laugardagur, apríl 09, 2005

Rígurinn

Leikfélög Menntaskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri
Gryfjunni í Verkmenntaskólanum laugardaginn 9. apríl 2005

Höfundar: Andri Már Sigurðsson og Ævar Þór Benediktsson
Leikstjóri: Þorleifur Arnarsson
Hljómsveitarstjóri: Sigurður Helgi Oddsson

Af fornri heift

FRAMHALDSSKÓLARNIR á Akureyri hafa ekki farið varhluta af "sjóveikinni" sem stingur sér niður í hverjum menntaskólanum á fætur öðrum þessi árin. En að sjálfsögðu eru einkennin með örlítið öðrum blæ en fyrir sunnan. Tónlistin er allajafnan "live", þ.e. ekki er notast við upptekinn og aðkeyptan undirleik heldur settar saman hljómsveitir með skólafélögunum (auðvitað eru samt á þessu undantekningar í báðar áttir). Það sem tapast af fagmennsku vinnst aftur í formi ferskleika og sannfæringar, því allt snýst þetta jú um að bera á borð eigin sköpun. Með Rígnum er síðan stigið eitt skref í viðbót því handritið er eftir tvo skólapilta (eða hvort þeir eru nýútskrifaðir, skiptir ekki máli) og efnið sótt í aðstæður nemendanna sjálfra; rómaðan ríginn milli skólanna tveggja sem sameinast um sýninguna. Grindin er svo sótt í Rómeó og Júlíu, svolítið eins og ættarmótsnefndir Montags og Kapúletts sameinist um skemmtiatriði.

Handritið hefur margt gott við sig. Í fyrri hlutanum, meðan verið er að lýsa aðstæðum og hrinda atburðunum af stað, tekst þeim bæði að skjóta sannfærandi skeytum á móralinn í báðum skólum og ýkja ástandið upp úr öllu valdi. Mörg meinfyndin atriði birtast okkur, ekkert þó snilldarlegra en kórsöngur montinna MA-inga sem slær út ég elska menn hjá Versló um árið sem er best heppnaða tónlistaratriði sem ég hef séð í framhaldsskólasýningu. Og talandi um þann skóla, að gera verslóstjörnuna Þorvald Davíð að persónu í verkinu sem hliðstæðu Parísar greifa í Rómeó og Júlíu er innblásin og dýrðlega andstyggileg hugmynd.

Í síðari hlutanum þyngist nokkuð róðurinn þegar dramað hellist yfir. Þannig er það líka í Rómeó og Júlíu, en það verður að segjast eins og er að hinum ungu höfundum fatast nokkuð flugið í alvörunni. Það er eitthvað við hinar ýktu og skemmtilegu aðstæður sem þeir skapa í fyrri hlutanum sem vinnur gegn harminum og siðferðislegri alvörunni sem þeir vilja greinilega fyrir allan mun skila. Meira frelsi gagnvart frumverkinu, meiri hlýðni við aðstæðurnar sjálfar í skólunum, léttari efnistök hefðu gert sýninguna frábæra, og á endanum skilað sterkari áhrifum. Þess í stað er hún "bara" verulega eftirtektarverð frumraun og frábært þrekvirki í uppfærslu á öllum póstum.

Sviðsetningin er ansi hreint mögnuð hjá Þorleifi og orkustigið hátt. Sérstaka aðdáun mína vöktu kraftmikil og frábærlega útfærð slagsmálaatriði, aftur eitthvað sem ég hef ekki séð nálægt því svona vel gert í öðrum skólasýningum og þó víðar væri leitað. Kannski má segja að stundum verði aðstæðurnar í Gryfjunni til þess að of margar sekúndur líði milli atriða en vel má vera að það þéttist. Jafnframt má reikna með að hljóðmaðurinn, sem ekki átti góðan dag, verði öruggari á sínu eftir því sem sýningum fjölgar. Hljómsveitin var mögnuð, en söngur nokkuð misgóður.

Allir helstu leikarar skila góðu verki. Mestur er stjörnubragurinn á Guðmundi Inga Halldórssyni í hlutverki Verslingsins, eins og vera ber. Foringjar gengjanna tveggja voru vel leystir af Unni Birnu Björnsdóttur og Þorkeli Stefánssyni. Elskendurnir sömuleiðis ágætir hjá Albert Sigurðssyni og Snjólaugu Svölu Grétarsdóttur. Hópurinn var samstiga mjög þrátt fyrir mikinn hamagang á köflum, rós í hnappagat leikstjórans sem er flinkur umferðarstjóri.

Rígurinn er einstakt verk um margt. Samvinna tveggja skóla um verk sem fjallar um ósamkomulag þeirra. Grettistak ungs fólks sem er mikið niðri fyrir um eigið líf og vill miðla því sjálft á eins áhrifaríkan hátt og kostur er. Gallarnir fölna við hlið hinnar augljósu ætlunar. Svona á að gera þetta!