laugardagur, apríl 08, 2000

Völin & Kvölin & Mölin

Leikfélag Fljótsdalshéraðs
Eiðum 8. apríl 2000

Höfundar: Hildur Þórðardóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og V. Kári Heiðdal
Leikstjóri: Unnar Geir Unnarsson

Milli kvenna

ÉG verð að byrja þennan dóm á nokkrum fyrirvörum um tengsl mín við verkið. Það er skrifað af þremur félögum í Hugleik í Reykjavík og það kom í minn hlut að leikstýra frumuppfærslu þess í haust sem leið. Þar var á meðal leikenda Unnar Geir Unnarsson sem nú setur verkið upp með Leikfélagi Fljótsdalshérðaðs. Ég er því all-tengdur verkinu úr ýmsum áttum og rétt að lesendur séu leiddir í sannleika um þessa stöðu mála áður en lengra er haldið.

Völin & Kvölin er trúlega það sem kalla má alþýðlegan skopleik, og minnir einna helst á verk sem skrifuð voru í árdaga íslenskrar leikritunar, bæði að stíl og innihaldi. Fléttan er ofureinföld, ungur og saklaus sveitapiltur yfirgefur æskuástina í festum og heldur suður til náms. Þar fær hann inni hjá skrítinni yfirstéttarfjölskyldu og lendir í klónum á fordekraðri heimasætunni sem er svo vön að fá það sem hún vill að hún vílar ekki til að beita lúalegum brellum til að eigna sér drenginn. Hann nær þó að slíta sig lausan og heldur á vit sveitastúlkunnar, en viðbrögð hennar eru kannski það helsta sem greinir verkið frá Bónorðsför Magnúsar Grímssonar og öðrum æskuverkum íslenskrar leiklistar.

Í einfaldleik sínum gefur Völin hugmyndaríkum leikstjóra nokkuð færi á að fara sínu fram og leika sér með hugdettur, og nýtir Unnar Geir sér þessa möguleik óspart. Þó fannst mér á köflum hann sýna leikritinu óþarfa skeytingarleysi, einfaldleikinn gerir það óneitanlega einnig viðkvæmt ef ekki á að kremja hjartað úr því svo eftir standi tómur dáraskapur. Mestan partinn stóð hann þó ásamt leikhópnum með sínu fólki og sýndi okkur það með öllum sínum kenjum og dyntum. Á hinn bóginn þótti mér stundum of skammt gengið fram. Til dæmis hefði mér fundist að úr því píanóleikari sýningarinnar var brúkaður til að skapa stemmningu og jafnvel áhrifshljóð þá hefði mátt gera miklu meira af því. Tónlistin virkaði vel þar sem hún var, en hefði að ósekju mátt notast víðar og óvæntar. Eins er með aukapersónur sem Unnar bætir inn til að skapa andrúmsloft, þær voru ævinlega til prýði, en jafnvægi sýningarinnar hefði verið betur þjónað með meiri notkun. Unnar er þrátt fyrir ungan aldur þaulvanur leikhúsmaður og nýttist það honum sérlega vel við að skapa eðlilega umferð um sviðið.

Eftir því sem ég best veit þá er leikhópurinn að mestu samansettur úr fremur reynslulitlu fólki, sem engu að síður nær að fanga athyglina og segja söguna á skemmtilegan hátt. Mest mæðir á þeim Ólafi Ágústsyni, sem var skemmtilega heimóttarlegur sveitapiltur í borgarsolli en hefði gjarnan mátt vera skírmæltari á köflum, og Erlu Dóru Vogler, sem lék þær frænkur Þórhildi sveitaunnustu og flagðið Viktoríu í borginni. Viktoría er vissulega meiri biti að bíta í fyrir leikkonu, enda gerði Erla henni skemmtileg skil. Af öðrum leikurum má nefna að Vígþór Sjafnar Zophaníasson var skoplegur sem skraddarinn Jónas og Jón Gunnar Axelsson og Fjóla Egedía Sverrisdóttir voru skondið par sem snyrtipinninn Sæmundur kaupmaður og frúin hans sem lætur heimilislífið aldrei trufla sig við fagurbókmenntalesturinn. Þá var gaman að Eyrúnu Heiðu Skúladóttur í klassísku hlutverki kjaftakellíngar í sveitinni.

Völin & Kvölin & Mölin er fyrsta stóra leikstjórnarverkefni Unnars Geirs, fyrsta uppsetning Leikfélags Fljótsdalshéraðs í nýlegri sýningaraðstöðu á Eiðum og fyrsta verk höfundanna þriggja í sameiningu. Þegar allar þeir áhættur eru hafðar í huga er ekki annað hægt en að óska hópnum og félaginu til hamingju með skemmtilega sýningu sem heldur athyglinni, kitlar hláturtaugarnar og sendir mann aftur í tímann með bros á vör.