þriðjudagur, febrúar 25, 2003

Hrein mey á leiðinni

Thalía - leikfélag Menntaskólans við Sund
Austurbæ 25. febrúar 2003.

Þýðing og sviðsgerð: Jóhanna Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir.

Ástir samlyndra ungmenna

ÞÓ Hrein mey á leiðinni sé byggt á amerískri unglingamynd (10 Things I Hate About You) sem sækir efni sitt í leikritið Snegla tamin eftir Shakespeare er það í grundvallaratriðum önnur saga. Sem betur fer, því í stað þess að ung og “óþæg” stúlka sé vanin við yfirráð karlmannsins með næsta harkalegum ráðum eins og þar, er hér ung ófélagslynd stúlka vanin við hversdagslega meðalhegðun unglinga: skemmtanir, drykkjuskap, stefnumót - og ást. Miklu ásættanlegra. Eins og í frumverkinu þarf allt þetta að gerast til að yngri og “venjulegri” systur hennar gefist kostur á því sama. Hrein mey á leiðinni er ekki merkilegt verk, en hreint ekki leiðinlegt. Það sem helst vantar er meira kjöt á beinin í samdrætti félagsskítsins og vonbiðilsins. Þar er stiklað á helst til stóru, og hefði verið nær að sleppa fullkomlega tilgangslausum tónlistarnúmerum úr sýningunni, þó vel væru flutt, og gefa aðalpersónunum meira pláss til að taka út þroska sinn í okkar viðurvist.

Aðlögun kvikmyndarinnar að sviðinu hefur tekist dável, og grunar mig að þar ráði úrslitum einföld en hugmyndarík sviðsetning Ingridar Jónsdóttur. Það var hraði í sýningunni og stór leikhópurinn vel nýttur til að skapa andrúmsloft og aðstæður. Það er líka aðdáunarvert jafnvægi í leikhópnum og allir skila hlutverkum sínum af einlægni og margir með ágætum skoptöktum. Þar fara fremst Sólmundur Hólm sem örlagatöffarinn Jói Dan og Þorbjörg H. Dýrfjörð sem var hreint frábær sem fylgihnötturinn og Shakespearegrúppían Melkorka. Elskendapörin tvenn voru í góðum höndum hjá þeim Kára Viðarssyni og Herdísi Steinarsdóttur annarsvegar og Unni Birnu Vilhjálmsdóttur og Arnari Björnssyni hinsvegar. Sýningin er prýðisskemmtun, kraftmikil, hugmyndarík og ekki vitlausari en margt annað, til dæmis Snegla tamin.