laugardagur, apríl 29, 2023

Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar

Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar ★★★★· Handrit: Sveinn Ólafur Gunnarsson og Ólafur Ásgeirsson eftir hugmynd Alberts Halldórssonar, Ólafs Ásgeirssonar og Viktoríu Blöndal. Aðstoð við handrit: Sviðslistahópurinn Alltaf í boltanum. Dramatúrg: Lóa Björk Björnsdóttir. Leikstjórn: Viktoría Blöndal. Sviðshreyfingar: Erna Guðrún Fritzdóttir. Leikmynd og búningar: Sólbjört Vera Ómarsdóttir. Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir og Juliette Louste. Myndbönd: Ásta Jónína Arnardóttir. Tónlist: Valdimar Guðmundsson. Leikarar: Albert Halldórsson, Ólafur Ásgeirsson, Starkaður Pétursson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Valdimar Guðmundsson. Leikarar á upptöku: Birgitta Birgisdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson. Sviðslistahópurinn Alltaf í boltanum frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 2. mars 2023.

Strákarnir okkar

Hvergi er staðalmyndakarlmaðurinn eins berskjaldaður og þegar kemur að fótbolta. Svo vill líka til að þetta er eina staðalmyndin sem þykir við hæfi að beina beittum grínspjótum að. Og þarna standa þeir. Eins og varnarveggur sem veit ekki hvar hann á að hafa hendurnar, og bíða eftir að spyrnan ríði af. Hún hittir oft og mikið í mark í Óbærilegum léttleika knattspyrnunnar, gamanleik eftir Svein Ólaf Gunnarsson og Ólaf Ásgeirsson byggðan á hugmynd Ólafs, Alberts Halldórssonar og Viktoríu Blöndal, sem einnig leikstýrir. Stútfullt Tjarnarbíó réði sér ekki fyrir kæti á frumsýningu, og ef sýningarplanið stangast ekki þeim mun verr á við leikjaplan Premier League, Serie A og Meistaradeildar Evrópu ætti markhópurinn að drífa sig. Nema markhópurinn séu öll hin, sem horfa á mennina horfa á fótboltann og skilja hvorki upp né niður í æsingnum. Fólk eins og fyrrverandi kærastan hans Dodda, sem gafst upp á að hún og börnin voru alltaf í öðru sæti á eftir Manchester United og bjórnum, og henti honum út. Sex mánuðum síðar er Doddi búinn að koma sér fyrir í vel græjaðri piparsveinsíbúð, fer helst ekkert út og býr sig undir grannaslag við erkiféndurna úr Bítlaborginni, með yngri bróður sínum og álíka eldheitum United-manni sem skírður er í höfuðið á sjálfum Ole Gunnar Solskjær. Hvað gæti farið úrskeiðis, fyrir utan óhagstæð úrslit? Þegar Benni, nýi kærasti barnsmóðurinnar kemur til að sækja skólatöskur og ílengist yfir boltanum í boði einfeldningsins Óla Gunnars en í óþökk húsráðanda, byrjar spennan að færast af vellinum og inn í stofuna. Og enn þrengist á þingi þegar félagi Benna verður þreyttur á að bíða í bílnum, bætist í hópinn og reynist vera hinn eini sanni Valdimar Guðmundsson. Þá vantar bara dramatískt augnablik á Old Trafford til að hleypa öllu í háaloft. Þess er ekki lengi að bíða. Sem leikrit hefði Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar alveg þolað meiri yfirlegu. Spennuaugnablikin koma og fara í stað þess að magnast upp. Ferðalag Dodda, sem allt ætti að snúast um, er óskýrt, og fyrir vikið missir lokaatriði verksins marks, fyrir utan náttúrulega stórkostlegan lokasönginn. Og hefði aðeins meira jafnvægi milli háðs og harms ekki skilað betri sýningu? Mögulega, en tæknilegu vankantarnir koma hins vegar eiginlega ekkert að sök. Þetta er drepfyndin sýning sem hittir iðulega beint í mark í lýsingu sinni á bjórlegnum hanaslag yfir sameiginlegri ástríðu. Höfundar hafa verið einstaklega fundvísir á kostuleg smáatriði í samskiptamáta karla og kenjar sem tengjast þessu tiltekna áhugamáli. Hefðu samt mátt stilla sig um að láta drengina tala stöðugt um „Manchester United“ sín á milli, allavega benda mínar vettvangsrannsóknir til að aðdáendur láti „United“ eða „Manjú“ duga. Smáatriði skipta máli, eins og kemur svo glöggt í ljós í metingi drengjanna um hver er mestur, fróðastur og heitastur aðdáandi. Það sem ræður úrslitum hér, eins og á vellinum, er mannskapurinn. Samleikur og persónusköpun fimmenninganna er með miklum ágætum. Sveinn Ólafur er reynslubolti í að túlka karlmenn á barmi taugaáfalls sem þeir fela bak við harðan skjöld og klikkar hvergi hér. Bikarinn fyrir flestar stolnar senur hirðir hinsvegar Ólafur, með hreint óborganlegar tímasetningar og innlifun í hlutverki Óla Gunnars. Ólíkindatólið Benni er skemmtilega vafasamur pappír, það er ekki hægt að sjá annað en barnsmóðir Dodda hafi þar veðjað aftur á rangan hest. Það hvernig þetta kemur smátt og smátt í ljós sýnir hvað handritshöfundarnir eru nálægt því að skapa langlífa íslenska gamanklassík, og ferðalag Benna verður allt saman mjög sannfærandi hjá Albert Halldórssyni. Óvænt innkoma Valdimars Guðmundssonar sem hann sjálfur inn í þennan ýkta skrípaheim virkar fyrirfram á mann eins og áhættuatriði, og er það kannski. En er virkilega vel heppnað þegar á hólminn er komið. Mestu skiptir samt hvað söngstjarnan er framúrskarandi skemmtilegur á sviði, lipur í samleik, hreyfingum og textameðferð. Að ógleymdum skotheldum söngnúmerunum og lúmskt fyndnum eftirhermuatriðunum. Þá er ónefndur Starkaður Pétursson sem fipast hvergi í sínum kómísku stoðsendingum sem leikjaþulurinn, en klisjuþrungin komment hans eru látin kallast á við það sem gengur í í stofunni hjá Benna. Viktoría Blöndal leikstýrir og tryggir fínan gang og vel útfærðar taktbreytingar. Athygli vekur að þó fá verk sem nú eru á fjölunum jafnist á við þetta í karllægni eru allir póstar utan sviðs mannaðir konum. Viktoría leikstýrir, Sólbjört Vera Ómarsdóttir hannar leikmynd og búninga, lýsing er í höndum Ástu Jónínu Arnardóttur og Juliette Louste, myndbönd gerir Ásta Jónína Arnardóttir, dramatúrg er Lóa Björk Björnsdóttir og sviðshreyfingum stýrir Erna Guðrún Fritzdóttir. Allt er þetta vel leyst. En sviðsljósið er á gaurunum. Útkoman er afbragðsskemmtileg, hæðin en hlý mynd af körlum sem mögulega eru að átta sig á því að lífið er það sem skellur á þér meðan þú ert önnum kafinn við að horfa á fótbolta. Bráðgóð skemmtun, jafnt fyrir þau okkar sem finna okkur á fótboltaaðdáendarófinu og örugglega hin, sem finnst þetta allt með eindæmum hávaðasamur og tímafrekur ys og þys út af engu.