fimmtudagur, mars 14, 2019

Jónsmessunæturdraumur

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikstjórn: Hilmar Jónsson. Leikmynd: Eva Signý Berger. Búningar: Karen Sonja Briem. Danshöfundur: Katrín Gunnarsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Tónlist, tónlistarstjórn og útsetningar: Gísli Galdur Þorgeirsson. Hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsson og Kristján Sigmundur Einarsson. Þýðing söngtexta: Magnea J. Matthíasdóttir. Leikarar: Atli Rafn Sigurðarson, Birgitta Birgisdóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Eygló Hilmarsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Oddur Júlíusson, Hákon Jóhannesson, Pálmi Gestsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Bjarni Snæbjörnsson, Edda Arnljótsdóttir, Aron Steinn Ásbjarnarson, Hildur Ketilsdóttir, Hildur Jakobína Tryggvadóttir, Juliette Louste og Sindri Diego. Frumsýnt á Stóra sviði Þjóðleikhússins 1. mars 2019, skrifað um aðra sýningu 7. mars.

„Hrikalega er mannkyn tregt!“

Sennilega eiga gleðileikir Shakespeares erfiðara með að tala við samtímann en alvarlegri verk hans. Pólitískur refskapur, hræsni og grimmd hefur enn ekki verið betur krufin á sviði en í sögulegu leikritunum og varla að gangverk og drifkraftar mannssálarinnar hafi fengið dýpri greiningu en harmleikirnir bjóða upp á. Grínið á aðeins erfiðara uppdráttar. Fjórar aldir sjúga mesta safann úr jafnvel bestu bröndurum, fyrir nú utan að það snýst einatt um samskipti kynjanna og á því sviði höfum við nú blessunarlega þokast aðeins á veg og skilið þessar fjögur hundruð ára tilhugalífsraunir eftir án verulegs erindis. Það mesta sem skopverkin geta vænst er að stytta okkur stundir „milli matartíma og hátta“ eins og Þeseifur hertogi orðar það þegar hillir undir leikslok, í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns á Jónsmessunæturdraumi. Útlegging Þórarins er lipur, hnyttin og auðgrípanleg. Alvöru samanburður hennar við verk Helga Hálfdanarsonar, eða þá frumtextann, falla utan takmarkana blaðagagnrýni af þessu tagi. Mögulega lætur Þórarinn setningar oftar enda á rímorði en Helgi, en hæpið að fullyrða svoleiðis að óathuguðu máli. Hugsanlega tengist þessi upplifun líka óvenjumikilli hlýðni leikhópsins við hrynjandi bundna málsins. Fyndnin í óbundnum samtölum á leikæfingunum viðvaninganna er áberandi hittnari hjá Þórarni en hjá Helga, en á móti held ég að upphafin lágkúran í harmleiknum um Píramus og Þispu fljúgi hærra hjá þeim gamla. Þetta er samt auðvitað enginn stóridómur og það er mikil gæfa að eiga núna tvær aðgengilegar og leikvænar þýðingar á þessum vinsælasta og mest leikna gamanleik höfuðskálds heimsins.

Uppfærsla Hilmars Jónssonar og sýning Þjóðleikhússins er litrík, íburðarmikil jafnvel, og aldrei leiðinleg. Það væri enda dauðasynd: að láta áhorfendum leiðast á einu skemmtilegasta leikriti sem skrifað hefur verið, og best heppnaða verki Shakespeares sem endar alfarið vel. Spurningin er hvort við verðum ekki að gera harðari kröfur á þjóðleikhús sem tjaldar öllu til, en að vera ekki leiðinlegt með annan eins efnivið, að viðbættri hæfileikum og fagmennsku áhafnarinnar.

Þær aukakröfur uppfyllir sýningin ekki nema stund og stund, og alls ekki sem heild. Kannski er stóri vandinn sá að andstæður og samspil heimanna tveggja: mannheima og náttúru eða álfheima, borgar og skógar, eru ekki útfærðar á fullnægjandi hátt. Grunnhugmynd mannheimanna: að staðsetja brúðkaup Þeseifs og Hippólítu á gamaldags lúxushóteli með handverksmennina í starfsliðinu, er bráðsnjöll og einkar glæsilega útfærð af Evu Signýju Berger og flott lýst af Halldóri Erni Óskarssyni. En þegar flótti Hermíu og Lísanders, og eftirför Helenu og Demetríusar, brestur á, tekst hvorki að gera umbreytinguna spennandi né umgjörðina vettvang fyrir skapandi sviðsetningu skógarsenanna. Á stundum virkar miðhluti sýningarinnar og meginefni verksins eins og það eigi sér einnig stað á hótelinu, og þá í einhverri draumavídd innan þess. Hafi það verið hugmyndin er henni ekki fylgt nægilega vel eftir.

Þegar kemur að persónunum verða fyrir okkur þrír heimar en ekki tveir. Lágstéttin kemur best út úr þessari sýningu: hótelstaffið sem tekur að sér að skemmta brúðkaupsgestum af einstökum vanefnum er vel formað og undirbúningsatriði þeirra eru bráðfyndin, ekki síst fyrir hinn athyglisbrostna veltikall sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir býr til úr forystusauðnum Bossa. Aðrir ná varla að skapa afgerandi persónuleika, en kómískar tímasetningar skila engu að síður hlátri fyrir Sigurð Sigurjónsson og Pálma Gestsson. Sjálf leiksýningin þeirra leysist upp í óskipulagt kaos sem kætti mig umtalsvert minna en þorra leikhúsgesta.

Einnig skorti nokkuð á afgerandi persónusköpun, skýra afstöðu, í túlkun elskendanna. Þessi burðarhlutverk eru sennilega sá hluti verksins sem þarfnast mestrar hjálpar frá leikstjóra og öðrum hugmyndasköpurum, svo einsleit og einsýn sem þessir ástsjúklingar eru. Það lánast ekki fyllilega hér. Þau Eygló Hilmarsdóttir, Hákon Jóhannesson, Oddur Júlíusson og Þórey Birgisdóttir skila sínu ágætlega, en það vantar upp á að hvert þeirra hafi sterkari og mikilvægari séreinkenni. Lengst þótti mér Eygló komast með sína Helenu, sem óneitanlega er með bitastæðasta ferðalagið í gegnum þessa örlaganótt. Sú hugmynd að „söngleikjavæða“ verkið með þekktum popplögum sem persónurnar bresta í við að tjá tilfinningar sínar reynist ófrjó eða ekki beitt á nógu snjallan eða afgerandi hátt til að réttlæta sig.

En það var ekki bara aðgreiningu unglinganna sem skorti. Sýningin gefur okkur heldur ekki skýra tilfinningu fyrir hvers konar samfélagi börnin tilheyra. Dauðadómur Þeseifs yfir Hermíu í upphafi stuðar engan í þessari sýningu, svo forneskja er hér rótgróin, en jafnframt er hertoganum engin sérstök virðing sýnd og unglingarnir nútímalega frjálslegir og hreint ekki prúðir. Úthugsuð afstaða er annaðhvort ekki til staðar eða skilar sér alla vega ekki yfir sviðsbrúnina. Búningar Karenar Briem hjálpa okkur heldur ekki að skilja hvaða fólk þetta er, mun betur gengur henni að gefa hótelstaffi og álfum skýra og merkingarbæra ásýnd.

Mest afgerandi andstæðan er, eins og vera ber, milli mannheima og álfheima. Hér hittir sýningin á „bragð dagsins“ með að gera lífsleiða úrkynjun og bdsm-fagurfræði að grunntóni við hirð Títaníu og Óberons, sem togast hér á um indverskan fósturson drottningar, sem hún hefur alið upp sem grímuklætt „gimp“. Þessi túlkunarleið er alveg fær, sérstaklega ef strikað er burt megnið af vísunum í djúp tengsl Óberons og Títaníu við náttúruna og hlutverk þeirra við að halda árstíðunum á braut sinni. En óneitanlega vaknar spurningin hvort jafn lífsreyndur kynsvallari og Títanía myndi nokkuð hrylla sig svona yfir Bossa þegar hún vaknar af ástarlyfjamókinu. Væri hún ekki bara harla ánægð með að hafa farið á asna líka? Og svo hitt: myndi þessi nautnasjúki og lifaði Óberon nokkuð fyllast rómantískri þrá eftir að greiða úr barnalegum gelgjuástarflækjum ókunnugra, þegar hann er önnum kafinn við að stela kynlífsþræl frá konu sinni? Því miður hjálpaði afstöðulaus og sérkennilega dauf frammistaða Atla Rafns Sigurðarsonar ekkert upp á að trúa á eða skilja hvað álfakóngnum gekk til. Það sama má segja um Þeseif hans, sérkennilegur skortur á sviðslegri nærveru einkenndi þá báða. Birgitta Birgisdóttir gerði sér öllu meiri mat úr Hippólítu en þó einkum Títaníu, sem varð sannfærandi innan takmarkana grunnhugmyndarinnar.

Áberandi áhrifaríkastur af álfastóðinu er Búkki Guðjóns Davíðs Karlssonar. Sterk nærvera og myndugleiki einkenndu þessa túlkun á skósveini Óberons, frekar en trúðsk hrekkjakætin sem oft er grunntónninn og verður auðveldlega þreytandi. Eins og oft er gert gegnir Búkki líka skyldustörfum skemmtanastjórans Fílóstratosar og kynningarræðan hans á undan skemmtiatriði hótelstaffsins er kómískur hápunktur sýningarinnar.

Þessi Jónsmessunæturdraumur líður talsvert fyrir skort á skýrri listrænni heildarhugsun. Fyrir vikið ná stakar snjallar hugmyndir og tilþrif ekki fullum áhrifum. Hann er ekkert sérstaklega kröftugur, ekki hugmyndaríkur í sviðsetningu og sviðsumferð, heimarnir sem sýningin leiðir saman ekki nægilega vel formaðir og árekstrar þeirra fara fyrir vikið of oft á mis. Þökk sé efniviðnum verður hún samt þrátt fyrir allt ásættanleg skemmtun þegar upp er staðið. Þessi ólíkindalega samsuða frá því herrans ári 1595 stendur enn fyrir sínu, hvað sem brölti hins hrikalega trega mannkyns líður.