fimmtudagur, janúar 03, 2019

Ríkharður III

Eftir William Shakespeare. Íslensk þýðing: Kristján Þórður Hrafnsson. Aðlögun: Brynhildur Guðjónsdóttir og Hrafnhildur Hagalín. Leikstjórn: Brynhildur Guðjónsdóttir. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Filippía I. Elísdóttir. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist: Daníel Bjarnason. Dansar: Valgerður Rúnarsdóttir. Leikgervi: Elín S. Gísladóttir. Leikarar: Arnar Dan Kristjánsson, Davíð Þór Katrínarson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Halldór Gylfason, Hilmar Guðjónsson, Hjörtur Jóhann Jónsson, Jóhann Sigurðarson, Kristbjörg Kjeld, Sigrún Edda Björnsdóttir, Sólbjört Sigurðardóttir, Valur Freyr Einarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir. Frumsýning á stóra sviði Borgarleikhússins 29. desember 2018.

Okkar tíkarsonur


Með „Harmleiknum um Ríkharð þriðja“, eins og verkið heitir í fyrstu prentunum, steig William Shakespeare risaskref á þroskabraut sinni sem leikskáld. Í fyrsta sinn heppnast allt næstum fullkomlega, þó svo aldrei hafi hann teflt jafn djarft þegar hér er komið sögu. Þó óslitinn efnisþráður og stór hluti aðalpersóna tengi það við þríleikinn um Hinrik sjötta og Rósastríðin er himinn og haf milli formgerðar, efnistaka og skáldskaparflugs. Örlög titilpersónunnar kallast á við og speglast í ógæfu Englands og örlögum allra sem á vegi Ríkharðs verða. Nútímaleg persónusköpun sækir aðferðir og staðalmyndir í helgileiki miðalda. Þetta er eitthvað alveg nýtt. Við vitum núna að sagnfræðin er hæpin, lituð af málstað sigurvegaranna, Tudor-ættarinnar sem er krýnd í leikslok. Það truflar engan nema hörðustu kverúlanta. Og alls ekki lesendur og áhorfendur utan heimahaganna, þar sem Ríkharður hefur, einn söguleikjanna, numið lönd svo einhverju nemi. Þökk sé hinu iðandi lífi og myrkum kynþokka skrímslisins.

Það virðist vera kominn á friður í ríki Englendinga í upphafi verksins, eins og titilpersónan útmálar í frægri upphafsræðu og fyrsta af mörgum trúnaðarsamtölum við meinta bandamenn sína í áhorfendasalnum. Vígfimi og miskunnarleysi Ríkharðs hefur átt sinn þátt í að stríðsgæfan féll á endanum með Jórvíkurmönnum og bróðir hans er sestur í hásætið. En Ríkharður er, eins og hann bendir sjálfur á, enn sá sem hann var. Sá sem stríðið, sem stóð allan hans uppvöxt, gerði úr honum. „Okkar tíkarsonur“ gætu Játvarður konungur, Elísabet drottning og allt þeirra fólk kallað hertogann af Glostri eins og Roosevelt sagði um Somosa Níkaragúaforseta. Fyrst og fremst bara tíkarsonur samt. Með sín eigin markmið sem samræmast ekki lengur áætlunum ættarinnnar. Somosa er svo sannarlega ekki eini nútímastjórnmálamaðurinn sem kemur upp í hugann meðan horft er á þennan fjögurhundruð ára gamla sálfræðitrylli.

Því eitt af því sem opinberast sem aldrei fyrr, í einbeittri og úthugsaðri túlkun og sviðsetningu Brynhildar Guðjónsdóttur og hennar fólks í Borgarleikhúsinu, er hve sorglega brýn þessi gamla harmsaga er. Og það án nokkurrar áreynslu við að staðsetja söguna áþreifanlega í nútímanum. Við erum ekki stödd í Sýrlandi. Engir farsímar eða sjónvarpsskjáir. Engar byssur. Bara fólk, texti og yfirveguð og hugvitsamleg beiting á viðteknum verkfærum leikhússins. Minnst nútímalegt er kannski traust leikstjórans á framlagi höfundarins, augljós alúðin við orðin sem skilar sér í afburðameðferð leikhópsins í heild á textanum. Þá kemur líka í ljós að skáldið er, ólíkt Ríkharði sköpunarverki sínu, traustsins vert og útkoman áhrifaríkasta Shakespeareuppfærsla sem ég minnist á íslensku sviði og þó víðar væri leitað.

Þar kemur margt til og eins gott að byrja á þýðingunni. Einstigið er þröngt milli skáldlegra mælskutilþrifa frumtextans og skiljanleika í rauntíma sviðsins, þar sem engin yfirlega er möguleg. Leið Kristjáns Þórðar Hrafnssonar í sinni fyrstu ferð er óvenjuörugg. Eitt af mikilvægustu vopnum sýningarinnar. Kjarnyrt, skýr og beitt.

Næst í keðjunni kemur aðlögunin; styttingar og tilfæringar Brynhildar og Hrafnhildar Hagalín dramatúrgs. Aftur er skýrleiki og hnitmiðun greinilega stefnan og einnig þar heppnast allt. Persónum er róttækt fækkað og góður slatti af textanum í þessu fjórða lengsta leikriti Shakespeares fær að fjúka, eins og nánast undantekningalaust í óþolinmóðu nútímaleikhúsinu. Megnið af því sem endar hér á gólfinu er alsiða að strika, annað er óvenjulegra að verða af. Og svo hljóma kaflar í Borgarleikhúsinu sem sjaldan eru hafðir með. Þar kemur til róttækasta ákvörðun aðlagaranna; að bæta persónu í galleríið, Elísabetu af Jórvík, og ljá henni línur sem skrifaðar voru fyrir t.d. ættmenn drottningar, börn hertogans af Klarens og sigurvegara verksins, Hinrik Tudor. Þetta heppnast ágætlega og verður lykilatriði í þeirri meginstefnu túlkunarinnar að horfa á atburðina frá sjónarhóli kvennanna. Sólbjört Sigurðardóttir fer eins og aðrir af öryggi með textann en tjáir sig að mestu í dansi. Glæsilega vitaskuld, en ég er ekki alveg sannfærður um beitingu danslistarinnar í sýningunni, finnst hún stinga í stúf og ekki þjóna markmiðum sínum fyllilega, þó vel væri gert.

Að öðru leyti þarf ekki miklar tilfæringar til að stilla fókusinn á harma kvennanna í kringum Ríkharð. Það nægir nánast að stilla sig um að strika senurnar þeirra, svo mjög sem safarík samskipti þeirra við miskunnarlausan valdafíkilinn og kröftugar raunatölur þeirra setja svip sinn á verkið eins og höfundur skildi við það. Flestar áminningar um fortíð Margrétar ekkjudrottningar, sem var skörulegur stríðsgarpur í undanfaraverkunum með Ríkharðsleg voðaverk á afrekaskránni, eru reyndar fjarlægðar en að öðru leyti birtast atriði kvennanna næsta óstytt í allri sinni umtalsverðu dýrð. Fá líka heldur en ekki glæsta meðferð hjá leikkonunum. Sigrún Edda Björnsdóttir sýndi okkur Sesselju móður Ríkharðs sem konu sem löngu er búin að brynja sig en auðvitað hlýtur sú skurn að rofna. Þórunn Arna Kristjánsdóttir er Anna, ekkja eins fórnarlamba Ríkharðs og síðan skammlíf eiginkona eftir eina frægustu bónorðssenu bókmenntanna sem var þrúgandi og sannfærandi hér. Edda Björg Eyjólfsdóttir gerði ferðalagi Elísabetar drottningar frá krúnu til sorgarhyldýpis framúrskarandi skil. Og þó annað hefði mistekist hefði heimsókn í Borgarleikhúsið verið þess virði til að hlýða á refsinornina Margréti af Anjou í meistaralegum meðförum Kristbjargar Kjeld.

Karlarnir eru flottir líka, hvort sem það er ísmeygilegur Bokkingham Vals Freys Einarssonar, inngróinn en glórulaus kerfiskallinn Hastings hjá Jóhanni Sigurðarsyni, skoplega einfaldir konungur og biskup Halldórs Gylfasonar, langþrúgaður Katsbý Hilmars Guðjónssonar, lánlaus Rivers Davíðs Þórs Katrínarsonar eða samviskubugaður barnamorðingi Arnars Dan Kristjánssonar.

Þegar upp er staðið er þetta samt verk titilpersónunnar. Túlkun og frammistaða Hjartar Jóhanns Jónssonar í hlutverki Ríkharðs er hennar stærsti sigur, og er þá allnokkuð sagt. Krafturinn, húmorinn, grimmdin, slægðin, ósvífnin og umkomuleysið; allt er þetta þarna og skín í gegnum skelina til skiptis eins og kvikasilfur. Það er heldur ekki hægt annað en að nefna þá líkamlegu þrekraun sem Hjörtur undirgengst hér og stenst með glans. Sambandið við áhorfendur í forgrunni eins og vera ber, frábærlega útfært og viðhaldið. Sérstaklega undir lokin þegar við skynjum að Ríkharður veit að hann hefur fyrirgert samúð okkar en heldur samt áfram að vinka og brosa.

Öll umgjörð er vel heppnuð og stundum rúmlega það. Búningar Filippíu Elísdóttur gera allt sem þeir eiga að gera, gervi Elínar S. Gísladóttur fyrir Ríkharð er glæsilegt, tengir hann í mínum huga við Alien-myndirnar og snýr þannig veikleika fötlunar upp í styrk hins ómennska. Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur hárréttur vettvangur með fjölbreyttum möguleikum og lýsing Björns Bergsveins Guðmundssonar náði mögnuðum áhrifum hvað eftir annað. Það sama má segja um tónlist Daníels Bjarnasonar. Skruðningar og ískur hljóðmyndarinnar sköpuðu stemminguna og sönglögin tvö frábær hugmynd og flottar smíðar. Sérstaklega örvæntingararía Elísabetar drottningar sem lyfti þjáningu hennar og sendi hana síðan út í heiminn þegar kórinn tók við. Við verðum öll að vera Anna, Margrét, Sesselja og Elísabetarnar. Bera harminum vitni, eigi nokkur von að vera til þess að Ríkharðar heimsins liggi í valnum og ljósið fái möguleika til að blakta og jafnvel skína líkt og í leikslok. Það segir þessi fjögurhundruð ára texti mesta skálds heimsins sem hér er komið til skila af virðingu, krafti og sannri list.