þriðjudagur, apríl 16, 2002

Hárið

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri
Samkomuhúsinu á Akureyri 16. apríl 2002.

Höfundar: Gerome Ragni, James Rado og Michael Weller
Tónlist: Galt MacDermot
Leikstjórn: Hrafnhildur Hafberg.
Tónlistarstjórn: Björn Þórarinsson
Ljósahönnun: Róbert Lee Evensen
Hljóðhönnun: Gunnar Sigurbjörnsson.

Ástin að eilífu

HRÆDDUR er ég um að Hárið verði seint minn uppáhaldssöngleikur. Engin saga svo heitið geti, óáhugaverðar persónur sem mann varðar lítt eða ekki um, bláþráðótt tengsl texta og tónlistar, sem aukinheldur er ansi hreint misskemmtileg. Þó sumum þyki fínt að tala hæðnislega um sextíu og átta kynslóðina þá verðskuldar hún áreiðanlega burðugri eftirmæli, og ungdómurinn í dag betra tæki til að öðlast innsýn í hugarheim foreldranna.

Allt um það, þá hafa dæmin sannað að hægt er að gera úr þessum efnivið ágætis sjónarspil og það tekst svo sannarlega hjá Hrafnhildi Hafberg og hennar fólki hér. Sýningin er verulega vel heppnuð, gott flæði, pottþéttur tónlistarflutningur og leikræn frammistaða jafnbetri en í öðrum stórsjóum sem ég hef séð í vetur. Eitthvað verður vitaskuld undan að láta og Hrafnhildur hefur greinilega ekki lagt jafn ríka áherslu á óaðfinnanlega dansmennt og tíðkast á öðrum bæjum, en græðir í staðinn innlifun og leikrænan neista. Ekki amaleg bítti. Þá verður að geta þess að ólíkt öðrum sýningum af líku tagi sem finna má í öðrum hverjum framhaldsskóla þessi árin þá er hér ekki stuðst við undirleik af segulbandi heldur stendur sexmanna hljómsveit á sviðinu allan tíman, væntanlega skipuð menntskælingum.

Mest mæðir á sexmenningunum sem mynda klíku Bergers og svo sveitalubbanum Claude sem vígist inn í hippamenninguna í stað þess að bruna til Víetnam. Öll gerðu þau hlutverkum sínum ágæt skil en eftirminnilegust verða líklega Ævar Þór Benediktsson sem var eins og fiskur í vatni í hlutverki trúðsins Berger, Sindri Gunnar Ólafsson sem Voffi og hin ólétta og útúrreykta Jeanie í meðförum Hildar Halldórsdóttur. Kórinn var pottþéttur og hópatriði lipurlega sviðsett. Einföld umgjörðin gerði sitt gagn og búningar voru sérlega vel heppnaðir, svo og stemmningsrík lýsingin.

Fyrir utan nöldrið um verkið sjálft hef ég eiginlega aðeins tvennt við sýninguna að athuga, annað smávægilegt og hitt öllu viðameira. Smáatriðið varðar hina mjög svo vel spilandi hljómsveit. Úr því þeir voru látnir vera sýnilegir og meira að segja nokkuð áberandi, hefði ekki átt að dubba þá upp í hippaföt og láta þá á einhvern hátt samlagast sýningunni betur? Hitt atriðið er eilífðarvandamálið með söngtextana. Þeir voru með öllu ógreinanlegir, með örfáum undantekningum sem sanna að það er vel hægt að láta þá skiljast. Og í verki með þungamiðjuna í tónlistinni er það alger nauðsyn. Stúlkan sem söng smáauglýsinguna um Frank Mills og pilturinn sem átti fyrsta vers í lokasöngnum fá framsagnarverðlaunin að þessu sinni, hin taki sér tak.

Allt um það þá er hér á ferðinni firnagóð sýning sem ber metnaði, krafti og fagmennsku aðtandenda sinna vitni. Sýning sem fyllir Samkomuhúsið á Akureyri á þriðjudagskvöldi á greinilega erindi við sitt fólk.