föstudagur, júní 23, 2000

Sérðu regnið?

Kellariteatteri frá Helsinki
Kompaníið á Akureyri 23. júní 2000

Tónlist: Ilppo Lukkarinen og Lissu Lehtimaja
Textar: Johanna Freundlich

Tídægra í Helsinki

ÞESSI finnski ungmennahópur býður upp á frumsköpun, leiksýningu í revíuformi, söngva tengda með spunakenndum samtengingum. Sýningin sækir form sitt og persónur nöfn sín í Tídægru Boccaccios, en undirritaðan skortir jafnt þekkingu á hinu ítalska höfuðverki og finnskri tungu til að átta sig á hvort um innihaldslegan skyldleika er að ræða. Allt um það þá eru níu persónur með tídægrunöfn samankomin í einhverskonar biðsal, sú tíunda slæst í hópinn áður en lýkur, og er trúlega fulltrúi nútímans, ungfrú x. Öll eiga þau sitt söngnúmer, líkt og ungmenni Boccaccios stytta sér stundir á fjórtándu öldinni í Flórens við að segja sögur meðan plágan gekk yfir. Og víst er um það að nægar eru plágurnar á okkar tímum. Sambandsleysi, ástleysi, ofbeldi, kynþáttahatur, allar fá þær umfjöllun í söngvum Finnanna. Niðurstaðan er samt bjartsýn, lifum og göngumst við röddunum í brjóstinu, njótum regnsins hér og nú.
Hópurinn bjó greinilega yfir góðum krafti sem á stundum nýttist til að skapa skemmtilega stemmningu. Þó voru spunaatriðin, eins og gjarnan vill verða, óþægilega á báðum áttum hvort þau voru skipulögð og hugsuð, eða líflítil endurtekning sköpunar frá í gær. Tónlistin var áheyrileg, djassskotin popplög mestanpart, og söngvarar flestir vandanum vaxnir. Nokkuð skorti stundum á kraft, bæði í raddstyrk og sannfæringu. Eftirminnilegastir verða líklega upphafssöngur ungfrú x, þar sem ekkert skorti á aflið og sorgarsaga Karinu, sem var sunginn á ensku en samt af einhverjum ástæðum eina lagið þar sem textinn var þýddur jafnóðum á íslensku með afar snjöllum hætti. Þá var símasöngur Panfílós skemmtilegur og þróttmikill. Félögum í Kellariteatteri liggur greinilega mikið á hjarta, og sumt af því komst til skila í sýningunni. Annað leið fyrir formið sem hópurinn hafði ekki allskostar á valdi sínu.
Með dómi þessum er lokið skrifum um sýningar á afmælisleiklistarhátíð Bandalags íslenskra leikfélaga, en skrifað var um þær sýningar sem ekki hafa áður birst dómar um hér. Ómögulegt er samt annað en að ljúka þessum pistli með nokkrum orðum um hátíðina í heild. Óhætt er að fullyrða að hún hafi borið því besta í áhugaleikhúsinu órækt vitni. Ómældur sköpunarkraftur og -gleði einkenndu sýningarnar og mun margt greypast í minningu gesta. Erlendir gestir vöktu mikla gleði og var ekki annað að sjá en hún væri gagnkvæm. Leiklistarsköpun áhugamanna á Íslandi hefur allt til að bera til að gleðja áhorfendur, vekja þá til umhugsunar, græta þá, hlægja og hræða, allt í krafti metnaðar og kunnáttu sem víða er til í ómældu magni sem ausið er af eins og hver vill. Hafi Bandalag íslenskra leikfélaga þökk fyrir framtakið, við bíðum spennt næstu hátíðar.