miðvikudagur, júní 21, 2000

Á rúmsjó

Auseklis Limbazi Theatre frá Lettlandi
Miðvikudaginn 21. júní. 2000

eftir Slawomir Mrozek.
Leikstjóri: Inta Kalnina.

LEIKLIST - L2000 - Leiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga á Akureyri


UNDANFARIN ár hafa menningarsamskipti Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna vaxið mjög og verið sérstaklega áberandi á leiklistarsviðinu. Ekki fer á milli mála að þessi tengsl hafa opnað okkur nýja sýn á ýmsa hluti og er það vel. Af þeim kynnum sem undirritaður hefur haft af lettnesku áhugaleikhúsi er óhætt að fullyrða að þar fer leiklist í hæsta gæðaflokki sem ævinlega er spennandi og nýstárleg. Það er því mikil ánægja að þessi lettneski hópur skuli heiðra Akureyringa með list sinni á hinni veglegu leiklistarhátíð sem haldin er í tilefni hálfrar aldar afmælis Bandalags íslenskra leikfélaga.

Á rúmsjó eftir pólska háðsádeiluskáldið Slawomir Mrozek er einþáttungur um vald og valdabaráttu en kannski samt helst um beitingu valdsins. Þrír skipbrotsmenn standa frammi fyrir því að þurfa að leggja sér einn þeirra til munns. Spurningin er: Hvern? eða réttara sagt: Hvernig á að velja? Ýmsar leiðir eru reyndar en undir yfirbragði lýðræðis og réttlætis dragast tveir fljótlega í fylkingu gegn einum þeirra. Þar með eru örlög hans ráðin. Jafnvel þótt sviksemi og lygar hinna séu þeim öllum ljósar ber allt að sama brunni. Ekkert getur bjargað honum, ekki einu sinni þegar þeir finna óvænt matarbirgðir sem myndu bjarga þeim öllum. Valdið, kerfið, hefur tekið völdin, skynsemi og mannúð löngu gleymdur munaður.

Í meðförum Auseklis Limbazi Theatre verður þetta valdatafl að einkar sterkri sjónrænni veislu. Einfaldur sviðsbúnaður býður upp á ótæmandi möguleika til að stilla upp myndum og teikna átökin. Lýsing er notuð á áhrifamikinn hátt og lokamyndin líður áhorfendum líklega seint úr minni.

Leikhópurinn samanstendur af fjórum ungum mönnum sem voru hver öðrum betri. Allir höfðu þeir kraftmikinn en agaðan leikstílinn fullkomlega á valdi sínu. Leiftursnöggar breytingar á stemmningu komast auðveldlega til skila þótt eðli málsins samkvæmt fari textinn að mestu fyrir ofan garð og neðan fyrir okkur sem ekki erum þeim mun sleipari í lettneskunni. Meira að segja fyndnin, sem er ríkulegur hluti af vopnabúri Mrozeks, kemst iðulega til skila í svipbrigðum og látæði leikaranna. Fer þar fremstur Didzis Jonovs í hlutverki þess sem étinn er, iðulega óborganlega umkomulaus í heiminum.

Það er hreint ekki sjálfgefið að stílfærsla á borð við þá sem hér er á ferð henti svona fjarstæðukenndu verki. Þvert á móti verða lærdómar þeir sem slík verk bera oft ekki ljósir nema í dulargervi raunsæisins. Stílfærsla verður að vera hugsuð ofan í grunninn, hvert smáatriði hlýtur og verður að bera merkingu. Inta Kalnina og leikarar hennar ná í þessari sýningu að leiða áhorfandann áfram að kjarna málsins með því að "eima" burt allan óþarfa. Eftir stendur manndýrið, tilbúið að éta og vera étið.