laugardagur, janúar 21, 2006

Naglinn

540 Gólf og Borgarleikhúsið. Höfundur: Jón Gnarr. Leikstjórn: Valgeir Skagfjörð. Leikmynd: Þórarinn Blöndal. Búningar og gervi: Helga Rún Pálsdóttir. Lýsing: Skúli Gautason. Kvikmyndun: Sveinn M. Sveinsson. Myndvinnsla: Sigurþór Heimisson. Leikendur: Gunnar Sigurðsson og Jón St. Kristjánsson. Borgarleikhúsið 21. janúar 2006.

Maður eins og ég? 


Í LEIKSKRÁ Naglans má ráða það af greinum höfundar og leikstjóra að nokkur alvara búi að baki verkinu, hér eigi að ganga á hólm við karlmennskuna og leita að kjarna hennar og stöðu í nútímasamfélaginu. Og öðrum þræði er alvöru þessa að finna í verkinu sjálfu. Eða kannski er „alvara“ ekki alveg rétta orðið. „Einlægni“ gæti verið réttari lýsing á efnistökunum.

En svo veit maður aldrei með Jón Gnarr, sem er sá listamaður íslenskur sem hefur gengið lengst í að gera yfirborðseinlægni að skopaðferð. Það er tvíeggjað sverð, því hvað ef svoleiðis mann langar allt í einu að segja eitthvað í alvöru? Hver trúir honum? Ég hef meira að segja heyrt því haldið fram að Fréttablaðspistlar Jóns og önnur tjáning á trúarreynslu hans séu ein risastór grínsýning í anda hins ameríska Andy Kaufman. Hvað veit ég?

Svo er auðvitað ekkert sjálfkrafa útilokað að segja mikilvæga og alvarlega hluti með aðferð gamanleiksins. Öðru nær reyndar. Hirðfíflið má eitt segja kónginum sannleikann. Vandinn er sá að grín byggist á því sem flytjendur og áhorfendur eiga sameiginlegt – lífsafl hlátursins er þegar nýstárlegri sýn er brugðið á sameiginlega reynslu, eða einfaldlega að hlutir eru orðaðir sem ekki hefur mátt eða þótt viðeigandi að tala um. Þá er stutt í klisjurnar.

Það er flókinn galdur að skrifa innihaldsríkt grín í alvöru. Það hefur Jóni ekki tekist að þessu sinni. Til þess er Naglinn of fastur í hjólförum klisjunnar sem nú um stundir er viðtekin sýn leikhúss og skemmtanaiðnaðarins á karlmenn. Jóni tekst ekki að bæta neinu áhugaverðu við myndina af ropandi, tilfinningaheftu, lokuðu, bjórþambandi, fótboltaglápandi, skrúfvélarveifandi, klámglápandi og ráðvilltu ístrubelgjunum og vinnuölkunum sem okkur er sífellt sagt að við séum. Myndin af konunum er síðan jafn fyrirsjáanleg. Vissulega er víða komist vel að orði og margar samtalssenurnar eru hnyttilega skrifaðar inn í þessa „hellisbúahefð“. Það örlar sums staðar á nýjum flötum, kannski sterkast þegar formúlukenndu samtali þar sem kona segir manni upp er snúið upp á föður og son. En það er of lítið af slíku nýjabrumi – búið að segja þetta of oft til að maður geti trúað því.

Bygging sýningarinnar er heldur ekki nógu markviss. Frá höfundarins hendi vantar stígandi í afhjúpun aðalpersónunnar og sjálfsskoðun. Og ramminn, ristilspeglunin sem bíður hans, er illa nýttur til að gefa sýningunni heildarsvip. Hvað sviðsetninguna varðar hafa of margar hugmyndir fengið að komast alla leið; myndbönd, ljósmyndir, skuggaleikhús, talandi klósett, álitsgjafar um karlmennskuna. Valgeir hefði þurft að ydda sýninguna betur.

Það ánægjulega er að sýningin hefur ekki á sér kaldhæðnislega gróðavonarslikjuna sem svona efnistök gefa í skyn og sveif yfir vötnum í Bless Fress í Loftkastalanum fyrir nokkrum árum og loddi við Typpatal í fyrra. Það er eins og Jóni, Gunnari, Valgeiri og félögum finnist þeir í alvöru vera að segja eitthvað merkilegt og mikilvægt. Aftur: það er einlægni og hlýja í sýningunni. Þessir eiginleikar birtast ekki síst í framgöngu Gunnars Sigurðssonar. Gunnar hefur að sumu leyti sambærilegan hæfileika og höfundurinn, að virðast algerlega hversdagslegur í fasi og framgöngu við jafn skringilegar aðstæður og standa upp á sviði og afhjúpa sig. Að túlka hinn algera meðaljón án þess að gera hann annaðhvort fullkomlega óáhugaverðan eða þannig að „tækni“ eða „skólun“ leikarans fari í forgrunn er ekki á allra færi, kannski síst þeirra sem við myndum kalla „stórleikara“.

En Gunnar hefur þetta. Maður trúir á hann, myndi treysta honum til að reisa hjá sér millivegg eða losa stíflu úr klósetti. Mótleikara Gunnars gefst ekki kostur á að reyna við einlægnina. Verkefni Jóns St. Kristjánssonar er að bregða sér í ótal gervi eiginkvenna, föður, barna, lækna, sálfræðinga og annarra samferðamanna Naglans. Sumar voru sannfærandi, aðrar eins og þær væru enn á skissustiginu frá leikarans hendi, nokkuð sem vel má vera að setjist betur með tímanum.

Það var mikið hlegið á frumsýningunni. Kannski er enn áhugi fyrir léttmeti um „karlmanninn“ og vandræði hans í samfélagi sem gerir aðrar kröfur til hans en feður hans bjuggu hann undir. Kannski réttlætir kátínan vankantana sem leikhúsrýnir staldrar við. Má vera, en kannski stendur sú geðhreinsun sem hláturinn er á endanum í vegi fyrir að meinin sem Naglinn þó tæpir á séu skoðuð í alvöru. „Svona erum við, en sniðugt“, gætum við sagt á leiðinni út í bílinn og hlammað okkur svo þegjandi og prumpandi í sófann með bjórinn og leikinn. Hvað veit ég?