sunnudagur, febrúar 02, 2003

Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur

Leikfélag Reykjavíkur
Borgarleikhúsinu 2. febrúar 2003

Höfundar: Peter Brook og Marie-Hélène Estienne
Þýðandi: Hafliði Arngrímsson
Leikstjóri: Peter Engkvist
Dansar og hreyfingar: Yaron Barani
Leikmynd og búningar: Stígur Steinþórsson
Lýsing: Benedikt Axelsson og Kári Gíslason
Hljóð: Jakob Tryggvason

Leikendur: Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Harpa Arnardóttir, Sóley Elíasdóttir og Þór Tulinius.

Spark í heilabörkinn

MEÐ hæfilegri einföldun má segja að tilraunamennska Peters Brook hafi frá upphafi verið leit að endimörkum. Hvar er það minnsta sem þarf til að koma leikrænum skilaboðum til áhorfenda? Hversu litla þekkingu áhorfenda á lögmálum leiklistarinnar er hægt að komast af með? Hvenær hefur athöfn merkingu og hvenær ekki? Það þarf því engan að undra að hann hafi heillast þegar eiginkona hans gaf honum í jólagjöf bók Oliver Sacks um taugaraskanir. Afraksturinn var þetta verk, rannsókn á endimörkum skynjunar, atferlis og merkingar.

Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur er samansett af stuttum atriðum þar sem læknar afhjúpa tiltekið ástand sjúklings fyrir áhorfendum. Við kynnumst fólki sem hefur misst vald á tungumálinu, tapað skammtímaminninu eða aðgangi á skynjun sinni, eða hefur litla sem enga stjórn á líkamanum. En þó þetta sé heillandi og skelfilegur heimur sem við fáum innsýn í eru það spurningarnar sem vakna um hinn hversdagslega raunveruleika sem lifa með okkur. Hvað með okkar skynjun, erum við ekki jafnmiklir fangar hennar og sjúklingarnir sinnar? Hversu mikið af grundvallaratriðum í atferli okkar og lífi eru frosin mynstur sem við erum föst í? Maðurinn sem hélt að konan hans væri hattur fær mann til að horfa undrunaraugum á sjálfsagða hluti, sjá hversdagsleikann sem heillandi og skelfilegan, og það er dýrmæt gjöf.

Geðveiki og aðrir „dramatískir“ sjúkdómar hafa alltaf heillað leikskáld og leikhússfólk sem viðfangsefni, enda gefur annarlegt ástand jafnan tækifæri til að „fara á kostum“ á svo áberandi hátt að jafnvel daufustu áhorfendur sjá að eitthvað óvenjulegt er á ferðinni. Þetta verk gefur vissulega tilefni til svoleiðis flugeldasýninga, en hópurinn stenst þá freistingu og uppsker ríkulega. Nálgun Peters Enquist er eins og gerilsneydd, öllum óþarfa er ýtt til hliðar, leikarnir sýna okkur birtingarmynd sjúkdómanna án tilfinningasemi, nánast án persónusköpunar. Öll áherslan er á það sem skiptir máli, því sem við eigum að sjá. Á örfáum stöðum er taumhaldinu sleppt, einkum þegar sjúklingum er sýnt fram á röskun sem þeir hafa ekki vitað af. Viðbrögð Halldóru Geirharðsdóttur í hlutverki konu með skynjunartruflun við að líta í spegil eftir að hafa farðað sig skáru í hjartað, enginn skortur á tilfinningalegri innlifun þar. Og á köflum bregður vissulega fyrir „virtúósleik”, eftirminnilegast í Tourette-fyrirlestri Gunnars Hanssonar, sem nær samtímis að vera fullkomlega trúverðugur sem maður á valdi þessa dramatíska heilkennis sem einkennist af stjórnleysi yfir hreyfingum og tali, og jafnframt með algera stjórn á sér við að gefa okkur dæmi af sér og öðrum. Brecht hefði orðið glaður.

Til að brúa bilið milli atriðanna hefur verið settur saman einhverskonar draumkennd dansatriði sem mynda sterka andstæðu við kaldar staðreyndirnar sem bornar eru á borð í verkinu. Kannski er þörf á slíkum uppbrotum, en ekki þótti mér þessi þáttur sýningarinnar bæta miklu við. Það sama má segja um leikmyndina, nytjahlutirnir voru réttir en grunnformin þóttu mér engum tilgangi þjóna. Og hvernig væri að íslensk leikhús tækju höndum saman og settu bann við notkun vatns í leikmyndum í svona tvö til þrjú ár?

Leikararnir glíma hver um sig við að sýna okkur nokkra sjúklinga og bregða sér jafnframt í hlutverk lækna. Öll eiga þau áhrifaríkar senur, og nokkrar lifa sterkar í huganum en aðrar. Lamaða konan hennar Hörpu Arnardóttur sem stjórnar útlimunum með því að horfa á þá. Halldór Gylfason sem maður án skammtímaminnis. Málstola en óðamála Þór Tulinius. Sóley Elíasdóttir sem kona sem getur ekki skrifað bókstafinn “O” en getur teiknað tungl. Þór og Gunnar að glíma árangurslaust við að þekkja hversdagslega hluti á útliti þeirra. Allt óaðfinnanlega gert vegna þess að leikararnir leyfa okkur að horfa framhjá sér að kjarna málsins, viðfangsefninu.

Leikhópurinn á nýja sviðinu eflist við hvert verkefni, sem einstaklingar og hópurinn í heild. Með þessari sýningu taka þau að mínu mati sína stærstu listrænu áhættu og hafa, þegar á heildina er litið, sigur. Maðurinn sem hélt að konan sín væri hattur er ævintýraferð um heilabörkinn, vitsmunaleg skemmtun þar sem tilfinningarnar kvikna þar sem þær eiga heima: í hugum áhorfandans.