miðvikudagur, mars 31, 2004

Stone Free

Sauðkindin, leikfélag Mennaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs miðvikudaginn 31. mars 2004

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Magnús Geir Þórðarson
Leikstjórn: Sverrir Árnason og Arnar Ingvarsson

Öld sakleysisins

AÐDRÁTTARAFL hippatímans er ótvírætt, og það birtist meðal annars í tíðum uppfærslum á leikritum, eða allavega söngleikjum, sem sýna tíðaranda tímabilsins. Sýning Sauðkindarinnar er önnur uppfærslan á hinu gallaða verki Cartwrights á nokkrum vikum, og Hárið bíður handan vorsins. Það er einhver háði blandin fortíðarþrá sem stýrir þessu verkefnavali, og ef hægt er að segja að einhver kjarni sé í lausbeislaðri revíu á borð við Stone Free þá er það einmitt svolítið angurvær söknuður eftir sakleysi hippatímans, meðan enn var hægt að tala um Ást og Frið með stórum stöfum, og trúa því að heimurinn hefði í raun breyst til hins betra. Þessi skilningur kemur alveg skýrt fram í sýningu Kópavogsmanna, jafnvel svo að boðskapnum var á köflum ýtt óþarflega kröftuglega að áhorfandanum.
Sauðkindin tekur djarfa ákvörðun þegar leikstjórn sýningarinnar er falin tveimur jafnöldrum hópsins sem hafa enga leikstjórnarreynslu, og varla mikla leikreynslu heldur. Því miður eru vankantar sýningarinnar augljósir og skrifast að miklu á reikning þessarar stefnu. Reyndar komast þeir vel frá umferðarstjórn verksins, mikill fjöldi aukaleikara er ágætlega nýttur til að skapa útihátíðarstemmningu og staðsetningar almennt fumlausar. Hins vegar hafa þeir ekki haft forsendur til að styðja leikarana við að skapa sterkar persónur eða hjálpa þeim sem minnsta reynslu hafa til að stíga sín fyrstu skref. Fyrir vikið verða fæstar persónurnar eftirminnilegar eða skýrar hjá hópnum. Einna best koma þau út Unnur Einarsdóttir Blandon sem hefur sterka sviðsnærveru sem nýttist henni vel í hlutverki kynnisins og Egill Viðarsson sem hinn ungi og ástfangni Al.

Tónlistin er í forgrunni í verkinu, enda gerist það á tónlistarhátíð. Hljómsveitin var kröftug og vel heima í þyngri hluta efnisskrárinnar, Steppenwolf og Jimi Hendrix, en tókst ekki að bregða sér á sannfærandi hátt í hlutverk mýkri spámanna á borð við Bítlana eða Small Faces, heldur bræddi þá í sama þungarokksmótið.

Stone Free er kröftug og litrík sýning hjá Sauðkindinni, en fer ekki á flug í meðförum hópsins, sem skrifast einkum á reikning reynsluleysis leikstjóranna. Þeir hafa vafalaust lært manna mest af þessari vinnu, og ekki annað að ætla en að næsta verkefni þeirra verði betur af hendi leyst, enda benda kostir sýningarinnar til þess að þeir hafi ýmislegt til brunns að bera.