sunnudagur, desember 02, 2001

Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan

Leikfélag Fáskrúðsfjarðar
Félagsheimilinu Skrúð 2. desember 2001

Höfundur: Marc Camoletti
Þýðandi og höfundur leikgerðar: Sigurður Atlason
Leikstjóri: Björn Gunnlaugsson
Leikendur: Brynhildur Guðmundsdóttir, Hrönn Guðjónsdóttir, Kjartan Svanur Hjartarson, Kolbrún Einarsdóttir, Valdimar Másson og Telma Ýr Unnsteinsdóttir.

Öll sund lokuð

ÚTGÁFA Sigurðar Atlasonar frá Hólmavík á farsa Marc Camoletti, Douglas - Douglas er eins dæmigerður farsi og hugsast getur. Hann hverfist um kynhvötina og kvennabúrsfantasíur karla, sem eins og einatt eru helstu skotspænir grínsins. Merkilegt hvað verk í þessari bókmenntagrein, sem allajafna er litið niður á sem ómerkilega afþreyingu, hafa skýran siðaboðskap. Grínið felst í því hvernig lygarar og ómerkingar, gróðapungar og graðnaglar reyna að komast undan fordæmingu og refsingu, en mistekst einatt. Hvers vegna eru ekki skrifaðir fleiri farsar á Íslandi í dag? Nógur er heimsósóminn.

Titilpersónan í Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan hefur komið sér upp kvennabúri sem hvílir á ferðaáætlun flugfélags, þar sem unnusturnar starfa sem flugfreyjur. Þegar álíka kvensamur vinur hans kemur í heimsókn á sama tíma og hraðskreiðari flugvélar rugla stundatöflunni eru örlög hans ráðin. Eftir er aðeins að berjast hetjulegri baráttu við afhjúpun, niðurlægingu og refsingu. Það tekur um tvo tíma í skemmtilegri sýningu Leikfélags Fáskrúðsfjarðar.

Björn Gunnlaugsson hefur með uppfærslum sínum á undanförnum misserum sýnt að hann er einn forvitnilegasti leikstjóri sem vinnur að staðaldri með áhugaleikfélögunum og í þessari uppfærslu fer hann athyglisverða leið. Allajafnan á maður því að venjast að eftir því sem hitnar undir söguhetjunni og lyganetið þrengist aukist hraðinn og brjálæðið. Hér er því nánast þveröfugt farið. Á spennupunktum verksins er atburðarásin fryst og sett í hægagang og við sjáum persónurnar engjast í augnabliki óvissunnar. “Hvað gerist næst? Hvernig á ég að snúa mig út úr þessu?” Og þetta stílbragð reynist að minnsta kosti jafn gjöfult á hlátur og trylltur hraði hefðbundinnar uppfærslu. Til að þetta gangi upp þarf afstaða og ætlun persónanna að vera kristaltær og það er hún undantekningalítið í sýningunni. Helst þótti mér til lýta hvað taugaveiklunin var áberandi strax í upphafi. Það var ekki fyrr en aðeins var liðið á fyrri hlutann að raunveruleg innistæða var fyrir angistinni. Eftir það er sýningin á beinu brautinni.

Af leikurum mæðir eðlilega mest á þeim kumpánum Jónatan og vini hans Róbert. Kærusturnar hafa úr minna að moða, en gerðu margt vel, sérstaklega Telma Ýr Unnsteinsdóttir. Þá var Brynhildur Guðmundsdóttir mikil skarexi sem hin langþreytta vinnukona á þessu einkennilega heimili. Valdimar Másson kemst vel frá því verkefni að vera þungamiðja sýningarinnar sem óbermið Jónatan. Það er samt ekki á neinn hallað þó mesta hrósið falli á Kjartan Svan Hjartarson í hlutverki Róberts, sem þrátt fyrir ungan aldur er greinilega fæddur gamanleikari og er eins og fiskur í vatni í stílfærðum skopleiknum. Mikið efni og ánægjulegur ávöxtur hins öfluga unglingastarf sem stundað er hjá Leikfélagi Fáskrúðsfjarðar.