sunnudagur, apríl 03, 2022

Framúrskarandi vinkona



Eftir Elenu Ferrante. Leikgerð: April de Angelis. Íslensk þýðing: Salka Guðmundsdóttir. Leikstjórn: Yaël Farber. Dramatúrg: Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Valgeir Sigurðsson. Hljóðmynd: Valgeir Sigurðsson, Aron Þór Arnarsson og Valgerður Guðnadóttir. Sviðshreyfingar: Emily Terndrup og Conor Doyle. Leikarar: Unnur Ösp Stefánsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Guðrún S. Gísladóttir, Eldey Erla Hauksdóttir, Hulda Gissurardóttir Flóvenz, Eva Jáuregui, Ronja Pétursdóttir, Harpa Arnardóttir, Sigurður Sigurjónsson, Steinunn Arinbjarnardóttir, Arndís Hrönn Egilsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Hákon Jóhannesson, Elva Ósk Ólafsdóttir, Pálmi Gestsson, Atli Rafn Sigurðarson, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Stefán Hallur Stefánsson, Bjarni Snæbjörnsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Hilmir Jensson, Snorri Engilbertsson, Birgitta Birgisdóttir, Valgerður Guðnadóttir, Oddur Júlíusson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson og Sigurbjartur Sturla Atlason. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 5. mars 2022.

Aldrei fór ég norður

Loksins tókst að frumsýna hina margfrestuðu stórsýningu Þjóðleikhússins á leikgerð April de Angelis á Napólíkvartett Elenu Ferrante í leikstjórn Yaël Farber, eins af stærri erlendu nöfnunum sem hafa sviðsett verk á Íslandi hin síðari ár. 
Stórsýning er réttnefni: ég man ekki eftir jafn stórum leikhópi í sýningu sem ekki er söngleikur, bróðurpartur leikhóps Þjóðleikhússins tekur þátt, stórstjörnur í nánast þöglum smáhlutverkum. Vel á fimmta tíma líður áður en áhorfendur snúa heim úr þessari skoðunarferð um fátækrarhverfi í Napólí með stuttum innlitum á háskólaborgaraheimili á Norður-Ítalíu og tvær snöggar en afdrifaríkar heimsóknir í strandparadísina Ischia. 
Eðlilega: fjórleikur Ferrante fjallar ekki hvað síst um miskunnarlausan aðdráttarkraft upprunans. Hina römmu taug sem dregur jafnvel einörðustu rekka – og drósir – föður- og móðurtúna til. Lila og Lenù eru efnilegustu dætur fátækrahverfisins en hvorki ótemjandi snilligáfa þeirrar fyrrnefndu eða þrjósk ástundun hinnar duga til að slíta böndin og öðlast fullt frelsi. Grimmt og rótgróið feðraveldið í sinni sjúkustu mynd hjálpar auðvitað ekki til, hvað þá krabbamein glæpaveldis Comorrunnar og fasismans sem aldrei var í alvöru upprættur. 
En þrátt fyrir hina breiðu mynd, alla þættina af einkennilegum Ítölum, allan tíðarandann og sögulega bakgrunninn, er það í nærmyndinni sem bækurnar blómstra. Í nákvæmri, frumlegri og sálfræðilega sannfærandi kortlagningu Ferrante á þróunarsögu sambands Lilu og Lenù. Vináttan, samsvörunin, samkeppnin, speglunin, þroskinn, reynslan og svikin sem teygja á tengslunum en slíta þau aldrei. Það er þeirra vegna sem við héldum áfram að lesa, allar sautjánhundruð síðurnar.
Hvernig verður þessu viðamikla efni miðlað á einu leikhúskvöldi, þó langt sé? Það er nokkuð ljóst af sýningu Þjóðleikhússins að það er enginn hægðarleikur. Útkoman hefur vissulega slagkraftinn sem hlýst af því þegar leikhúsið beitir meðölum sínum, tæknilegum, mannauðslegum og listrænum, af fullu afli. En megnar þrátt fyrir það ekki að snerta djúpt, eða svara skýrt spurningunni sem alltaf á við um verkefnaval og leikgerðir skáldsagna sérstaklega: Hvað hefur leikhúsið sem miðill og listgrein til málanna að leggja um efnið?
Ekki margt, kemur í ljós. Þó alþjóðlegar vinsældir fjórleiksins séu allnokkrar þá gerir leikgerð de Angelis eðlilega ekki ráð fyrir að áhorfendur komist af án þess að söguþráðurinn sé rakinn í allnokkrum smáatriðum. Fyrir vikið er lítið svigrúm til að þrengja fókusinn eða dvelja við aðalatriðin, eða sýna djörfung í túlkun eða úrvinnslu. í samanburði við þær skáldsagnaleikgerðir sem við höfum séð undanfarin ár á stórum sviðum okkar er Framúrskarandi vinkona einkennilega gamaldags sem dramatísk smíð, og eftir því dauf. 
Það er til dæmis langt síðan sést hefur leikgerð sem er eins auðmjúk gagnvart fjórða veggnum. Við horfum á atburðina úr fjarska, og lykilatriði hverfa í allan þann sæg af atburðum, persónum, örlagasögum og smáatriðum sem þarf að halda til haga til að við höldum þræði. Þó hér sé stuðst við sögumann til að stikla yfir hluta efnisins þá er sú leiðsögukona, Lenù eldri í túlkun Guðrúnar Gísladóttur, lengst af upptekin af að tala við sjálfa sig eða tölvuskjáinn sinn. Sögumaðurinn er víst viðbót leikstjóra við leikgerð de Angelis, en erfitt er að sjá hvernig hefði mátt komast af án hennar, og jafnframt umhugsunarefni af hverju ekki var unnið markvissar með að sprengja út verkið úr því verið var að krukka í það á annað borð. Leikgerðin er líka óvenju auðmjúk gagnvart tímalínu og gangverki efniviðarins. 
Þetta stífa og stranglega raunsæislega form á sinn þátt í að halda aðalpersónunum og vegferð þeirra í óþægilega mikilli fjarlægð. En fleira kemur til. Móskuleg litapallettan í annars nytsamlega hannaðri leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og búningum Filippíu I. Elísdóttur gerir flest sem fyrir augu ber einsleitt, og þó lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar sé dramatísk og vel virk í að móta rýmið hjálpar hún ekki við að ná sambandi við svipbrigði og þar með sálarástand og hugsanir persónanna. Annað sem truflar er að framsögn og raddbeiting hjá nánast öllum leikhópnum er óskýrari og veikari en boðlegt má teljast í Þjóðleikhúsinu. Hér hefði einhver þurft að byrsta sig og hjálpa leikstjóranum með mikilvægan þátt sem hún er illa í stakk búin að vinna með. 
Að öðru leyti er erfitt að ráða af þessari sýningu hvort hún ýti undir alþjóðlegt orðspor Yaël Farber. Það er mikill kraftur og skipulagt kaos í umferð hins þéttskipaða leikhóps um sviðið, en þegar á líður verða hópsenurnar hver annarri líkar, enda flestar með einhverskonar sameiginlegri spennulosun í formi viðbragða við einhverju dramatísku, gjarnan ofbeldi eða hótun um það, hvort sem það er byssuskot, sprenging, eða atlaga með hnefum. 
Framúrskarandi vinkona í þessum búningi er ekki vettvangur til að vinna stóra leiksigra. Vigdís Hrefna Pálsdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir voru sannfærandi og kröftugar sem Lila og Lenù og það sama má segja um Huldu Gissurardóttur Flóvenz og Ronju Pétursdóttur, sem léku þær á barnsaaldri á frumsýningunni, og dætur þeirra að auki. 
Nokkur náðu að glansa í smærri hlutverkum, þó í flestum þeirra dygði vel að sýna einhverja kunnuglega, takta til að ná fram tilskyldum áhrifum. Harpa Arnardóttir verður eftirminnileg sem hörkutólið móðir Lenù, og nærveran ein dugar Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur til að hafa áhrif, sem á vel við þegar illræmd okurlánadrottning er verkefnið. Atli Rafn Sigurðarson dró upp skarpa mynd af Nino, lítilmenninu sem vinkonurnar elska báðar, og Pálmi Gestsson gerir það sama fyrir jafnvel enn slepjulegri föður hans. Sveinn Ólafur Gunnarsson er góður með klaufa og létti stemminguna allnokkuð sem prófessor að reyna að sofa hjá eiginkonu sinni í fyrsta sinn.
Það er erfitt að skilja hvað dró leikhúsfólk að þessu viðfangsefni, fyrir utan kannski eilítið lítilmótlega löngun til að láta vinsælan skáldsagnabálk laða aðdáendur hans í leikhúsið. Leikgerðin og sýningin miðla af hugkvæmni og einurð ytra formi bálksins, skila söguþræði, skapa tilfinningu fyrir umhverfi, breytilegan tíðaranda og þeim aragrúa persóna sem snerta líf Lilu og Lenù þessa áratugi sem sagan spannar. Það tekst mætavel og sýningin heldur athygli allan sinn langa tíma og hreyfir kröftuglega við tilfinningunum í lokin. 
En um leið vanrækir hún það verkefni sitt að eiga gagnrýna samræðu við efnið, draga fram og setja í fókus spennandi og áhugaverða vinkla. Færa okkur nær hinum framúrskarandi og harmsögulegu vinkonum. Hún svarar ekki spurningunni um hvað leikhúsið hefur fram að færa við meðferð efnisins. Bókin er betri.