miðvikudagur, maí 02, 2018

Svartalogn

Eftir Kristínu Marju Baldursdóttur í leikgerð Melkorku Teklu Ólafsdóttur. Leikstjórn: Hilmir Snær Guðnason. Leikmynd: Gretar Reynisson. Búningar: María Th. Ólafsdóttir. Tónlist: Markéta Irglová og Sturla Mio Þórisson. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Hljóðmynd: Elvar Geir Sævarsson og Aron Þór Arnarsson. Ráðgjöf varðandi pólsku: Ewa Marcinek. Leikarar: Elva Ósk Ólafsdóttir, Edda Arnljótsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Snæfríður Ingvarsdóttir, Esther Talía Casey, Hallgrímur Ólafsson, Pálmi Gestsson, Baldur Trausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir og Snorri Engilbertsson. Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins föstudaginn 27. apríl 2018.


Við enda ganganna


Fyrir utan umfjöllunarefnið: hlutskipti miðaldra kvenna í atvinnulífi og samfélagi nútímans, og umbreytandi möguleika samtakamáttar kvenna til að virkja hæfileika og blómstra á sínum forsendum, er fýsileiki þess að leikgera Svartalogn langt í frá augljós. Þessi nýjasta bók Kristínar Marju Baldursdóttur líður dálítið fyrir sviplitlar aðalpersónur og skort á verulega áhugaverðum og dramatískum „þröskuldum“ á vegi Flóru, Petru og pólsku söngdísanna, sem eru þrjár í bókinni en tvær á sviðinu, Ewa og Joanna. Tónskáldið Petra er að koðna niður í Vestfjarðaþorpinu en sigrar loks heiminn með hjálp hinna austrænu radda og viðskiptavits brottreknu bókhaldskonunnar að sunnan. Jafnvel ástin lætur á sér kræla en mun ekki fá að afvegaleiða konurnar í lífshamingjuleit sinni, eins og hún hefur áður gert.

Það verður að játast að ekki þótti mér Melkorku Teklu Ólafsdóttur og Hilmi Snæ Guðnasyni auðnast að berja í þessa bresti að neinu marki. Til að gera söguna að nothæfu eldsneyti í leiksýningu hefði þurft talsvert sjálfstæðari afstöðu, meira framlag frá leikskáldinu, minni virðingu fyrir texta skáldkonunnar.

Stóri vandinn liggur í persónu Flóru. Þó að við fáum langsamlega mest að vita um hennar hagi, fortíð og þá klemmu sem lífið er búið að koma henni í verður persónan sjálf aldrei fyllilega lifandi, sérstök eða áhugaverð fyrir lesanda/áhorfanda. Til þess ber hún of þungar byrðar í erindisrekstri verksins varðandi meðferð samfélagsins og vinnumarkaðarins á síðmiðaldra konum með tilheyrandi tjóni á sjálfsmynd og -trausti. En það er ekki hægt að leika það, ekki í svona hefðbundinni og leikhúsraunsærri úrvinnslu. Það þarf persónuleika. Það þarf alvöru árekstra við annað fólk og kringumstæðurnar. Það fýkur vissulega svolítið í Flóru stundum, þegar Petra dettur í þunglyndi eða listræn frekjuköst, en allt slíkt lagast áreynslulítið. Vissulega vinnur hún hógværa hetjudáð með því að bjarga Joönnu úr klóm ofbeldishrottans Krumma og halda honum fjarri, en jafnvel það gengur stóráfallalaust og skilur ekki eftir sjáanleg merki á persónunni og þroska hennar. Það er varla nokkuð út á skothelda frammistöðu Elvu Óskar Ólafsdóttur að setja, annað en ósk um að hún fái feitari og safaríkari bita fljótlega.

Petra er jafnvel enn óskýrari persóna, en hana sjáum við með augum Flóru í fyrstupersónufrásögn bókarinnar. Geðsveiflur hennar og mótsagnir gera Petru auðvitað skrautlega og andlegt ástand hennar og/eða dyntir móta að mörgu leyti framvindu verksins, ásamt aðstæðum Joönnu og viðbrögðum hennar við þeim. En persónan sjálf nær ekki sjálfstæðu lífi, hvorki í bók né á sviði. Edda Arnljótsdóttir náði Petru fyrir vikið ekki í fókus, en skapaði vissulega nokkur sönn augnablik, ekki síst þar sem kómískir möguleikar voru í boði. Það sama má segja um Elvu Ósk, sérstaklega var vandræðagangurinn í samdrætti Flóru og heimsborgarans Marteins (Baldur Trausti Hreinsson) gleðigjafi.

Það gerir minna til þó að smærri persónur skorti dýpt og fyrir vikið var þar fleira sem gladdi. Ragnheiður Steindórsdóttir var hæfilega aðsópsmikil sem Guðrún gamla, frænka og skjól Petru, þó að eldri og skrítnari „kerling“ hefði trúlega hjálpað sýningunni og breikkað galleríið. Pálmi Gestsson náði sýndist mér öllu sem í boði var út úr hrúðurkarlinum innanmjúka, Jóhannesi verkstjóra. Sama má segja um Hallgrím Óskarsson, ekki við hann að sakast þó að Krummi sé klisjulegur ofbeldismaður og vesalmenni þegar á reynir. Hann fór síðan einna verst út úr einum af stærri annmörkum sýningarinnar: leikmyndinni.

Eins og það hefur nú hljómað vel á einhverju stigi að staðsetja þetta Vestfjarðadrama í jarðgangamunna, og þó að útfærsla Gretars Reynissonar þjóni í raun flæði sýningarinnar ágætlega og gangverk hennar sé hnökralaust og flott hjá Hilmi Snæ hefur hún þann stóra galla að skapa skelfilega hljóðvist fyrir leikhópinn. Allt of oft drukknaði textinn, eða barst í það minnsta ekki skiljanlegur út í sal. Verst fór út úr þessu eitt lykilatriði verksins, lokauppgjör Krumma og Joönnu. Hann á öskrinu, hún að berjast við hvolfþak Grétars með grátstaf í kverkum. Og pólskan hreim.

Langoftast þegar unnið er með erlendan hreim í íslensku leikhúsi er það í grínleikritum og oft er bæði útfærsla og tilgangur einhvers staðar á rasismarófinu. Svo er ekki hér. Raunar finnst mér hin vandaða og heiðarlega vinna Snæfríðar Ingvarsdóttur og Estherar Talíu Casey með pólska hreiminn, og pólska textann, vera eitt það besta við sýninguna, að svo miklu leyti sem ég er dómbær á hversu vel þeim tekst til í samstarfi við Ewu Marcinek, pólskuráðgjafa sinn. Esther hefur ekki úr stóru drama að moða í hlutverki sínu en Joanna hefur talsverða nærveru og átökin í kringum hana eru viðburðamiðja verksins. Snæfríður gerði þetta ágætlega.

Ónefnd eru Birgitta Birgisdóttir og Snorri Engilbertsson, sem fara með hlutverk nokkurs konar innri radda Flóru, holdgerðar sem fyrrverandi samstarfsmenn hennar. Raddirnar eru að mestu hæðnislegar og sjálfsásakandi, sem á vel við, og hugmyndin er fín, sem og úrvinnsla Birgittu og Snorra. En textinn nær ekki nægilegu flugi og dugar ekki til að gefa þessum þætti vídd og líf.

Einu nær sviðsetningin að miðla sem ekki tekst í bókinni, reyndar mjög skiljanlega. Það er tónlistin sem Petra semur, Ewa og Joanna syngja og allir sem heyra heillast af. Það er ekki lítið sem lagt er á herðar Markétu Inglová og Sturlu Mio Þórissyni, tónlistarhöfundum verksins. Góðu heilli er útkoman ákaflega sjarmerandi lög við seiðmögnuð og dramatísk ljóð íslenskra skáldkvenna, Guðfinnu frá Hömrum, Ólöfu frá Hlöðum og Ólínu Andrésdóttur. Lögin eru í einhvers konar þjóðlagaskotnum söngvaskáldapoppstíl, sem hægt er að spyrja sig hvort rími við það sem okkur er sagt um tónskáldið sérlundaða, eða eigi erindi í kirkjur Suður-Þýskalands, þar sem Petra og systur hennar í listinni slá í gegn. En góð tónlist afvopnar jafnvel hryssingslega gagnrýnendur og þetta eru falleg lög, vel flutt í sýningunni og gætu auðveldlega átt framhaldslíf. Eins og persónur verksins sem hafa sótt í þau styrk og von til að ganga til móts við lífið. Það sést best í lokamynd verksins, sem er snjöll og fer langt með að réttlæta leikmyndina.

Það hefur ekki verið neinn hægðarleikur fyrir Halldór Örn Óskarsson að lýsa þessi göng hans Gretars. Enda stundum erfitt að ná sambandi við svipbrigði leikaranna. Effektalýsing í gangaveggjum og lofti er hins vegar stundum áhrifarík í samspili sínu við hljóðmynd Elvars Geirs Sævarssonar og Arons Þórs Árnasonar. Búningar Maríu Th. Ólafsdóttur eru frekar rökréttir og tilþrifalitlir, nema þá rauði kjóll Flóru sem gegnir nokkuð mikilvægu tákn- og sálfræðilegu hlutverki í frelsun hennar. Óheppilegt að þessi glæsifatnaður skuli virka meira heftandi en frelsandi, kona að pakka sér inn í þröngar kynæsandi umbúðir og upp á óstöðugu háu hælana. Algerlega gegn sögn verksins.

Leikgerð Svartalogns fylgir mótaðri leikgerðarhefð Þjóðleikhússins, sem það fær oft skammir fyrir að leita svona oft í. Hér endurgeldur efniviðurinn ekki traustið og virðinguna sem honum er sýndur, nær ekki að blómstra eða hafa þau sterku áhrif sem augljós vilji stendur til.x