laugardagur, nóvember 26, 2005

Vetrarævintýrið um selinn Snorra

Leikbrúðuland
Gerðubergi 26. nóvember 2005.

Leikgerð Helgu Steffensen og Arnar Árnasonar byggð á efni úr sögu Frithjof Sælen.
Leikstjórn: Örn Árnason.
Brúðugerð: Erna Guðmarsdóttir og Helga Steffensen
Leikmynd: Þorvaldur Böðvar Jónsson
Leikraddir: Sigrún Edda Björnsdóttir, Pálmi Gestsson og Örn Árnason
Brúðustjórnun: Aldís Davíðsdóttir og Helga Steffensen
Tónlist: Níels Ragnarsson

Lífsleikni á norðurhjara


STARFSEMI Leikbrúðulands er eitt af merkilegum menningarverkum sem fara ekki hátt, en þeim mun víðar. Í þrjátíu ár hefur þetta fyrirferðalitla leikhús flutt yngstu áhorfendunum skrautlegar sýningar við þeirra hæfi og örugglega sáð ýmsum fræjum í ímyndunarafl áhorfenda sinna sem hafa haft ósýnileg en afdrifarík áhrif til góðs. Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn sem undirritaður sér sýningu Leikbrúðulands og sjálfsagt of seint að ala mig upp.

Snorri litli þarf að læra að varast hætturnar í umhverfinu. Sumar eru augljósar eins og rándýrin tvö sem vilja leggja sér hann til munns, gaman að sjá háhyrninga aftur komna í hlutverk illhvelisins eftir hliðarsporið sem ímynd þeirra steig á mektarárum Keikós. Það er tiltölulega einfalt mál að læra á slíka óvætti. Öllu snúnara er að öðlast skilning á því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir. Hér er þeirri lexíu gerð skil með framgöngu mávanna tveggja, Sultar og Svangrar, sem leiða Snorra í veg fyrir hinn sísvanga ísbjörn Voða. En erfiðast er að sigrast á sjálfum sér, læra að þekkja veikleika sína og varast ógöngurnar sem þeir geta leitt mann í. Snorri er nefnilega hégómlegur lítill kópur og fljótur að láta blekkjast af skjalli. Alla þessa lærdóma er hann látinn nema í sýningunni á beinskeittann en samt skemmtilegan hátt. Orugglega verður gaman að diskútera boðskap sögunnar við unga áhorfendur á leikskólum og annarsstaðar þar sem sýningin mun dúkka upp.

Því þetta er farandsýning, haganlega sett upp í snjallri og fallegri leikmynd sem þjónar sínum tilgangi vel. Brúðurnar eru og ásjálegar mjög, sérstaklega þó þær minni. Stóru dýrin eru öllu groddalegri, sérstaklega er Glefsir háhyrningur óþarflega föndurlegur miðað við sumar hinar. Mávarnir eru á hinn bóginn alveg sérlega vel heppnaðir og skemmtilegt að sjá þá birtast bæði agnarsmáa í fjarska og svo aftur stærri þegar þeir nálgast. Og fiskar og önnur smádýr sem gefa tilfinningu fyrir umhverfinu njóta sín vel, sérstaklega í fallegu upphafsatriðinu.

Textinn er lipur og þjáll og vel fluttur af þeim Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Pálma Gestsyni og Erni Árnasyni. Brúðustjónunin er fumlaus og aldrei tilfinning fyrir þeim mikla handagangi sem hlýtur að vera í öskju þeirra Helgu Steffensen og Aldísar Davíðsdóttur á bak við tjöldin. Hljóðmynd og upptaka á leiktexta er prýðileg og vel hefur tekist að samræma brúðustjórnun og hið upptekna efni.

Söguna um selinn Snorra las ég í æsku eins og flestir, en það er snjóað yfir það allt saman í minninu og því verður engin tilraun gerð til að meta hvað Vetrarævintýrið um selinn Snorra sækir í þá bók og hvað er frá leikgerðarhöfundum komið. Hitt má fullyrða að sýningin er ljúf og snotur með hæfilegan lífsháska til að halda athygli hinna yngstu þann rúma hálftíma sem það tekur að segja hana og miðla tímalausum lærdómnum sem hún býr yfir.