laugardagur, apríl 29, 2023

Draumaþjófurinn

Eftir Björk Jakobsdóttur byggt á skáldsögu eftir Gunnar Helgason. Söngtextar: Björk Jakobsdóttir, Gunnar Helgason og Hallgrímur Helgason. Tónlist og tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson. Leikstjórn: Stefán Jónsson. Dans og sviðshreyfingar: Lee Proud. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Brúður – hugmynd og útlit: Ilmur Stefánsdóttir og Charlie Tymms. Brúðuhönnun: Charlie Tymms. Lýsing og myndbandshönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Petr Hloušek. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson og Þóroddur Ingvarsson. Hljómsveitarstjóri: Kjartan Valdemarsson. Hljóðfæraleikarar á sýningu: Kjartan Valdemarsson, Haukur Gröndal og Einar Scheving. Leikarar: Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Örn Árnason, Þröstur Leó Gunnarsson, Atli Rafn Sigurðarson, Þórey Birgisdóttir, Sigurbjartur Sturla Atlason, Guðrún S. Gísladóttir, Pálmi Gestsson, Hákon Jóhannesson, Edda Arnljótsdóttir, Viktoría Sigurðardóttir, Oddur Júlíusson, Almar Blær Sigurjónsson, Saadia Auður Dhour, Kolbrún Helga Friðriksdóttir/Dagur Rafn Atlason, Guðmundur Einar Jónsson/Nína Sólrún Tamimi, Oktavía Gunnarsdóttir/Rafney Birna Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Sturla Olsen/Kristín Þórdís Guðjónsdóttir, Rebekkah Chelsea Paul/Jean Daníel Seyo Sonde og Helgi Daníel Hannesson/Leó Guðrúnarson Jáuregui. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins sunnudaginn 5. mars 2023.

Það er nóg til

Dýradæmisögur eiga sér langa og glæsta sögu, Og djúpar rætur – sögurnar sem kenndar eru við gríska þrælinn Esóp og voru skrifaðar niður fyrir tveimur og hálfu árþúsundi eða svo, voru þá búnar að lifa góðu munnlegu lífi lengi. Það er litið á það sem skýlaus réttindi íslenskra ríkisborgara að sjá Dýrin í Hálsaskógi áður en við yfirgefum markhópinn fyrir friðar- og grænmetisboðskap Egners, og sækjum Dýrabæ Orwells á bókasafnið. 
Gunnar Helgason slóst í þennan hóp með bók sinni um veröld rottunnar í Draumaþjófnum, sem kom út fyrir jólin 2019 og Björg Jakobsdóttir hefur nú komið í söngleikjabúning. Kannski djarft að draga fram þessa smáðu nagdýrstegund til að segja börnum sögur um réttlæti og samlíðan, en líka rökrétt: rottur eru víðast hvar okkar næstu nágrannar, lifa á því sama og við og eru, eins og við, óttaleg plága.
Draumaþjófurinn segir af forréttindarottunni Eyrdísi, dóttur Skögultannar sem stýrir hafnarrottulandinu harðri hendi. Þar ríkir ströng stéttskipting, yfirstéttin leggur ekkert til samfélagsins, en lifir á vinnu hinna. Ógnin að utan er notuð sem réttlæting fyrir óhæfunni, sérstaklega bátarotturnar sem örugglega myndu éta öll út á gaddinn fengju þær inngöngu í samfélagið. Og draumasmiðurinn Hjassi gefur óréttlætinu trúarlegt yfirbragð með því að úthluta ævistörfum eftir draumum sínum – segir hann.
En allt stendur hafnarrottuveldið á brauðfótum. Eitt stefnumót Eyrdísar við safnararottuna Halald, og grimmileg refsing sem hann er beittur fyrir að dirfast að nálgast ríkisarfann, nægir til að opna augu hennar fyrir hroðanum. Hún flýr út í heim, og ferðalag hennar að hinu goðsagnarkennda Matarfjalli (sem við mannfreskjurnar - eins og við heitum á rottumáli – köllum ruslahaug) er hryggjarstykki verksins. 
Óneitanlega hefur flutningur sögunnar í nýtt form dregið fram dramatíska vankanta, sem komu ekki að sök í bókinni. Þar líður lesanda eins og hann sé að skoða sig um í nýjum heimi, og getur dundað við að flissa yfir hugkvæmninni í smáu og stóru; fyndnu nöfnunum og orðatiltækjunum, speglunum mann- og nagdýrsheima. En í leikhúsinu fer að skipta meira máli hvað fókusinn fer víða, hvernig valdabrölt næstráðanda Skögultannar þvælist fyrir uppgjöri Eyrdísar við valdatíð móður sinnar, og hvað umbreyting aðalpersónunnar úr síétandi iðjulausu dekurdýri í réttsýna barátturottu fyrir betri heimi er átakalaus og hve umskiptin eru snemma um garð gengin. 
Aðrir óskýrir þræðir eru alfarið á reikning leikgerðar og uppsetningar. Að enginn mikilvægur munur er á vellystingu veitingahúsarottanna og þeirra sem gista matarfjallið. Og passa upp á samkvæmni í danskvíðaröskun erkiskúrksins Ljúfs, sem kemst óbrjálaður frá sumum söngnúmerum þegar önnur gera hann alveg viðþolslausan.
Dýradæmisögur, eins og önnur ævintýri, þrífast á og krefjast skýrra andstæðna og þroskandi glímu við nýjar aðstæður. Hér tekst ekki fyllilega að halda þessum boltum á lofti.
Á móti kemur að flest annað heppnast framúrskarandi vel. Og rétt að taka fram að það greindust engin merki um ókyrrð meðal barnanna í salnum þegar síga fór á seinni hlutann og þeim áhorfanda sem hér skrifar væri farið að leiðast þófið örlítið. Sjónarspilið er enda magnað hjá Ilmi Stefánsdóttur (leikmynd), Birni Bergsteini Guðmundssyni og Petr Hloušek (lýsing og myndband), Maríu Th. Ólafsdóttur (búningar) og Charlie Tymms (brúður, ásamt Ilmi og fleira fólki). Búningarnir og brúðurnar kannski það sem heillar mest, sérlega fagurt og kröftugt verk. Þá halda Stefán Jónsson leikstjóri og ekki síður dansmeistarinn Lee Proud öllu á fagurri og stefnuvirkri hreyfingu frá upphafi til enda. 
Ég er ekki eins heillaður af framlagi tónsmiðsins. Stóru númerin, sérstaklega upphafs- og lokalagið og suðrænn stuðdans veitingahúsarottanna voru sérdeilis glæsileg hjá Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, en einsöngslögin og dúettarnir ekki eins. Almennt saknaði ég skýrara svipmóts, afgerandi ákvarðana um stíl, hvort heldur er í lagasmíðunum, útsetningum og hljóðfæraskipan. Það á ekki að vera sjálfsagt mál að barnasöngleikur hljóti að hljóma eins og Disneyteiknimynd.
Það eru engir veikleikar í leikhópnum, sérstaklega ekki á stærstu póstunum. Meginþunginn hvílir á Þuríði Blæ Jóhannsdóttur í hlutverki Eyrdísar og hún stendur fyllilega undir því að bera sýninguna uppi, með fimi sinni, krafti og útgeislun. Þó hans njóti stutt við reynist Kjartan Darri Kristjánsson verðugur og eftirminnilegur mótleikari í hlutverki Halaldar.
Yfirstéttin er firnavel skipuð. Atli Rafn Sigurðarson slepjulegur og ógnvekjandi sem hinn grimmi og valdagráðugi Ljúfur, Örn Árnason og Þröstur Leó Gunnarsson drepfyndið tvíeyki, draumasmiðurinn Hjassi og skósveinninn Naggeir (þessi nöfn!). Allrabest er samt Skögultönn, sem verður í meðförum Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur að óborganlegri stúdíu í narsissisma, vænisýki og bernskri grimmd. Einmitt svona eru harðstjórar í návígi, hugsar maður.
Af öðrum er það kannski helst Þórey Birgisdóttir sem hin hetjulega Píla sem fangar persónulega athygli, að öðru leyti renna rottuhóparnir óþarflega mikið saman fyrir áhorfandanum. Fyrir utan Kolbrúnu Helgu Friðriksdóttur, sem átti ekki í nokkrum vandræðum með að snerta hjartastrengi allra í salnum sem Sandur, bátarottubarnið í búrinu. Yngstu leikararnir á frumsýningu, auk Kolbrúnar Helgu, voru Guðmundur Einar Jónsson, Oktavía Gunnarsdóttir, Gunnlaugur Sturla Olsen, Rebekkah Chelsea Paul og Helgi Daníel Hannesson, öll öryggið uppmálað í dansi, söng og leik.
Draumaþjófurinn er vegleg stórsýning þar sem öllu er tjaldað til og allt gert í botn. Vankantar efnisins draga þegar upp er staðið merkilega lítið úr áhrifamættinum, þeirri kröftugu sprengju tilfinninga, lita og hreyfinga sem leyst er úr læðingi á stóra sviðinu. Og boðaði betri heim, þar sem er nóg fyrir öll, bæði matur, skjól og vinsamlegt viðmót. Enda ekkert sjálfsagðara.