sunnudagur, apríl 07, 2002

Hattur og Fattur

Litli leikklúbburinn á Ísafirði
Edinborgarhúsinu sunnudaginn 7. apríl 2002

Höfundur: Ólafur Haukur Símonarson
Leikstjóri: Elfar Logi Hannesson
Leikendur: Helgi Þór Arason og Páll Gunnar Loftsson.

Tveir menn og hundur

HATTUR og Fattur eru skrítnir kallar, greinilega af trúðakyni, sem lenda á vagni sínum á Íslandi, slappa af, hrekkja hvor annan, syngja nokkur lög, skreppa í sund og hypja sig síðan á brott. Þessari stund þeirra á skerinu er ætlað að hafa ofan af fyrir börnum, upphaflega skilst mér í sjónvarpinu, en nú í leikhúsinu. Yfirfærsla þessi er verk leikstjórans Elfars Loga en ekki fylgir sögunni hversu miklar breytingar hún hefur kostað á upprunalegu þáttunum.

Heldur er nú efnið rýrt í þessu stykki. Samtöl þeirra félaganna eru til lítils annars en að leiða þá og áhorfendur milli laga, sem standa vissulega fyrir sínu, sígildar perlur eins og “Ryksugan á fullu”, “Eniga Meniga” og “Það vantar spýtur”. Gaman má hafa af vandræðum Hatts við að finna orðin sem hann leitar að, og börnin á sýningunni glöddust við hrekkjabrögð þeirra félaganna, feluleik Fatts og vatnsaustur Hatts í tilraunum til að koma andanum yfir tónskáldið Hatt. Best lukkaða atriðið var samt að mínu mati þegar Hattur lét hundinn sinn leika listir sínar fyrir bita af vínarpylsu. Hundur þessi átti stórleik, en hafði tilhneygingu til að stela senunni með spangóli þegar betur hefði farið á að hann hefði sig lítt í frami.

Þeir Páll Gunnar Loftsson og Helgi Þór Arason komast ágætlega frá hlutverkum sínum, skýrmæltir og kraftmiklir, en hefðu að mínu viti þurft að fá strangari leikstjórn til að skila trúðslegu gamninu fyllilega. Sýningin er óþarflega laus í reipunum varðandi staðsetningar, tímasetningar og fókus sem kemur niður á áhrifamætti hennar. Enda hélst athygli barnanna ekki óskipt á sviðinu þennan tæpa klukkutíma sem sýningin tekur. Meiri stílfærsla og nákvæmni hefði hér gagnast vel, og ekki að efa að leikararnir hefðu ráðið við þá leið.

Helgi Þór ber hitan og þungan af söngnum og stendur sig með prýði með bjartri rödd og músíkölskum flutningi. Ágætlega spilandi hljómsveit yfirgnæfði þó óþarflega oft söngvarann, og eins virtist staðsetning hennar gera samhæfingu leikaranna við hana erfiða.

Sýningin er flutt hinu hálfkaraða menningarhúsi Ísfirðinga, Edinborgarhúsinu. Hráslagalegur salurinn var hin hæfilegasta umgjörð um sýninguna og vel má hugsa sér fleiri sýningar við þessar kringumstæður, þó sjálfsagt verði menn því fegnir þegar tekst að koma salnum í endanlegt horf.