laugardagur, desember 01, 2001

Þetta snýst ekki um ykkur

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Leikfélag Hornafjarðar
Mánagarði 1. desember 2001

Höfundar: Gunnar Gunnsteinsson og félagar í Leikfélagi Fljótsdalshéraðs og Leikfélagi Menntaskólans á Egilsstöðum.
Leikstjóri: Þröstur Guðbjartsson.

Að vita sína æfina

ÞAÐ tíðkast mjög hin síðari ár, eftir því sem framhaldsskólum í fámennari byggðarlögum fjölgar og þeir eflast, að leikfélögin á staðnum starfi með áhugasömum nemendum skólanna og leiksýningar settar upp undir sameiginlegum formerkjum aðila. Þetta er lofsverð þróun, bæði nýtast hinir reyndari leikfélagsmeðlimir vel í að leiðbeina unglingunum um hvaðeina sem snýr að uppsetningu leikverka, og fjörkippur hleypur í starfsemi leikfélagsins með samvinnunni við ungviði nýsmitað af leikhússbakteríunni. Nú hafa komist á tengsl milli Leikfélags Hornafjarðar og Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu sem lofa góðu og vonandi verður framhald á.

Það er þá vel við hæfi að verkefnið sem þau hafa valið sér er einmitt orðið til í samskonar samvinnu, milli Leikfélags Fljótsdalshéraðs og Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum. Grunnurinn að leikritinu Þetta snýst ekki um ykkur var lagður í spunavinnu þátttakenda undir stjórn Gunnars Gunnsteinssonar, sem síðan mótaði handrit úr þeim hugmyndum og persónum sem spuninn gaf af sér.

Verkið hverfist um vinahóp úr skóla og sjálfsvíg einnar stúlkunnar úr hópnum. Það gerist að mestu í tveimur sumarbústaðaferðum, einni afdrifaríkri á unglingsárunum og annari sem hópurinn fer í mörgum árum seinna eftir jarðarför Maríu, stúlkunnar sem svipti sig lífi. Atriði úr fortíð og nútið skiptast og kallast á og útkoman er athyglisvert leikrit, skipulega upp byggt, með skýrum persónum, bæði skemmtilegt og með sárum undirtóni. Það þarf þó ekki að koma á óvart að þeir hlutar sem fjalla um yngra fólkið eru bæði betur skrifaðir og persónurnar trúverðugri á þeim árum. Kemur þar væntanlega til reynsluheimur upprunalega spunahópsins. Þetta endurspeglast síðan í uppfærslu Hornfirðinga, þeim leikurum sem léku fólk á sínu reki gekk auðvitað betur að skapa trúverðugar persónur.

Þröstur Guðbjartsson stýrir sýningunni og tekst að láta hana renna vel. Hugvitsamleg leikmynd, vel útfærðar skiptingar milli tíma og kraftmikill leikur verður til þess að hvergi verður dauður punktur þó atriði séu stutt og skiptingar tíðar. Hann velur þá leið að draga fram skopið í verkinu með nokkuð ýkjukenndum leik á köflum, sem þjónar vel skoplegri þráðum verksins en nokkuð á kostnað alvarlegri þráða verksins. Þetta er vissulega fær leið, en fyrir vikið er varla innistæða fyrir tilfinningalegri innlifun áhorfenda á stundum þegar persónurnar hleypa okkur nær sér.

Leikhópurinn skilar sínu á heildina vel. Mest þótti mér til koma túlkunnar Eddu Bjarnadóttur á brandarakellingunni Evu yngri og Jónasar Magnússonar á Svenna yngri, sem glímir við kynhneigð sína og fyrirsjáanlega fordæmingu foreldranna. “Eldra fólkið” á erfiðara um vik eins og áður sagði, en Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir hafði örugg tök á hreinræktaðri skopfígúru í hlutverki pjattrófunnar treggáfuðu, Stínu eldri.

Í heild ágætlega sviðsett og skemmtileg sýning sem vonandi verður upphafið að frekara samstarfi leikfélags og skóla á Höfn.