miðvikudagur, mars 20, 2019

Matthildur

Eftir Roald Dahl í leikgerð Dennis Kelly. Tónlist og söngtextar: Tim Minchin. Útsetningar og önnur tónlist: Chris Nightingale. Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson. Leikstjórn: Bergur Þór Ingólfsson. Danshöfundur: Lee Proud. Tónlistarstjórn: Agnar Már Magnússon. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Lýsing: Þórður Orri Pétursson. Myndband: Ingi Bekk. Hljóð: Garðar Borgþórsson og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir. Hljómsveit: Agnar Már Magnússon, Andrés Þór Gunnlaugsson, Einar Jónsson, Haukur Gröndal, Ívar Guðmundsson, Kjartan Guðnason, Ólafur Hólm, Ólafur Jónsson, Snorri Sigurðarson, Vignir Þór Stefánsson, Þorgrímur Jónsson og Þórdís Gerður Jónsdóttir. Leikendur: Andrea Lapas, Arna Sif Gunnarsdóttir, Arnaldur Halldórsson, Arnar Dan Kristjánsson, Baldur Björn Arnarsson, Björgvin Franz Gíslason, Björn Stefánsson, Ebba Katrín Finnsdóttir, Edda Guðnadóttir, Emil Björn Kárason, Erlen Ísabella Einarsdóttir, Erna Tómasdóttir, Gabríel Máni Kristjánsson, Guðmunda Pálmadóttir, Hilmar Máni Magnússon, Hlynur Atli Harðarson, Ísabel Dís Sheehan, Jón Arnór Pétursson, Linda Ýr Guðrúnardóttir, Lísbet Freyja Ýmisdóttir, María Pála Marcello, Patrik Nökkvi Pétursson, Rakel Björk Björnsdóttir, Salka Ýr Ómarsdóttir, Steve Lorenz, Sölvi Viggósson Dýrfjörð, Vala Frostadóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Viktoría Sigurðardóttir, Þorleifur Einarsson, Þóra Fanney Hreiðarsdóttir og Þórey Lilja Benjamínsdóttir Wheat. Frumsýning á Stóra sviði Borgarleikhússins 15. mars 2019.

Pakkið mun sigrað


Matthildur er sérkennilegt barn og sérkennileg hetja, eins og hún birtist í söngleikjaaðlögun Dennis Kelly og Tim Minchin á klassískri sögu Roalds Dahl. Fyrir utan hefðbundna, við gætum jafnvel kalla þá „línulega“, eiginleika á borð við hugrekki, réttsýni og hugmyndaauðgi er hennar aðaleinkenni lestrar- og fróðleiksfýsn, knúin áfram af ofurgreind. Og svo, þegar mikið liggur við, getur hún hreyft hluti með hugarorkunni. Hún er samt frekar aðgerðalítil lengst af, fyrir utan smá skammarstrik, og lætur flest af sínum ömurlegu, eiginlega hættulegu, aðstæðum yfir sig ganga. Sem er kannski raunsæisgrunnurinn að ævintýralegum ólíkindunum: aðstæðurnar sem hún elst upp við eru það eina sem hún þekkir utan bókanna sem hún gleypir í sig. Pakkið í fjölskyldunni er heimurinn eins og hann hlýtur að vera. Þangað til hún hittir Fríðu Hugljúfu. Fyrsta faðmlag þeirra er einn af hápunktum sýningarinnar, og sker sig úr í þessari orkuríku stuðsprengju.

Það er reyndar eitt af því sem gerir þessa þriggja tíma setu í stóra sal Borgarleikhússins jafn áhrifaríka og raun ber vitni hvað vel tekst að varðveita mennsku og trúverðugleika persónanna þrátt fyrir að bæði persónusköpun og hegðunar- og hreyfingamynstur sé stílfært og einfaldað að ystu mörkum. Allur þessi stóri leikhópur, ungir sem aldnir, og Bergur Þór Ingólfsson auðvitað líka, eiga hrós skilið fyrir þetta.

Það er ekki alveg sjálfsagt að koma þessum mannlega tón í gegn um þetta mikla „sjó“, þennan iðandi og óstöðvandi flaum af tónlist og orðum, hreyfingu fólks og sviðs, þar sem dýpt og þróun persóna er aftarlega á forgangslista höfundanna. Annað sem þeir hafa ekki hugað nægilega að er framvinda sögunnar. Það er nánast engin spenna byggð inn í atburðarásina. Við vitum frá fyrstu stund að pabbi Matthildar ætlar sér að gabba grunsamlega vel klædda og moldríka Rússa í bílaviðskiptum, en síðan gerist ekkert í því fyrr en í blálokin þegar sú saga fær fullkomlega fyrirsjáanlegar lyktir. Fyrsta sena með samskiptum hinnar hroðalegu skólastýru við börnin gæti eins verið sú síðasta hvað varðar ofsa, grimmd og óréttlæti. Engin þróun, engin spenna. Og það er síðan eitthvað sérstaklega ófullnægjandi við hvernig og hvenær sagan sem endanlega hrindir uppgjöri við Karítas Mínherfu af stað er kynnt fyrir okkur. Síðan leysist allt hratt og vel og óþarflega auðveldlega.

Það er líka dálítið ójafnvægi í tónlistinni. Fram að hléi er Minchin í ómstríðu og nokkuð ólagrænu skapi, lögin heldur einsleit, dramatískt áhrifarík frekar en áheyrileg. Eyrnaormarnir koma síðan í röðum eftir hlé. Matthildur er skemmtilegt tónlistarverk, meira krefjandi en flestir nútímasöngleikir, en tónlistin skapar bæði stemminguna og ber oft líka uppi framvinduna, eins og vera ber. Gísli Rúnar Jónsson er hárréttur maður til að skila orðakæfunni, sem Minchin hefur svo gaman af að hræra saman, á skrautlegri og stundum ánægjulega óvæntri íslensku. Tónlistarflutningurinn var fágaður og öruggur undir stjórn Agnars Más Magnússonar þó ekki kæmist hvert einasta orð alla leið í gegnum hamaganginn.

En þó verkið sé sérkennilegt í laginu og dramatískt ófullnægjandi er skemmtigildið ómælt og tíminn líður hratt þrátt fyrir allt.

Margt kemur þar til. Það er ekki úr vegi að byrja á að tala um hreint stórkostlega leikmynd Ilmar Stefánsdóttur og þá meðferð sem hún fær í lýsingu Þórðar Orra Péturssonar. Möguleikarnir virðast endalausir, óregluleg formin og urmull smáatriða tryggja að það er alltaf eitthvað óvænt handan við næsta snúning hringsviðsins. Næstan má t.d. nefna Lee Proud og hans kröftugu og hugmyndaríku kóreógrafíu. Það er sérstaklega auðvelt að verða agndofa yfir frammistöðu barnahópsins í dansatriðum sínum. Þá eru búningar Maríu Th. Ólafsdóttur vel unnið verk sem smellhittir heim verksins. Eini veiki punkturinn í umgjörðinni þóttu mér töfrarnir sem Matthildur leysir úr læðingi á ögurstundu, of smáir í sniðum og týndust dálítið í sjónarspili umhverfisins.

Ísabel Dís Sheehan fór með titilhlutverkið á frumsýningunni og var framúrskarandi sannfærandi í leik, dansi og söng, ekki síst í stórum og krefjandi söngnúmerum sínum. Fyrir utan tæknikröfur hlutverksins, sem hún leysti afbragðsvel, er þetta þrælsnúið verkefni, sérstaklega vegna þess hve aðgerðalítil Matthildur er lengst af, en Ísabel nær að fanga athygli okkar og halda henni ævinlega þegar það átti við. Fjölskylda Matthildar er einnig vel skipuð. Það gustar af Birni Stefánssyni í hlutverki hins glórulausa pabba, Sölvi Viggósson Dýrfjörð var dásamlegur gleðigjafi þrátt fyrir algert aðgerðaleysi. Senuþjófurinn í fjölskyldunni er samt mamman yfirgengilega og Vala Kristín Eiríksdóttir fór á miklum og morðfyndnum kostum, ekki síst í glæstu dansatriði með Þorleifi Einarssyni.

Börnin voru hvert öðru betra og tókst öllum að skapa skýrar persónur sem skáru sig úr samstilltum hópnum. Það er óhjákvæmilegt að nefna sérstaklega Erlen Ísabellu Einarsdóttur (Mína) sem sýndi í upphafi seinni hálfleiks framúrskarandi vald yfir kómískum tímasetningum, og Baldur Björn Arnarsson (Lars) sem fór hetjulega með kökuátsatriðið mikla.

Karítas Mínherfa er vitaskuld stóra glansrullan. Gervi Björgvins Franz Gíslasonar í hlutverkinu er stórglæsilegt, gott ef kryppan kallast ekki á yfir annað yfirgengilegt illmenni sem stjáklar Stóra svið Borgarleikhússins þessa dagana. Söngur, dans og skýrleiki einkenna Karítas hans, en ég hefði ekki verið mótfallinn því að finna Björgvin njóta sín aðeins meira í hlutverkinu. Gefa sér lausari taum og smjatta á illfyglinu.

Athygli vekur að Borgarleikhúsið kallar til leiks leikkonu sem útskrifast núna í vor af leikarabraut LHÍ, til að fara með mikilvægt og veigamikið hlutverk Fríðu Hugljúfu. Það er engin ástæða til að amast við þessu, því Rakel Björk Björnsdóttir er algerlega heillandi í hlutverkinu. Stjörnuþokkinn streymir frá henni og söngröddin bræðir hvert hjarta, sem er nákvæmlega það sem þarf. Ebba Katrín Finnsdóttir er bráðskemmtileg sem hrifnæmur bókavörður og Arnar Dan Kristjánsson heldur áfram að skapa svipmiklar persónur í fáum dráttum, líkt og hann gerði í Ríkharði III. Þá er Viktoría Sigurðardóttir flott sem loftfimleikakonan í sögunni sem Matthildur segir á bókasafninu en flæðir síðan inn í meginatburðarás verksins.

Matthildur er þrekvirki af því taginu sem Borgarleikhúsið er komið með einstakt lag á að gera vel. Það er heitt hjarta í sýningunni sem hverfur ekki í hávaðanum, orðaflaumnum, tæknibrellunum og endalausri hugkvæminni og örlætinu við smáatriðanostrið. Verkið sjálft er hinsvegar gallagripur, það vantar í það meiri dramatískan skriðþunga, alvöru þroskabrautir fyrir helstu persónur og mögulega aðeins færri nótur og orð. Engu að síður mikil skemmtun og hrífandi kvöldstund.