sunnudagur, september 18, 2005

Himnaríki

Hafnarfjarðarleikhúsið
Hafnarfjarðarleikhúsinu 18. september 2005.

Höfundur: Árni Ibsen
Leikstjóri: Hilmar Jónsson
Leikmynd: Finnur Arnar Arnarsson
Búningar og gerfi: Ásta Hafþórsdóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson.

Leikendur: Elma Lísa Gunnarsdóttir, Erling Jóhannesson, Friðrik Friðriksson, Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir.

Hafnfirska kviðmágatalið


ENDURUPPSETNINGU Hafnarfjarðarleikhússins á sínu fyrsta og mesta kassastykki á tíu ára afmæli leikhússins má túlka sem óvenju varfærnislega listræna ákvörðun. En hin hliðin á þessari klókindalegu hugmynd er náttúrulega sú áhætta að sýningin núna kallar augljóslega á samanburð við hina fyrri. Það er hreinlega ekki hægt annað en að bera þær saman, og mikil yrði skömm Hafnarfjarðarleikhússins ef þau væru ekki að minnsta kosti jafn skemmtileg núna og 1995.

Þessi samanburður er þeim mun meira aðkallandi vegna þess að uppfærslan er í grundvallaraatríðum sú sama. Sviðsmyndin er sú sama, sviðshreyfingar að mestu leyti eins. Afgerandi munur birtist aðeins í búningum, sem að þessu sinni eru ýktari og skrítnari og er fyrir minn smekk ekki til bóta. Og svo náttúrulega í því sem hver leikari kemur með til verksins, en fjórir leikarar af sex ganga hér inn í Himnaríki í fyrsta sinn.

Auðvitað er hægt að hnýta í Hilmar og hans fólk fyrir að hafa ekki notað tækifærið til að reyna efnivið sinn með annarskonar nálgun. En svo er líka hægt að slappa bara af og njóta sýningarinnar á hennar eigin forsendum. Og það er svo sannarlega margs að njóta.

Himnaríki lifir í minningu þeirra sem sáu sem óvenju frumlegur og vel heppnaður gamanleikur. Frábærlega skemmtilegt formið, þar sem sama sagan er leikin tvisvar og áhorfendur fá að fylgjast með mismunandi hliðum hennar í hvort skiptið, á auðvitað stóran þátt í gleðinni. En það væri ekki til mikils ef innihaldið væri ekki svona glettilega vel teiknuð mynd af vinahóp á hinstu dögum djammára sinna, þegar leitin að nýjum bólfélaga og öðrum leiðum til að blása lífi í stuðið er orðin aðeins of örvæntingarfull. Fléttan er farsakennd án þess að vera vélræn, málfarið er hárrétt, tónninn er léttur, aldrei predikað, atburðirnir og viðbrögð persónanna við því sem gerist er látið tala sínu máli. Himnaríki Árna Ibsens væri eitt besta gamanleikrit á íslensku þó svo það gerðist ekki sitt hvoru megin við sumarbústaðarvegg.

Leikhópurinn tekur þetta þakkláta efni og gerir það algerlega að sínu. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir er að minnsta kosti jafn skelfilega hlægileg sem heimska en sjálfsörugga letibykkjan Unnur og hún var í fyrra sinnið. Þá er Friðrik Friðriksson dásamlega yfirspenntur í hlutverki Gauja og Elma Lísa Gunnarsdóttir hæfilega óþolandi sem óhemjan Steinunn.

Þrúður Vilhjálmsdóttir fær það hlutverk að vera mótvægi við vitleysuna í hlutverki nýju kærustunnar sem fljótlega er samt komin í sama ruglið og hinir. Þetta gerir þessi afbragðsleikkona sannfærandi og áreynslulaust.

Erling Jóhannsson er að þessu sinni í hlutverki ofurtöffarans Begga og gerir hann að mun meiri skopfígúru en hann var í fyrri sýningu. Á sama hátt og Tryggvi er ekki sama hversdagslega kjölfestan í vinahópnum og hún var í meðförum Erlings áður. Í stað þess gerir Jóhann G. Jóhannsson Tryggva hryllilega skrítinn og skoplegan.

Það er kannski heildarniðurstaðan af óhjákvæmilegum samanburðinum. Himnaríki 2005 er ýktara, litríkara og fyndnara en 1995-útgáfan, en að sama skapi veigaminna og erfiðara að koma auga á innihaldið.

Heilt yfir ágætis býtti myndi ég segja. Gaman samt að hafa séð báðar hliðar verksins.