laugardagur, júní 30, 2012

Trúðleikur

eftir Hallgrím H. Helgason
Leikstjóri: Halldór Gylfason
Leikendur: Benedikt Karl Gröndal og Kári Viðarsson

Frystiklefinn á Rifi

Ég vildi að líf mitt væri leiðinlegra


Trúðurinn Spæli er í tilvistarkreppu. Trúðastarfið - eða kannski öllu heldur trúðalífið - veitir honum enga fullnægju lengur. Í það allraminnsta langar hann að fá bitastæðari verkefni í samleik sínum við Skúla félaga sinn. En helst vildi hann hætta og fá virðulega vinnu á skrifstofu. Eignast jakka og skjalatösku. Spæli á sér semsagt eina ósk: að verða leiðinlegur. Eins og góðum vini sæmir gengur Skúli í það að búa til ný atriði með virðulegri hlutverkum fyrir Spæla, og jafnvel að aðstoða hann við að búa sig undir hið nýja og virðulega líf.

Þetta mistekst nú allt saman sem betur fer með hlægilegum og trúðskum afleiðingum. Og meðan við hlæjum þá rifjast upp fyrir okkur að það er mikilvægara að rækta sjálfan sig en umpotta. Það gildir um okkur öll, en verður svo kristaskýrt þegar það er trúður sem þráir annað líf. Því trúður hvílir svo fullkomlega í sjálfum sér hvort sem honum líkar betur eða verr. Tilvist hans og sál býr í rauða nefinu sem hann má ekki einu sinni snerta og kemst því ekki undan. Þegar það er tekið ofan er trúðurinn horfinn.

Ég sá ekki frumuppfærslu Trúðleiks árið 2000 þar sem Friðrik Friðriksson og Halldór Gylfason, sem leikstýrir þessari sýningu nú, fóru með hlutverk Skúla og Spæla. Það var nú gott að fá þetta síðbúna tækifæri núna, því það er yfir mörgu að gleðjast með þetta snjalla leikrit Hallgríms H. Helgasonar. Hann veitir prýðilega innsýn í heillandi hugarheim trúðanna, hvar hann skarast við okkar líf og hvað greinir hann frá. Undir lokin velur hann reyndar að brjóta reglur leiksins, þegar Spæli tekur á sig kvengervi án þess að það sé gert í samráði við mótleikara hans (og okkur áhorfendur). Ekki fannst mér ávinningurinn af þessum viðsnúningi réttlæta stílbrotið, en þangað til var mér bæði skemmt og látinn velta fyrir mér hlutum sem hollt er að hugsa um.

Kári Viðarsson og Benedikt Karl Gröndal eru Skúli og Spæli og tekst vel upp. Persónur trúðanna eru sannfærandi, samleikurinn góður, bæði djúp vináttan og nauðsynlegur núningurinn, enda nokkuð ólíkir trúðar þarna á ferð. Skúli léttur og kátur, nema náttúrulega í dramatískasta atriði sýningarinnar þar sem hann festist í hlutverki andstyggilegs yfirmanns, og Spæli þjakaður af lífskrísunni, og þessvegna svo ógurlega fyndinn. Sem tvíeyki héldu þeir kumpánar athygli, unnu samúð og kitluðu hláturtaugar, sem saman mynda hina miskunnarlausu lágmarkskröfu sem við gerum til leikhúss almennt og trúða sérstaklega.

Sviðsetningin er skemmtileg í hráu en hentugu rými Frystiklefans, þar sem nóg pláss er fyrir gervigrasflöt, barnasundlaug tvö tjöld og ógnarstóran jeppa sem ekið er inn á sviðið í upphafi.

Frystiklefinn hans Kára Viðarssonar á Rifi er flott viðbót við líflegt leiklistarlíf Snæfellsnessins. Í næsta nágrenni er Leikfélag Ólafsvíkur með öfluga starfsemi, í Grundarfirði var nýverið stofnaður leikklúbbur og Leikfélagið Grímnir í Stykkishólmi hefur undanfarið einna helst fengist við að setja upp stórsöngleiki af miklum myndarskap. Á Rifi eru það síðan ein- og tvíleikir, oftar en ekki unnir upp úr sagnarfi héraðsins, þó að þessu sinni sé það hið sammannlega hlutskipti trúðsins sem er tekið fyrir. Vonandi halda Kári og félagar áfram að hlýja áhorfendum sínum með áræði og metnaði í Frystiklefanum um ókomin ár.