sunnudagur, ágúst 14, 2005

Rósinkrans og Gullinstjarna eru dauðir

Fátæka leikhúsið
Tónlistarþróunarmiðstöðin sunnudaginn 14. ágúst 2005.

Höfundur: Tom Stoppard
Þýðandi: Snorri Hergill.
Leikstjóri: Karl Ágúst Þorbergsson.

Leikendur: Hannes Óli Ágústsson, Friðgeir Einarsson, Snorri Hergill, Hinrik ÞórSvavarsson, Bjartur Guðmundsson, Ástbjörg Rut Jónsdittur, Þorbjörg, Helga Dýrfjörð, Atli Sigurjónsson, Jón Stefán Kristjánsson, Halldór Marteinsson, Hjalti Kristjánsson og Leifur Þorvaldsson.

Leikarar: andstæðan við fólk


VIRTUR breskur leikstjóri og nýráðinn leikhússtjóri Globe-leikhússins í London lýsti verkinu sem hér er til umfjöllunar sem “ljótu bíslagi utan í snilldarverkinu Beðið eftir Godot”. Og vissulega eru samkenni með verkunum. Tveir trúðslegir fáráðar eyða tíma sínum í bið í báðum verkunum og eru næsta óvissir um stöðu sína í heiminum og tilganginn með þessu jarðlífi. Reyndar kemur á daginn að tilvist Rósinkranz og Gullinstjarna hefur svo sannarlega tilgang, þó ekki sé hann af því taginu sem blæs mönnum eldmóð í brjóst. Þeir eru nefnilega aukapersónur í annarra manna lífsdrama. Kannski erum við það öll. Merking verksins er ekki meira á hreinu en svo að þegar höfundurinn var spurður um hvað það væri skömmu eftir frumflutning þess svaraði hann: “Um... það bil að gera mig forríkan”, sem reyndist rétt vera.

Sú staðreynd á sér náttúrulega rætur í að verkið er bráðskemmtilegt á svolítið menntaskólalegan hátt, blandar saman vitsmunum og fíflalátum í góðan kokkteil sem bæði er hægt að hugsa um og flissa yfir. Báðum þáttunum er svo haldið til skila í sýningu Fátæka leikhússins. Fyrri hluta sýningarinnar er slagsíðan heldur gríninu í hag, stundum svo að fíflalætin bera lífið á sviðinu ofurliði. En í síðari hlutanum ná aðalleikararnir, þeir Hannes Óli Ágústsson og Friðgeir Einarsson, í skottið á sönnum tilfinningum og mæta örlögum sínum fallega. Leikarar eru heilt yfir ágætir, en auk tvímenningana má nefna Snorra Hergil sem hafði mikinn myndugleika sem stórleikarinn, auk þess að þýða verkið lipurlega og stundum ánægjulega frjálslega.

Sýningin er víst unnin á skömmum tíma, sem skilar henni áreiðanlega þeim ferskleika og krafti sem í henni býr. En svoleiðis vinnubrögð kosta líka. Hér koma þau niður á samleik og þróun persónanna, en þó sérstaklega í því hvað flausturslega er unnið með skemmtilega grunnhugmynd sýningarinnar, að nota mismunandi leikstíl til að draga fram muninn á “lífi” tvímenninganna og “hlutverki” þeirra í verkinu um Hamlet danaprins. Nákvæmari og betur útffærð skopstæling á óhemjuleik hefði bætt heilmiklu við áhrifin, þó oft væri gaman að fyrirganginum í aðalsmönnunum á Helsingjaeyri og tilraunum Rósa og Gulla til að halda í við þau. Eins saknaði ég að þriðji stíllin, stíll farandleikaranna, væri útfærður þannig að hann varpaði enn einu ljósinu á hugmyndina.

Annað sem verður dálítil lýti á sýningunni er hve rýmisnotkunin er ómarkviss. Umgjörðin býður upp á skemmtilega hluti í einfaldleik sínum, en of margir möguleikar nýttust ekki og má trúlega kenna þar um fyrrnefndu tímahraki og mögulega reynsluleysi leikstjórans.

En hvað um það: þetta er skemmtileg sýning hjá Fátæka leikhúsinu, sköpunarfjörið er ósvikið og svo eiga þau heiður skilinn fyrir að standa fyrir einni af alltof fáum tækifærum sem við höfum hér til að sjá verk þessa galgopalega alvörumanns.