miðvikudagur, apríl 17, 2002

Öskubuska og Brutelli-beyglurnar

Sauðkindin, leikfélag Menntaskólans í Kópavogi
Félagsheimili Kópavogs 17. apríl 2002

Leikstjórn og handrit: Agnar Jón Egilsson.

Leikendur: Andrea Ösp Karlsdóttir, Anna Margrét Sigurðardóttir, Anný Rós Ævarsdóttir, Ásta Guðmundsdóttir, Guðlaug Björk Eiríksdóttir, Hans Aðalsteinn Gunnarsson, Jóhann V. Gíslason, Jórunn Edda Helgadóttir, Karl Snorrason, María Rut Beck, Ólöf Jakobsdóttir, Rebecca Hennermark, Sóley Ómarsdóttir, Unnur Einarsdóttir Blandon, Þorlákur Þór Guðmundsson og Þórdís Þorvarðardóttir.

Nýr ævintýraheimur

ÆVINTÝRIN úr safni Grimmsbræðra eru vinsælt viðfangsefni á leiksviðum höfuðborgarsvæðisins þessa dagana. Í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Kópavogi er verið að endurvekja þessar sögur á ótrúlega fjölbreyttan hátt. Sauðkindin hefur hér unnið sína eigin leikgerð á Öskubusku, að því er virðist í náinni samvinnu leikhóps og leikstjóra sem einnig er höfundur handrits.

Hvað þarf til að að öðlast hamingjuna? Þetta er stór spurning en vonda stjúpan og dætur hennar hafa þegar svarað henni: Prinsinn. Og spurningunni hvað þarf til að öðlast prinsinn er líka auðsvarað: Fegurð. Í nútímanum er fegurð smíðisgripur, eitthvað sem hægt er að kaupa á sig. Ef brjóstin eru of lítil má fylla þau silikoni - ef skórinn er of þröngur, því ekki að skera af sér nokkrar tær. Hver er munurinn? Spyr Agnar Jón og Sauðkindur hans en auðvitað svara þau ekki, en senda áhorfendur út með spurninguna.

Það hefur svo sannarlega ekki skort hugmyndaflugið þegar verið var að sjóða saman þessa sýningu, og greinilegt að fólki er mikið niðri fyrir. Brjálaðar hugdettur blasa allstaðar við: í umgjörðinni, búningunum, leikstílnum og framvindunni. Þetta er styrkur sýningarinnar en einnig veikleiki. Óreiðan er á tíðum svo mikil að góðar hugmyndir og augnablik, sem mögulega hefðu orðið sterk, hverfa í brjálæðinu. Og innan um góðu hugmyndirnar eru aðrar verri sem taka þó sömu athygli og hinar, sem dæmi má nefna hljóðmyndina og slides-myndirnar sem varpað var á bakvegginn og höfðu í besta falli bláþráðótta tengingu við efnið. Staðsetningar og textameðferð hefur að því er virðist varla komist á dagskrá við uppfærsluna.

Margir leikenda sýna vissulega góða takta, hinar illu mæðgur njóta sín í fólsku sinni í meðförum þeirra Línu Rutar Beck, Guðlaugar Bjarkar Eiríksdóttur og Andreu Aspar Karlsdóttur. Anný Rós Ævarsdóttir var hæfilega umkomulaus Öskubuska og Ólöf Jakobsdóttir er ein sú trylltastaálfkona sem ég hef séð, Mýsnar voru bæði sætar og skemmtilegar.

Þrátt fyrir alla fyrrgreinda vankanta er Öskubuska og Brutelli-beyglurnar forvitnileg sýning. Innan um óreiðuna má greina ákaflega frumleg efnistök, unggæðislega leikorku og falleg augnablik. Með því að stýra þessum öflum meira hefði Agnar náð að miðla sínu máli betur til áhorfenda, sem er jú tilgangurinn, eða hvað?