mánudagur, nóvember 15, 2021

Njála á hundavaði

Höfundur: Þorvarður Þórarinsson. Leikgerð: Hjörleifur Hjartarson. Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir. Tónlist: Hundur í óskilum. Leikmynd og búningar: Þórunn María Jónsdóttir. Lýsing og myndbönd: Ingi Bekk. Hljóð: Þorbjörn Steingrímsson. Leikgervi: Þórunn María Jónsdóttir og Elín S. Gísladóttir. Leikarar: Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson. Frumsýning á Nýja sviði Borgarleikhússins föstudaginn 5. nóvember 2021.

Af taðskegglingum og eggjanarfíflum


Lá ekki alltaf í loftinu að úr því að Hundur í óskilum var hættur að vera „bara“ hljómsveit og orðinn einhverskonar kabarett-tvíeyki (kabadúett?) og hirðtrúðar Borgarleikhússins að þeir myndu fyrr eða síðar taka Brennu-Njáls sögu til meðferðar? Og er það ekki til marks um stöðu sögunnar í íslenskri menningu að það líði ekki nema fimm ár milli sviðsetninga á henni? Sem að auki reynast glettilega líkar í afstöðu sinni til efnisins. Í umsögn minni um uppfærslu Þorleifs Arnarssonar minnist ég reyndar á að eitt atriðið þar sé eins og beint upp úr handbók Hundsins. Þeirrar sýningar er líka getið snemma í Njálu á hundavaði, talað um „Sirkus-Njálu“. Sú lýsing gæti auðvitað alveg eins átt við núna.
En veldur hver á heldur. Þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson hafa átt tilkall til þessa efnis síðan þeir fönguðu fyrst athygli hins breiða almennings með túlkun sinni á Gunnarshólma Jónasar. Strax þar mátti sjá þá illskilgreinanlegu eiginleika sem gera list þeirra svona ómótstæðilega. Það er engin leið að rekja í sundur eða greina prósentuhlutföllin milli háðs og harms, alvöru og gríns, fimi og flippaðs kæruleysis. Hvar endar ástin og virðingin og vægðarlaus kaldhæðnin tekur við? Allsstaðar og hvergi. Þetta er hristur og hrærður kokteill og uppskriftina veit enginn nema þeir kumpánar, og nú líka Ágústa Skúladóttir leikstjóri og samverkakona þeirra eftir að þau gerðu Nýja svið Borgarleikhússins að goðorði sínu.
Ef við reynum samt að efnagreina hanastélið þá verða fyrir okkur þrjú „eyru“: tóneyra, brageyra og gríneyra. 
Tónlistin er vitaskuld rótin og kjarninn í list Hundsins. Það er stundum erfitt að greina færnina, öryggið og „músíkalítetið“ í gegnum pönkaða nálgunina í spilamennskunni og þrautirnar sem þeir félagar leggja fyrir sjálfa sig með hljóðfæravali og tilraunamennsku á því sviði. Þeir hafa aldrei gengið eins langt í þessum efnum og hér, þar sem stór hluti hljóðfæranna hefur runnið saman við leikmuni og -mynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur. Þórunn María á líka heiðurinn af einkar snjöllum og glæsilegum búningum, og gervum ásamt Elínu S. Gísladóttur. Þessi samruni, og samspil við upptekinn undirleik veldur því að stundum er teflt á tæpasta vað með að allt gangi smurt. Fyrst og fremst myndi þetta aldrei virka ef ekki kæmu til frábærir „undirliggjandi“ hæfileikar og næmni þeirra félaganna. 
Lagavalið er síðan óborganlega snjallt. Bæði þegar það liggur beint við (Fire, Hot Stuff, Hey Joe) og þegar þeir koma áhorfendum algerlega í opna skjöldu (Paradise by the Dashboard Light, Bei Männern welche Liebe fühlen úr Töfraflautunni). Í síðari hlutanum, þegar bæði sagan og sýningin gliðna smá, skjóta þeir inn „hitturum“ úr sinni gömlu efnisskrá, stundum á pínu hæpnum forsendum, en allir standa þeir fyrir sínu sem skemmtiefni og því ástæðulaust að kvarta yfir því.
Allt er þetta vel þekkt og kunnuglegt. Sú hlið mála sem kannski munar mestu um og hefur vaxið að mikilvægi undanfarið er einstakur tónn og vaxandi vald Hjörleifs á bundnu máli. Þar eru einfaldlega fáir sem standa honum á sporði við að kjarna hugsun og halda jafnvægi milli einfaldleika og óvæntra leiða í rími, stuðlum og „pönsi“, sem alltaf gleður. Til dæmis í eftirmálanum við Gunnarshólma, sem er „… út um allt á kortum / svo enginn veit hvaða hólma Jónas ort’um“.
Um gríntóninn höfum við þegar sagt flest sem segja þarf. Þó verður að nefna það hve vel þeir fara með hið vandmeðfarna vopn að setja persónur og atburði sögunnar í nútímasamhengi. Það er ódýr brella sem auðveldlega getur orðið hvimleið en Eiríkur og Hjörleifur hitta nákvæmlega á rétta tóninn til að gera þetta nánast alltaf skemmtilegt. Að kalla Njál „kynsegin stjörnulögfræðing“, lýsa skyndibrúðkaupi Þorgerðar og Þráins í brúðkaupsveislu móður hennar í anda Séð og heyrt og segja Kristnitökukaflann vera „eins og sérblað frá Samtökum í sjávarútvegi inni í miðopnu Moggans“. Allt laukrétt, og fyndið eins og það kemur út úr þeim félögunum. 
Textinn er almennt skemmtilega skrifaður, með sterkum spunaeinkennum sem þýðir að það slær áhorfandann ekkert út af laginu þó stundum hljómi eins og menn reki í vörðurnar, sem gerðist öðru hverju í þessa þrjá tíma sem sýningin tekur. Er hún þó hreint ekkert of löng, heldur flýgur stundin hratt í þessum frábæra félagskap frá snjöllum upphafssöngnum til lokasöngsins í brúðkaupi Kára og Hildigunnar, sem er tvímælalaust einn hápunktanna.
Persónusköpun og leikur er ekki í öndvegi í þessu frásagnarleikhúsi, en týpusmíðin tekst stundum mjög vel, sérstaklega í hinni „passive-agressive“ Bergþóru Eiríks og slepjulegum og dálítið varhugaverðum bónda hennar hjá Hjörleifi. Sviðsstjórinn Chris Astridge á nokkrar innkomur og er fumleysið uppmálað. Ljósa- og myndbrellumeistarinn Ingi Beck er líka í nánu sambandi við leikarana og fer vel á með þeim.
Njála á hundavaði er mikil og góð skemmtiveisla hjá þeim Ágústu, Eiríki og Hjörleifi. Þessi mikla saga liggur vel við grínhöggi frá sjónarhóli nútímans, en hún er líka spegill fyrir okkur til að skopast að eigin glóruleysi. Það er erfitt að ímynda sér annað en Hundinum muni dveljast þarna nokkur misseri við að kæta mann og annan.