laugardagur, nóvember 16, 2002

Kverkatak

Leikfélag Dalvíkur
Ungó, 16. nóvember 2002

Höfundur og leikstjóri: Júlíus Júlíusson.

Ekki meira sjoppuhangs

HUGMYNDIN að baki sýningar Leikfélags Dalvíkur, Kverkatak, er í raun svo umfangsmikil og lýsir svo miklum metnaði að sjálf leiksýningin verður nánast að aukaatriði. Formaður félagsins ræðst í það að gefa áhugasömum unglingum í sveitarfélaginu tækifæri til að taka þátt í leikhúsvinnu, sjá um alla þætti uppsetningar á leikriti. Sjálfur skrifar hann verkið, þjálfar hópinn og leikstýrir sýningunni. Um fimmtíu ungmenni koma að verkefninu á einn eða annan hátt, og eðli málsins samkvæmt eru þau öll byrjendur á sínu sviði, leikarar, ljósamenn, leikmynda- og búningafólk, förðunardeild og miðasalar. Allir sem þekkja til leikhúsvinnu vita hve krefjandi, gefandi og þroskandi hún getur verið. Í ljósi þess verður að óska Júlíusi Júlíussyni, þátttakendum öllum, Leikfélagi Dalvíkur og sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð til hamingju með þetta einstaka verkefni.

Júlíus þreytir hér margar frumraunir í einu. Hann skrifar í fyrsta sinn leikrit í fullri lengd, en á að baki nokkra smærri þætti. Hann leikstýrir í fyrsta skipti heils kvölds verki. Og síðast en ekki síst er hann í hlutverki leiklistarleiðbeinanda með hóp af ungmennum sem litla sem enga leikreynslu hafa.

Verkið sjálft fjallar um unglingahóp í litlu þorpi. Þeim leiðist sjoppuhangsið og tíðindaleysið og ákveða að fara saman í útilegu í gamla verbúð skammt frá. Þar hafa hinsvegar gerst voveiflegir atburðir, dauðir menn sem málinu tengjast liggja ekki kyrrir og gestkvæmt verður í verbúðinni. Ekki er rétt að fara nánar út í nokkuð flókna fléttuna, sem tekur nokkrar krappar beygjur áður en yfir líkur.

Það verður að segjast að þræðir verksins, hryllingurinn, húmorinn og dramað, eiga nokkuð óblíða sambúð sem höfundi hefur ekki tekist allskostar að friða og samþætta. Best hefur tekist upp með grínið, og þar gengur leikhópnum líka best. Hryllingurinn verður aldrei sérlega hryllilegur og dramað undir lokin fær ekki þá undirbyggingu sem það þarf til að verða trúverðugt. Eftirminnilegustu atriðin verða trúlega ágæt samtöl unglingahópsins í fyrri hlutanum og aldeilis bráðskemmtileg innkoma björgunarsveitarinnar í lokin. Einnig voru draugarnir fyndnir, en fyrir vikið frekar lítið hræðsluvekjandi þegar þess var þörf.

Leikhópurinn er stór og samt nokkuð jafngóður, og ekki þykir mér rétt að taka einstaka leikara fyrir til lofs eða lasts. Leikstjórn Júlíusar er fremur hófstillt, eins og oft einkennir uppfærslur höfunda á eigin verkum. Það kom vel út í fyrri hlutanum og skilaði sannfærandi sjoppuhangsi og afslöppuðum leik, en í viðburðaríkum seinni hlutanum hefði meiri kraftur og hreyfanleiki átt betur við. Umgjörð sýningarinnar er vel útfærð, sérstaklega verbúðin sem var glæsileg og nýtti sviðsrýmið skemmtilega. Hljóðeffektar settu mikinn svip á sýninguna og voru áhrifamiklir.

Þegar upp er staðið hefur mikið unnist með þessari sýningu. Stór hluti unglinga svæðisins hefur tekið þátt í skapandi ferli. Nýbyrjaður leikstjóri og höfundur hefur fengið tækifæri til að takast á við krefjandi verkefni. Hér er horft til framtíðar og allt bendir til að ríkuleg uppskera sé handan við hornið. Leiksýningin er ágæt skemmtun en endanlegrar útkomu bíðum við enn um sinn.