þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Komi þeir sem koma vilja

Bandamenn
Þjóðleikhúskjallaranum 29. nóvember 2005.

Leikstjóri: Sveinn Einarsson
Tónlist: Guðni Franzson.

Flytjendur: Borgar Garðarsson, Felix Bergsson, Jakob Þór Einarsson, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Stefán Sturla Sigurjónsson og Þórunn Magnea Magnúsdóttir.

Forn forréttur


MÉR þykir Bandamenn vera ansi hreint merkilegur hópur. Þau gegna hlutverki fornleifafræðingsins í íslensku leikhúsi, grufla í fornum fræðum og dusta grómið af gömlum handritum. Leiklestrar þeirra á týndum leikritum á borð við Álf í Nóatúnum sameina skemmtigildi og fræðslu. Bandamenn taka hlutverk sitt alvarlega, en sem betur fer ekki leiklistina sjálfa hátíðlega, og þegar best lætur, eins og í frumverkinu Bandamannasögu krækja þau í bernskan og hömlulausan leikstíl sem óupplýst fólk kennir við áhugamennsku en er í raun ein af uppsprettum lifandi leikhúss.

Um þessar mundir eru Bandamenn að grúska í gömlum danskvæðum og öðrum dægrastyttingarskáldskap fyrri alda, og buðu til dagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum til að viðra efniviðinn, sem greinilega var ekki kominn ýkja langt í vinnslu, en nægilega þó til að gefa hugmynd um möguleikana og þá lítt nýttu auðlegð sem þarna leynist.

Um flutningin er í sjálfu sér ekki margt að segja. Leikhópurinn var afslappaður og kátur með möppurnar sínar, flutti textann (oftast) af öryggi og einfaldar sviðshreyfingar næsta fumlausar. Búningar svört betriföt en sviðið skreyttu brúður úr fyrri verkum hópsins, þar af tvær sem fengu aðeins að vera með, enda ættaðar úr sama jarðvegi og verið var að róta í þetta kvöld: Háa-Þóra og Finngálknið. Tónlist Guðna Franzsonar vel heppnuð og viðeigandi, en mest var þó sungið undir hefðbundnum þjóðlegum lagboðum. Og sungið vel, með nýliðann Jóhönnu Vigdísi í fararbroddi. Mest var áberandi og eftirminnilegast hve gaman hópnum þótti að kynna okkur efnið, hve stolt þau báru það á borð. Hér var innihaldið í forgrunni.

Þó svo allskyns kveðskap hafi borði á góma, öfugmælavísur, bænir, jafnvel galdraþulur, voru það danskvæðin sem mynduðu kjarnann. Það er sterkur seiður í þessum gömlu kvæðum, og freistandi að bera tilfinninguna við að hlýða á þau flutt saman við þá sem kviknar í færeyskum dansi. Það er auðvelt að sökkva sér ofan í þjóðernislega sjálfsvorkun og öfund þegar manni gefst kostur á að upplifa og taka þátt í hinni sprelllifandi hefð nágranna okkar, gleyma sér í hrynjandinni, vera þátttakandi en ekki áhorfandi. Eins er það saknaðarblandin gleði að hlýða á FLUTNING á samskonar kvæðum, þar sem þaulmenntaðir leikarar undir stjórn ástríðumanns um fornan arf hafa lagt á sig grúsk og erfiði til að finna og æfa eitthvað sem á næsta bæ er hverju barni munntamt.

En í öllum vanköntum býr tækifæri, segir nútíminn. Framandleikinn og dularblærinn sem umlykur þessi ljóð getur orðið helsti styrkur þeirra í hverjum þeim búningi sem Sveinn og Bandamenn hans munu skapa þeim endist þeim erindið. Endurtúlkun, endursköpun, rannsókn á hvaða erindi þetta efni á í dag, er möguleg einmitt vegna þess að kvæðin eru ekki á hvers manns vör.

Þessi kvöldstund í Þjóðleikhúskjallaranum var eins og heimsókn í eldhúsið hjá meistarakokki. Okkur var sýnt hráefnið, aðeins brugðið á leik með það, en sjálf matreiðslan fer síðan fram bak við luktar dyr eins og vera ber.

Skemmtileg heimsókn - og vatn í munninum.