miðvikudagur, mars 12, 2003

Lýsistrata

Fúría, leikfélag Kvennaskólans
Austurbæ 12. mars 2003.

Höfundur: Aristófanes
Þýðandi: Kristján Árnason
Leikstjóri: Stefán Jónsson
Tónlistarstjórn: Gísli Galdur.

Lifandi Lýsistrata

Fúría glímir nú í annað sinn við lífseigasta og nútímalegasta gamanleik heimsins, hina 2500 ára gömlu Lýsiströtu. Í byrjun fannst mér eins og sýninguna vantaði skýra stefnu, múslimskum gerfum Spörtukvennanna var ekki fylgt eftir á neinn hátt, en þetta lagaðist strax og hin óborganlega saga var komin af stað. Stefán Jónsson leikstjóri náði fljótlega vopnum sínum, beislaði kraftinn í krökkunum og leysti úr læðingi ófáan gamanleikarann. Það gengur mikið á, en samt var textameðferð upp til hópa til fyrirmyndar. Síðari hlutinn, þar sem kynlífsverkfall kvennanna er farið að setja verulegt mark á þær bæði og karlana, var frábær. Það sam má segja um tónlistina, umsköpun þeirra gömlu lumma sem snilldarþýðing Kristjáns Árnasonar styðst við var verulega vel heppnuð hjá Gísla Galdri.

Hrósa ber skörulegri framgöngu Gunnhildar Árnadóttur í titilhlutverkinu og hinum aumkunarverða Kinesiasi Steins Stefánssonar. Samt er það kannski leikhópurinn sem heild sem á mest hrós skilið. Engin feilspor, fítonskraftur og kómískt blik í auga. Endirinn, þar sem friðarbæn Johns Lennon er blönduð tómhyggjulegu pönki og öðrum bölmóði, var sterkur og minnti á að þó svo manni virðist Aristófanes hafa fundið upp patentlausn á stríðsbrölti hefur varla verið ýkja friðvænlegt síðan og síst nú. En leikritið hans er hrein dásemd og sýningin góð.