sunnudagur, febrúar 27, 2005

Taktu lagið Lóa!

Freyvangsleikhúsið
Freyvangi 27. febrúar 2005

Höfundur: Jim Cartwright
Þýðandi: Árni Ibsen
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

MEÐ Taktu Lagið Lóa fer Jim Cartwright inn á nokkuð aðrar brautir en þær sem höfðu vakið athygli á honum í verkum á borð við Stræti og Bar Par. Í stað laustengdra atriða þar sem smámyndum af fjölda persóna er brugðið upp af ljóðrænni nákvæmni án þess að framvinda sé áberandi velur hann að skrifa fámennt hefðbundið leikrit, nokkurs konar tilbrigði við Öskubusku, um unga stúlku með einstæða hæfileika sem fólk í kringum hana vill nýta í sína þágu. Persónugalleríið er af sama tagi og áður; ráðalaust, drykkfellt og skemmt lágstéttarfólk. Ritstíllinn er svipaður og í fyrri verkum; myndræn og skáldleg endurvinnsla á orðfæri fólks sem ekki hefur vald á tungu sinni eða tilfinningum. En vegna formsins gefast færri tilefni til fjölbreytni í tjáningu í þessu verki en í þeim fyrri. Færri persónur og meiri saga sem þarf að koma til skila breyta forsendunum og fyrir minn smekk eru þetta ekki alls kostar góð býti. Cartwright spilar af meira öryggi á heimavelli sínum. Hér verður hann of eintóna því þótt persónurnar séu færri en áður er hver og ein dregin jafn fáum dráttum og fyrr. Þá eru forsendur framvindunnar stundum veikbyggðar og verkið er á köflum langdregið. Þetta er ein orsök þess að sýning Freyvangsleikhússins er ekki jafn vel heppnuð og hún ætti að vera miðað við heildaryfirbragð og frammistöðu aðalleikkvennanna.

Sýning á verkinu hlýtur ávallt að standa og falla með söngrödd leikkonunnar sem fer með titilhlutverkið og hér er ekki slegin feilnóta. María Gunnarsdóttir hefur hvort tveggja á valdi sínu, að syngja fallega með sinni eigin rödd og bregða sér í gervi hinna ólíkustu díva frá fyrri tíð. Aldeilis magnað að hlusta á hana leika listir sínar. María er líka flink leikkona og heillandi á sviði, en hefur kannski undir leiðsögn leikstjóra síns verið leidd of langt í aðgerða- og sinnuleysi sem gerir fyrirferðarmesta efni verksins, samband hennar og móðurinnar, dálítið dauft. Það sama má segja um Ingibjörgu Ástu Björnsdóttur, sem var tilkomumikil á velli og stundum fyndin sem tuskudúkkan og átvaglið Siddý en er gerð það aðgerðarlítil að það kemur niður á sviðsnærverunni.

Móðir Lóu er eitthvert mesta skrímsli sem Cartwright hefur skrifað og Guðrún Halla Jónsdóttir skilar hlutverkinu með miklum krafti og aðdáunarverðri tækni. Það háir heildaráhrifunum hve nálægt hvor annarri í aldri þær mæðgur eru og örvænting Möllu hefði orðið áhrifameiri með eldri leikkonu, en vinna Guðrúnar Höllu með persónuna er engu að síður eftirtektarvert afrek. Það lendir eiginlega alfarið á hennar herðum að halda orkunni uppi í sýningunni og hún axlar þá ábyrgð vel. En eins og áður segir hefðu mótleikarar hennar þurft að sýna meiri styrk til að samskipti persónanna yrðu áhugaverðari. Það var einna helst Daníel Freyr Jónsson sem náði að verða litríkur sem kærastinn útsmogni. Í minni hlutverkum eru svo Pálmi Reyr Þorsteinsson, Jónsteinn Aðalsteinsson og Hjálmar Arinbjarnarson og komast vel frá sínu.

Umgjörð sýningarinnar er vel unnin eins og venja er í hinu vandvirka Freyvangsleikhúsi. Búningar afbragð og þá ekki síður hárgreiðsla, sem er óvenjumikið í lagt. Leikmyndin er hugvitssamleg þótt fátæklegri, en þó umfram allt smekklausari, húsbúnaður og skraut hefðu stutt betur við söguna. Brunaeffekt var alveg óvenjulega vel útfærður.

Taktu lagið Lóa er vel unnin sýning, vandvirknislega sviðsett af augljósum metnaði og kunnáttu allra aðstandenda. Frammistaða aðalleikvennanna er afbragð og það sem upp á vantar til að hún heppnist fullkomlega skrifast á leikritið og óþarflega daufgerða persónulögn á köflum. Engu að síður ættu áhugamenn um skrautlegt mannlíf, sterkan leik og framúrskarandi söng að bruna í Freyvang á næstu vikum.