór Albert Heimisson nýtur sín greinilega sem vonda stjúpan Geirþrúður þó óöryggis hafi gætt nokkuð í þeim atriðum sem báru mest spunaeinkenni.

Umgjörð sýningarinnar er afar skrautleg, búningar sundurgerðarlegir án þess að þeir hafi skýra sögn, myndvarpar eru notaðir óspart en á óræðan hátt og það sama má segja um háværa tónlistina.

Það er mikið að sjá og skynja í Emmu og Ófeigi, fullt af misdýrum bröndurum og fyrir þá sem þekkja Hamlet er gaman að elta uppi hliðstæður og andstæður. Skýrari uppbygging frásagnarinnar, og/eða nákvæmari og hófstilltari beiting sviðsmeðala hefði gert sýninguna að heildstæðara listaverki.