laugardagur, október 14, 2006

Karíus og Baktus

Leikfélag Akureyrar Höfundur: Thorbjørn Egner. Þýðandi: Hulda Valtýsdóttir. Leikstjórn: Ástrós Gunnarsdóttir. Leikmynd og búningar: Íris Eggertsdóttir. Tónlistarútsetningar og flutningur: 200.000 naglbítar. Leikendur: Guðjón Davíð Karlsson og Ólafur Steinn Ingunnarson. Raddir: Esther Thalía Casey, Skúli Helgason og Teitur Helgi Skúlason. Rýmið 14. október 2006.

Svangir bræður 


KLASSÍSK barnaleikrit eru meðhöndluð á nokkuð annan hátt en sígild verk ætluð fullorðnum. Að einhverju leyti er það vegna hraðari endurnýjunar í markhópnum sem það þykir næsta sjálfsagt að fara hefðbundnar leiðir í uppfærslu þeirra, nánast skylda. Þegar kemur að verkum fyrir eldri kynslóðina er hins vegar nánast litið á það sem vörusvik að bjóða ekki upp á nýja sýn í hvert sinn sem slíkt er fært á svið. Og virðist á stundum jafnvel talið mikilvægara en að leita að og miðla kjarna verksins til áhorfenda.

En blessuð börnin þurfa sem sagt ekki að óttast þetta. Til dæmis ekki í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Karíusi og Baktusi, sem er eftir því sem best verður séð í öllum aðalatriðum nema einu trú sýningarhefð verksins, á sviði og hinni víðfrægu sjónvarpsmynd – útlit aðalpersónanna og framganga þeirra öll, leikmynd, rödd sögumanns og útfærsla sögulokanna. Allt eins og það á að vera enda virkar sýningin greinilega ágætlega.

Stærsta og mikilvægasta frávikið er tónlistin. Leikfélagið hefur fengið þá ágætu hugmynd að fá einhverja merkustu rokkhljómsveit sem Akureyri hefur alið til að útsetja tónlistina upp á nýtt eftir sínu höfði og í sínum stíl. 200.000 naglbítum hefur gengið vel að finna rokkið í lögunum og leysa úr læðingi. Útkoman er seigfljótandi hljóðheimur þar sem bassi og trommur eru í algjörum forgrunni, sem er ágætt frá tónlistarlegum sjónarhóli, en þjónar andrúmslofti verksins og umfjöllunarefni síður. Heimur tannanna, tannpínunnar og tólanna hér er hátíðniheimur. Hann er skerandi, ágengur. Vælandi gítarar og óhljóð úr svuntuþeysum hefðu mátt leika meira hlutverk að mínu mati. Sérstaklega í áhrifshljóðum, en tónlistin undir atriðunum með tannburstanum var til að mynda aldeilis áhrifalaus.

Það er heldur ekki eins og það hafi verið vandað nægilega til hugmyndavinnunnar í umgjörð sýningarinnar, en aðstæður í Rýminu krefjast einmitt mikillar hugkvæmni. Tvö atriði kalla sérstaklega á snjalla lausn. Tannburstinn og tannlæknaborinn voru báðir útfærðir með ljósabúnaði, sem er ágætis leið og virkaði prýðilega fyrir borinn. En tannburstinn var hins vegar eins og hann væri ekki enn þá útfærður, heldur væri ljósaróbótunum einfaldlega gefinn laus taumurinn. Útkoman í samspili við fyrrnefnd áhrifshljóð var einkennilega ófullnægjandi og skapaði enga ógn.

Samleikur þeirra Guðjóns Davíðs Karlssonar og Ólafs Steins Ingunnarsonar er lipur, fumlaus og oft fyndinn. Sérstaklega er sykurofvirkni Guðjóns í hlutverki Baktusar afar hlægileg. En hefði hún ekki átt að hverfa þegar sulturinn sverfur að? Eins og við mátti búast eru sviðshreyfingar flottar og skemmtilegar en kannski hefði Ástrós Gunnarsdóttir leikstjóri átt að laða aðeins ólíkari persónur út úr leikurunum sínum – gera varkárni og vit Karíusar skýrara á móti lífsglöðu áhyggjuleysi Baktusar.

Og þrátt fyrir að það sé sögulega sniðugt að fá Skúla Helgason til að lesa texta sögumannsins, þá hefði að mínu mati átt að hjálpa honum við að losna við útvarpsfréttalestóninn og verða þannig meiri karakter, verða félagi barnanna og lifandi leiðsögumaður inn í furðuheim sögunnar. Ester Talía og Teitur Helgi Skúlason fara prýðilega með sínar fáu setningar.

Leikmyndin er þénug fyrir líkamlegan leikmáta drengjanna, en óttalega voru tannfyllingarnar lítilfjörlegar einhvern veginn. Kannski ekki hugmyndin, en útfærslan.

Auðvitað standa Karíus og Baktus fyrir sínu og sýningin er skemmtileg og nær vafalaust tilætluðum áhrifum. En ég saknaði þess að fá á tilfinninguna að sköpunarkraftur allra aðstandenda hefði verið virkjaður til fullnustu, innan þeirra ströngu takmarkana sem hefðbundin sýning verksins setur. Einmitt við þær aðstæður er þess mest þörf.