laugardagur, mars 25, 2000

Sköllótta söngkonan

Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri
Verkmenntaskólanum á Akureyri mars 2000

Höfundur: Eugene Ionesco
Þýðandi: Bjarni Benediktsson
Leikstjóri: María Pálsdóttir

Leikendur: Guðlaugur Tumi Baldursson, Guðrún María Jóhannsdóttir, Sigurjón Friðriksson, Gísli Freyr Eggertsson, Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir og Jóhanna Mjöll Þórmarsdóttir

Sá hlær best...

LEIKHÚS fáránleikans er samheiti sem leikhúsfræðingurinn Martin Esslin setti á nokkra skáldjöfra leikhússins upp úr miðri síðustu öld. Þar voru þeir taldir helstir Samuel Beckett, Harold Pinter, Jean Genet – og Ionesco. Síðan hefur verið bent á að höfundar þessir eigi líklega færra sameiginlegt en það sem skilur þá að. Eitt er víst, Ionesco er hreint ekki í sama þyngdarflokki og þessir kollegar hans.

Með verkum sínum virðist Ionescu vera að tjá hve tjáskipti eru ómöguleg, tungumálið innantómar tuggur og leikhúsið gelt og úr sér gengið. Þessu kemur hann á framfæri með því að skrifa leikrit þar sem persónurnar tala í tuggum, tjáskipti eru engin og aðstæður allar sem klisjulegastar. Þetta er allt saman frekar ódýrt hjá kallinum, enda ekki von á öðru þar sem hann hefur svo augljóslega rangt fyrir sér um raunveruleikann. Fólk tjáir sig, skilur hvort annað (mestanpart) og leikhúsið virkar. Það sanna til dæmis sýningar á verkum hans sjálfs. Því með því að skrifa innantómar setningar og litlausar persónur gaf Ionesco leikhúsfólki einmitt það sem því þykir svo gaman að: frelsi. Frelsi til að ákveða afstöðu persónanna í stað þess að leita hennar í textanum, frelsi til að ljá merkingarleysunni hvaða merkingu sem vera kann. Útkoman er því gjarnan full af lífi, merkingu – og gott leikhús.

Sköllótta söngkonan er frumraun Ionescos í leikritagerð og öfgakennt dæmi um fyrrnenfnd höfundareinkenni hans. Smith-hjónin bíða eftir Martin-hjónunum og skipast á tómum þvættingi. Martinhjónin mæta seint og um síðir og eru engu skárri. Slökkviliðsmaður mætir á staðinn, fólk skiptist á sögum án innihalds og að lokum lætur tungumálið undan og innihaldsleysið eitt stendur eftir.

Sýning leikfélags VMA er prýðileg skemmtun. Umgjörðin er hefðbundin stofuleikmynd, sem gerði undarlegheitin í textanum enn skýrari en ef farin hefði verið einhver stílfærsluleið. Þetta var greinilega heimili millistéttarborgara eins og þeir eru í venjulegum stofuleikritum. Tónlist Tom Waits er kannski ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann við svona lýsingu en var engu að síður vel við hæfi.

Lítt vanur leikhópurinn nær ágætum tökum á svolítið yfirspenntum leikstíl sem María Pálsdóttir hefur lagt til grundvallar. Það fer vel á því að skapa á þennan hátt undirliggjandi togstreitur bak við kjaftæðið. Sérstaklega gekk fjórmenningunum sem léku hjónin vel að fóta sig og sköpuðu oft bráðskemmtileg andartök með sterkum undirtóni. Vinnustúlkan var skýrt mótuð týpa en Slökkviliðsmanninum hafði greinilega gengið erfiðlega að ná tökum á textanum, sérstaklega langri og heimskulegri sögu án innihalds. Þessum vandkvæðum hafði verið snúið upp í eitt skemmtilegasta atriði sýningarinnar, frábærum samleik leikara og hvíslara, sem eitt og sér staðfesti það að tjáskipti eru hrein ekki vankvæðum bundin í veruleikanum, hvað svo sem gildir í þeim fáránleika þar sem leikskáldið setur sínar eigin reglur.