laugardagur, apríl 29, 2023

Íslandsklukkan

Eftir Halldór Laxness. Leikgerð: Bjartur Örn Bachmann, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Þorleifur Örn Arnarsson og leikhópurinn. Leikstjórn: Þorleifur Örn Arnarsson. Aðstoðarleikstjóri: Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir. Dramatúrg: Bjartur Örn Bachmann. Sviðshreyfingar: Ernesto Camilo Aldazábal Valdés. Leikmynd og búningar: Guðný Hrund Sigurðardóttir. Lýsing: Ásta Jónína Arnardóttir og Guðmundur Erlingsson. Tónlist: Unnsteinn Manuel Stefánsson. Leikarar: Bjartur Örn Bachmann, Davíð Þór Katrínarson, Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, Hallgrímur Ólafsson, Jónmundur Grétarsson og María Thelma Smáradóttir. Leikhópurinn Elefant frumsýndi í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 16. mars 2023.

Miklu stærra mál

Marglesnar og langelskaðar bækur hafa þann eiginleika að þegar minnst varir spretta upp setningar sem maður hefur lítinn gaum gefið og taka yfir skilning manns. Þetta gerðist í upphafi frumsýningar leikhópsins Elefant á leikgerð sinni upp úr Íslandsklukkunni í Þjóðleikhúsinu. Þar hljómar lestur Helga Skúlasonar á upphafsorðum bókarinnar og þar á meðal fullyrðing hins bráðfeiga böðuls, Sigurðar Snorrasonar, að enginn eigi annað en það sem hann hefur bréf uppá.
Og það var eins og við manninn mælt, allt sem gekk á í sýningunni, kunnuglegt jafnt sem nýstárlegt, speglaðist í þessari fullyrðingu, sem er svo hversdaglega sönn en gróflega ósönn um leið. Danir áttu vissulega bréf upp á að eiga Ísland, en áttu það samt auðvitað ekki, frekar en aðrir nýlenduherrar eiga löndin sem þeir ráða yfir. Árni Árnason selur sig fyrir gullkúta konu sinnar til að kaupa handrit sem enginn getur á endanum átt nema við öll. Kaupsamningur Magnúsar í Bræðratungu við svínahirðinn á Eyrarbakka gerir Snæfríði Íslandssól væntanlega að eign hans. Eða hitt þó heldur. Handhöfum höfundarréttar Nóbelsskáldsins er þakkað í leikskrá fyrir leyfið sem þau gáfu fyrir efniviðnum, en sú Íslandsklukka sem hljómar innra með öllum sem hana lesa er þeirra eign og verður ekki þaðan aftur tekin. 
Síðast en ekki síst: þyki einhverjum sæma að efast um tilkall leikhóps ungra leikara af blönduðum uppruna til þessa krúnudjásns, sem sjálft tiplar á hálum ís þjóðernismærðarinnar, þá er nóg að sjá myndugleikann í leikhópnum í Kassanum til að þagga niður í þeim. Hann birtist meðal annars í því að það er ekki verið að leita dauðaleit að því í sögunni sem endurspeglað gæti lífreynslu þeirra sem koma stórum hluta samferðafólks síns fyrir sjónir sem öðruvísi. Hvaða fátæki og fáliðaði leikhópur sem er myndi líklega taka sömu ákvarðanir um hvaða sögu og hvaða snjallyrðum úr þessari miklu epík ætti að halda til haga: örlagasögu Snæfríðar Eydalín með raunir Jóns Hreggviðssonar sem kontrapunkt.
Öðru hverju small samt eitthvað öðruvísi en oft áður. Snilldarlegt var að heyra Ernesto Camilo Aldazábal Valdés, í hlutverki Jóns Grindvicensis, segja kunnuglegar fordómaskrítlur um Íslendinga, sumar frá frú Arnæus,  á dönsku, en ávarpa svo furðulostinn Jón Hreggviðsson á spænsku (held ég). Eins var frumsýningarsalurinn nokkuð lengi að jafna sig þegar María Thelma Smáradóttir í hlutverki Snæfríðar sagði við Reinarbónda Hallgríms Ólafssonar að sig minnti endilega að hann væri svartur. 
Það er miklu frekar fagurfræði leikstjórans sem fangar athyglina en hvort leikararnir passa inn í hugmyndir okkar um Íslendinga snemma á átjándu öld. Sumt er þar kunnuglegt: óreiðan, eintökin af bókinni í hrúgu framsviðs, dýragrímurnar, dansatriði með klassískum píanóundirleik í síðari hluta sem maður skilur ekki alveg hvað á að fyrirstilla. En líka örugg tök á að miðla viðamikilli og flókinni sögu með alveg mátulegu tilliti til áhorfenda til að aldrei slakni um of á þræðinum í galskapnum. Notkun dagblaða- og maskínupappírs sem lykilefnis í búninga og umbúnað er skemmtileg hjá Guðnýju Hrund Sigurðardóttur og skilar oft áhrifaríkum myndum, þó skrjáfið væri truflandi á köflum. 
Verra var hvað áhersla leikgerðarinnar á lífsbaráttu Snæfríðar hentar illa hæfileikum og, að því er virðist, áhugasviði Þorleifs Arnar. Hann er ekki rétti maðurinn til að hlúa að könnun tilfinningalífs, glímu raunsæislegra teiknaðra persóna við ástina og harminn. Samfléttuð örlög Íslandssólar, Arnasar, Magnúsar og Sigurðar dómkirkjuprests þurfa á köflum að berjast um athygli okkar við fyrirganginn og uppátækin, ekki síst í seinni hlutanum þar sem afleitir borðsiðirnir hætta fljótlega að vera sniðugir og verða þreytandi. Því við erum, eins og vanalega, orðin handgengin fólkinu sem allt snýst um og viljum geta veitt því óskipta athygli. 
Þegar heilt á litið er líka ljóst að þetta er ekki leikhópur sem fæst við svona texta á hverjum degi. Það þarf tækifæri og reynslu til að skapa nauðsynlegt öryggi. Engu að síður sannfæra þau okkur og hrífa. 
Enginn meira þó en María Thelma, sem nær eftirtektarverðri kyrrð og innlifun í hlutskipti Snæfríðar, heldur áfram að vaxa inn í hlutverkið allt til enda. Harmur Snæfríðar því átakanlegri sem leikkonan hélt reisn sinni betur. Í blábyrjun leist mér ekki á blikuna með Jón, það hljómaði engu líkara en Hallgrímur ætlaði frekar að leika Brynjólf Jóhannesson eða Helga Skúlason en kallinn sjálfan. En það fór fljótt og útkoman frumlegur og sannfærandi lestur á hlutverkinu. Það er t.d. allnokkuð afrek að láta hin alkunnu orð um hvenær maður drepur mann hljóma eins og eitthvað annað en innantómt tilsvar úr Íslenskri fyndni. Ætli mitt eftirlætisatriði í sýningunni sé ekki samtal Snæfríðar og Jóns á Þingvöllum. María Thelma og Hallgrímur bæði frábær, og eitursnjöll hugmynd að færa orðaskipti Snæfríðar við föður sinn inn í þessi örlagaríku fyrstu kynni. 
Jónmundur Grétarsson  hefur flóknara verkefni sem ólíkindatólið Arnas. Persónan fer ekki vel út úr áherslum leikgerðarinnar, þar sem eiginkonan, samstarfsmennirnir, þýsku greifarnir og sjálfur eldurinn er á bak og burt. Hlutverkið svolítið eins og ósamstæð blöð úr Skáldu, en Jónmundur skilaði því sem hann þó hafði vel. Kristján Þór Katrínarson var mjög sannfærandi í rustalegri lögn uppfærslunnar á svolanum Magnúsi og Bjartur Örn Bachmann eftirminnilega kyrrlátur og lúmskt slepjulegur sem dómkirkjupresturinn ástsjúki. Áður var minnst á helsta leikhlutverk Ernesto Camilo, en hann fer síðan hamförum á sínum heimavelli í dansatriðinu sem var ákaflega flott sem slíkt þó ég meðtæki ekki meininguna.
Mál Jóns Hreggviðssonar þótti Arnasi minnst varða hann sjálfan. Kannski má heimfæra þau orð upp á þess uppfærslu Íslandsklukkunnar. Hún er við fyrstu sýn miklu stærra mál en enn ein sviðsetning sögunnar sem opnaði musterið fyrir rúmum sjötíu árum. Við getum vissulega ímyndað okkur fjaðrafokið þá, ef María, Jónmundur og þau hin hefðu birst þegar rauða tjaldinu var svipt frá í fyrsta sinn. En stóra málið núna er að leikhópurinn Elefant á augljóst tilkall til þessarar sögu. Það er ekkert sjokk. Og það þarf enginn að framvísa neinu bréfi upp á það.