sunnudagur, febrúar 16, 2003

Hundshjarta

Herranótt
Tjarnarbíó 16. febrúar 2003


Leikgerð og þýðing Ólafs Egils Egilssonar á sögu Mikhail Búlgakovs, byggð á leikgerð Alexanders Chervinsky.
Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson
Leikmynd og búningar: Kristína Berman
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson
Dramatúrg: Hlynur Páll Pálsson
Tónlist: Björn Gauti Björnsson.

Tveir handanheimar

Í Hundshjarta erum við stödd í sæluríki kommúnismans með allri sinni yfirborðsstjórnvisku og undirkraumandi spillingu og valdatafli. Vísindamaður gerir tilraun með að græða hjarta úr smáglæpamanni í flækingshund og öðlast rakkinn þegar ýmsa mannlega eiginleika. Þetta þykja mikil undur og stórmerki, en fljótlega kemur í ljós að afstyrmið sem hann hefur skapað er óþægilega flinkur í lífsbaráttunni í Sovét, eiginleikar hunds og manns nýtast sérlega vel við að koma ár sinni fyrir borð í þessu spillta og ómennska samfélagi.

Leikstjórinn velur þá leið að staðsetja verkið í heimi gamalla hryllingsmynda og tekst sú stílfærsla afar vel, enda gegnumfærð í búningum, leikmynd og tónlistarflutningi. Efnið er líka í anda slíkra mynda svo þetta er vel til fundið hjá Ólafi. Það er helst að leikurinn hefði mátt vera meira gegnumfærður í "þöglumyndastíl", en ef til vill er það til of mikils mælst.

Sviðsetningin er feikivel unnin í einfaldri en snjallri umgjörð Kristínu Berman. Það er mikill hraði í sýningunni, sem er gott, nema þegar mikilvæg augnablik týnast í látunum sem gerist stundum, og þegar hraðinn smitast yfir í talhraða leikenda, sem henti hjá nokkrum, þó síst hjá aðalleikendum, sem er gott. Þá hefur leikstjórinn greinilega það mikið vald á verki sínu að hann leyfir sér að hlaupa út undan stílnum þegar góður brandari er í húfi og uppsker iðulega vel.

Læknarnir tveir eru vel leiknir af Hilmi Jenssyni og Karli Ágústi Þorbergssyni, og sá síðarnefndi var eins og klipptur út úr dr. Caligari.

Helga Lára Haarde og Harpa Viðarsdóttir eru góðar sem eldabuska og hjúkrunarkona/húsfreyja/ritari. Mikið hvílir á Sigurði Arent Jónssyni í stjörnuhlutverki hundsins. Mér fannst hann ekki allskostar finna sig í hinum "hreinræktaða" hundi, en eftir að mannshjartað var komið í hann var hann frábær, hvíldi algerlega í sínum siðblinda skíthæl og stóð með honum allt til enda. Húsfélagsformenn eru einatt afkáraleg mannkerti hjá Búlgakov eftir því sem ég þekki til og Markús Már Efraím var ágætur sem einn slíkur, þó ekki væri hann alfarið laus við fyrrnefndan talhraðavanda.

Hundshjarta er heilsteypt og sterk sýning á skemmtilega súrrealískri martröð með sterkum siðferðilegum undirtóni sem aldrei týnist alveg í uppátækjum og ólíkindalátum hópsins.