mánudagur, október 10, 2005

Ég er mín eigin kona

Skámáni
Iðnó 30. september 2005

Höfundur: Doug Wright
Þýðandi: Guðni Kolbeinsson
Leikstjóri, Stefán Baldursson
Leikmynd: Grétar Reynisson
Búningar: Dýrleif Ýr Örlygsdóttir og Margrét Einarsdóttir
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Leikari: Hilmir Snær Guðnason

Þrjátíu og fimmtaþraut


ÁÐUR en við snúum okkur að verkinu sjálfu og túlkunarmeðferð þess í sýningunni er rétt að taka eftirfarandi lykilatriði fram, fyrir þá sem ekki nenna að lesa leikdóma: Þetta er stórkostleg flugeldasýning þar sem hæfileikaríkasti leikari þjóðarinnar sýnir algera virtúósatakta. Fyrir þá sem njóta þess að upplifa list leikarans þar sem hún er hvað sýnilegust er Ég er mín eigin kona einhver stærsti og safaríkasti konfektmoli sem boðið hefur verið upp á hér um árabil. Og víkur þá sögunni að verkinu.

Ég er mín eigin kona er byggt á ótrúlegu lífshlaupi klæðskiptingsins Charlottu von Mahlsdorf. það vafðist víst heil ósköp fyrir höfundinum að koma efni sínu í sviðsvænt form, og á endanum urðu þau vandræði ein af uppistöðum verksins. Í upphafi kynna sinna af Charlotte hélt Doug Wright að efnið væri upplyftandi hetjusaga í amerískum stíl um óbilandi einstakling með smáðar hneigðir sem neitar að láta umhverfið kúga sig og kemst lifandi undan tveimur grimmustu alræðisríkjum aldarinnar, nasistum og kommúnistum á eigin forsendum - á háum hælum eins og segir í verkinu. Og tekst í leiðinni að bjarga merkilegum menningarverðmætum í formi húsgagna og iðnhönnunar frá aldamótunum nítjánhundruð ásamt því að reka samkomustað fyrir samkynhneigða í Austur-Berlín, þar sem slík frávik frá alþýðlegri meðalhegðan voru víst ekki sérlega vel liðin.

En svo fóru að birtast skýrslur úr söfnum Austur-Þýsku alríkislögreglunnar sem bentu eindregið til að hetjuljóminn hefði mögulega kostað samferðamenn Charlottu meira en hana. Hún virtist hafa verið á mála hjá Stasi, og m.a. komið einum vini sínum og samstarfsmanni í fangelsi. Hetjuljóminn, sjálf ástæða þess að Wright taldi sögu hennar í frásögur færandi, er horfinn og eftir stendur lítilsigld manneskja sem setti grammafónasafnið sitt ofar lífi og frelsi samborgara sinna.

Þessa þraut tókst Doug Wright ekki að leysa og kaus í staðinn að skrifa sjálfan sig inn í verkið og gera þróun samskiptanna við Charlottu og nýju upplýsingarnar að þungamiðju þess. Þetta er vandræðaleg lausn og persóna leikskáldsins óskýr og illa mótuð í samanburði við hina aðalpersónuna. Eftir stendur að lífshlaup hennar er í raun enn skrautlegra í ljósi þessara nýju upplýsinga þó ekki eigi hún sérstaka aðdáun skilda.

Leikstjórnarvinna Stefáns Baldurssonar einkennist af áreynslulausri fagmennsku og trausti á leikaranum, sem kemur ekki á óvart. Umgjörð sýningarinnar er sérlega smekkleg og hugmyndalega snjöll í einfaldleik sínum. Bakveggurinn með grammófónunm í fallegri lýsingu gerir ást Charlotte á þessum gripum skýra og skiljanlega, og aðrir merkisgripir eru kynntir til sögunnar á sniðugan hátt. Að öðru leyti er leikaranum látið eftir að draga upp mynd af stöðum, hlutum og aðstæðum, að ógleymdum persónunum þrjátíu.

Og hvílíkur leikari! Það eru svosem engin ný tíðindi að Hilmir Snær sé bæði einhver teknískasti leikari sem hér sést á fjölum, eða að hann hafi ómælt af sviðsþokka og nærveru þannig að öll augu eru einatt á honum og samúðin með. Hitt sætir tíðindum að fá tækifæri til að fylgjast með honum í þrautabraut á borð við þessa. Og aldrei fatast honum. Leiftursnöggar skiptingar milli persóna, tímaskeiða og staða vekja ævinlega aðdáun, og snöggteiknaðar skopmyndir eins og sumar aukapersónurnar eru þakklát viðfangsefni. Ekkert var hér makalausra en danski geðlæknirinn, þar sem Hilmir nær að sýna frændþjóðina í skyldum skopspegli og við erum vön að skoða þjóðir á borð við kínverja og indverja. Þessháttar inngróið grín geta allir gert, en þar sem skopgerfing baunanna er ekki komið í fastar skorður er Hilmir þar á ókönnuðum slóðum. Að sýna manni í fyrsta sinn að taka má líkamsmál og framgöngu þjóðar slíkum tökum er afrek.

Stóri galdurinn er samt sköpun Charlottu von Mahlsdorf. Langbitastæðasta persóna verksins og tilgangur þess. Hér nær list Hilmis mögnuðum hæðum. Líkamstjáning, innlifun og tímasetningar óaðfinnanlegar. Og hreimurinn. Þýski hreimurinn verður Hilmi lykill að persónunni, leysir hana úr læðingi allra klisja um karlmenn í kjólum, drottningar og sviðshomma. Ein klisjan frelsar aðra.

Hreimarnir eru síðan helsta vandamál sýningarinnar, eins og Stasi-skýrslurnar urðu stóri höfuðverkur höfundarins. Sú ákvörðun að leika Charlottu með þýskum hreim er skiljanleg, djörf og þegar upp er staðið snjöll. Öðru máli gegnir um aðrar persónur. Ameríkumenn eru undantekningarlaust leiknir með amerískum hreim. Þjóðverjar aðrir en Charlotta og hinn svikni Alfred eru án hreims. Ekki er lógíkin á bak við þetta mér ljós, og ameríkanarnir verða því miður að grunnum skopmyndum í þessari meðferð. Þarna þykir mér leikstjórinn fipast.

En ekkert getur skyggt á sigur Hilmis. Ég er mín eigin kona er veisla fyrir leikhúsumnendur. Af svipuðum toga og Harlem Globetrotters fyrir körfuboltafólk. Innihaldið er svona og svona, en listirnar eru ekki annarsstaðar leiknar betur.