miðvikudagur, október 14, 2015

Heimkoman

Höfundur: Harold Pinter. Þýðandi: Bragi Ólafsson. Leikstjórn: Atli Rafn Sigurðarson. Dramatúrg: Símon Birgisson. Tónlist: Einar Scheving. Hljóðmynd: Kristján Sigmundur Einarsson. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Leikarar: Björn Hlynur Haraldsson, Eggert Þorleifsson, Ingvar E. Sigurðsson, Ólafur Egill Egilsson, Snorri Engilbertsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. Frumsýning 10. október 2015.

Römm er sú taug

Byrjum á umgjörðinni. Hún er framúrskarandi. Frumleg og óvænt, en líka hárrétt og viðeigandi hjá Berki Jónssyni. Leikurinn fer fram í einhverskonar iðnaðarhúsnæði, mögulega afdrepi utan hins eiginlega starfsvettvangs. Fjölskyldufaðirinn var jú slátrari og kannski er þetta kjötvinnsla. Bróðir hans er bílstjóri, þetta gæti líka verið aðstaða fyrir hann að þrífa og dytta að. Þetta er karlaheimur, með hlandskál á vegg í allra augsýn. Nóg pláss fyrir yngsta soninn, hnefaleikakappann, til að fara í ísbað í fiskikari og föður hans að rúnta um á ellinöðru. Meira að segja rými fyrir trommusett. Allt lýst með flúorperum. Allt á sínum stað. Dauðhreinsað, kalt og miskunnarlaust. 

Þegar hrynjandi þessa heims er trufluð með heimkomu elsta sonarins og eiginkonu hans þarf að koma skikki á aftur. Hratt. Og þó þetta sé heimur karla þá er ekki að spyrja að áhrifavaldi kvennanna í lífi þeirra. Minning móðurinnar verður miðsyninum, hórumangaranum, að vopni í valdabaráttu við föðurinn snemma verks í einu eftirminnilegasta atriði þess, og svo má segja að atburðarásin hverfist um eiginkonuna nýkomnu. Óræðnin í því hversu mikill þolandi eða gerandi hún er í örlögum sínum er það sem áhorfandinn fer fyrst og fremst með út með sér.

Pinter teflir djarft í þessu verki, ögrar og ýtir við römmum trúverðugleika og hin brjálæðislegu hvörf undir lok verksins eru enn jafn hrollvekjandi og 1964. 

Eitt af því sem gerir umgjörðina svona snjalla og þénuga er einmitt hvað hún skapar sannfærandi nútímavettvang fyrir verk með jafn djúpar rætur í tíma og stað og Heimkoman. Æskuslóðir höfundar í Austur-London eftirstríðsáranna, feðraveldisheimur, hörð lífsbarátta og grimm valdatogstreita sem er mestan part háð með orðum, en líkamlegri lausnir við að skera úr um stöðu í virðingarstiganum eru aldrei djúpt undir yfirborðinu. Þannig er það hjá Max, sonum hans og bróður.

Virðing fyrir, og nákvæm vinna með, texta er grundvallarverkefni leikhóps sem færir fram verk úr smiðju Harolds Pinter. Sá þáttur hefur fengið þá alúð sem þarf hjá Atla Rafni og leikhópnum, sem inniheldur auk þess nokkra af okkar snjöllustu og næmustu textaleikurum. Að ógleymdum þýðandanum, en Bragi Ólafsson verður að teljast sérlega vel til þess fallinn að búa þessum texta, þar sem ekkert er sem sýnist, íslenskan búning. Hann hefði samt þurft að finna betri lausn fyrir orðið „tease“ en „daðurdrós“, sem virkar alls ekki í því samhengi sem þrástagast er á þegar leikslokin nálgast.

Það er vel skipað í áhöfnina í þessari sýningu og allir skila skínandi verki. Leiklega séð eru ekki veikir blettir, ögun og nákvæmni í fyrirrúmi. Ég minnist þess ekki að hafa hrifist jafn mikið af framgöngu Björns Hlyns Haraldssonar og hér í hlutverki hörkutólsins Lennys og Joey bóðir hans er vel teiknaður af Snorra Engilbertssyni. Ólafur Egill Egilsson er einn þeirra sem alltaf nýtur glímunnar við textann og er eins og fiskur í vatni sem hinn burtflogni bróðir sem er utanveltu í gamla heiminum en jafnframt með siðareglur og samskiptaform hans innprentuð í erfðaefnið. Og það andar bæði heitu og köldu frá hinni torræðu Ruth í meðförum Vigdísar Hrefnu Pálsdóttur. Eggert Þorleifsson gæti sennilega leikið spaugilegar undirlægjur eins og Sam sofandi með ágætum árangri, en hann var með fullri meðvitund á frumsýningunni og teiknaði frábærlega skýra persónu.

Það verður þó að segjast að það gengur illa upp að láta Ingvar E. Sigurðsson leika fjölskylduhöfuðið Max. Það er útilokað að trúa því að hann sé faðir Björns Hlyns eða Ólafs, hvað þá eldri bróðir Eggerts, engin leið að samþykkja að hann sé eftirlaunamaður, sérstaklega þar sem ekkert er gert til að gera hann trúverðugan í því hlutverki. Auðvitað skilar Ingvar þessu óaðfinnanlega, og auðvelt að skilja þá freistingu að fá hann til verksins. En allt skiptir máli, allt hefur sögn í leikhúsi, og þetta leikaraval ruglar óneitanlega hina nákvæmu mynd sem verkið dregur upp. 

Ég er líka efins um þá ákvörðun að hafa tónlistarhöfundinn og -flytjandann Einar Scheving sýnilegan á sviðinu með sett sitt og aðrar græjur fyrri hluta verksins. Í hinni raunsæislegu leikmynd verður þetta torkennilegt, og of oft freistandi að fylgjast með hamförum trommumeistarans þegar athyglin væri betur komin annarsstaðar. Sem áhrifstónlist er framlag Einars hinsvegar stórfínt.

Þegar á heildina er litið er hér fengist við eitt af höfuðverkum eins mikilvægasta leikritahöfundar síðari tíma með (næstum) stælalausri virðingu og listrænni alvöru. Umgjörðin er snjöll, vinna leikhópsins fyrsta flokks. Útkoman fyrirsjáanlega áhrifarík.