laugardagur, apríl 29, 2023

Djöfulsins snillingur

Eftir Ewu Marcinek og Pálínu Jónsdóttur. Leikstjórn: Pálína Jónsdóttir. Leikmynd og búningar: Klaudia Kaczmarek. Aðstoð við leikmynd og búninga: Wiola Ujazdowska. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson. Hljóð og tónlist: Íris Thorarins. Leikarar: Jördis Richter, Heidi Bowes, Jordic Mist, Paul Gibson, Snorri Engilbertsson. Alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavík Ensemble frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 30. mars 2023.


Þitt eigið eltiljós


Leikhúsinu er ekkert óviðkomandi, og þá sérstaklega ekki stóru málin, hvort heldur er í samfélagi eða sálarlífi. Jafnt og þétt nemur það land í hinum – enn sem komið – nýlega veruleika fjölþjóðlegrar fólksfjölgunar á Íslandi, eins og það er orðað í ávarpi leikskrárávarpi leikstjóra Djöfulsins snillings, Pálínu Jónsdóttur. Reykjavík Ensamble er þar í fremstu röð, bæði hvað varðar afköst og listrænt handbragð. 

Glíman við kerfið er í forgrunni í þessu nýjasta verki hópsins, eins og gjarnan í verkum sem fjalla um veruleika hinna aðkomnu. Verulega snjallt að tengja upplifun þeirra við sjálfvirku búðarkassana, en afmennskun afgreiðsluháttanna er ekki síður áberandi í þessu kerfi en öðrum. Undir niðri er samt alltaf hið mjög svo mannlega leiðarstef: kerfið lætur eins og það sé að reyna að hjálpa en fyrst og fremst er því ætlað að tryggja að allt sé það á forsendum innfæddra. Eigenda afgreiðslukassanna. Tilgangurinn er að tryggja hagsmuni og lífsgæði þeirra, fylla í skörðin á vinnumarkaðnum þar sem þau eru. Það hefur ekkert breyst frá því Ingólfur Arnarson flutti inn sína þræla, eins og vísað er í í sýningunni.

En hvað með hinn enda markaðarins, ef svo mætti segja? Hvað með þau sem fyrst og fremst vilja skapa og túlka? Hvað með listafólkið? Það mál er til sérstakrar skoðunar í Djöfulsins snillingi, meginefni sýningarinnar. Urielu rekur hér á land, kannski svolítið eins og Víólu í Þrettándakvöldi Shakespeares, og dreymir um að láta ljós sitt skína á sviði íslenska sirkussins, en hliðið þangað inn er þröngt og lykilorðin ekki öllum kunn, sérstaklega ekki þeim sem eru ekki í Íslendingabók og hafa ekki fullt vald á tungu heimamanna. Og þau sem virðast jafnvel vilja og geta hjálpað eru sennilega með sjálf sig ofar í mikilvægisröðinni þegar allt kemur til alls. 

Reyndar geta örugglega ansi mörg séð sig í sporum Urielu, óháð þjóðerni, líka hin innfæddu.Svo mörg sem eru kölluð en fá útvalin þegar kemur að tækifærum á stóra sviðinu. Það voru örugglega ekki síst Íslendingar í salnum sem flissuðu að staðhæfingunni um að á Íslandi tíðkuðust ekki áheyrnarprufur, enda vissu öll um öll sem eitthvað gætu eða veðjandi væri á. 

Þessi almenna skírskotun efnisins á sinn þátt í að Djöfulsins snillingur virkar ekki sem sérlega beitt ádeila. Sömu áhrif hefur ljóðrænt heildaryfirbragð textans og óræð framvindan. En einkum kannski það að það er ekki augljóst óréttlæti fólgið í því að enginn beini eltiljósi leikhússins að þeim sem það þrá.

Auðvitað á samt ekkert að gera þá kröfu á leikhús að það sé ágeng ádeila, jafnvel þó ávarp leikstjóra í leikskrá skapi þær væntingar. Sem hugleiðing um listþörf, einmanaleika og glímu við framandlegar, stundum kafkaískar, aðstæður er Djöfulsins snillingur harla vel heppnuð sýning. 

Það er víða skáldlegt flug í texta Pálínu og Ewu Marcinek. Það er auk þess gaman að heyra brot úr Skugga-Sveini og Shakespeare. Umgjörðin einföld en prýðileg hjá Klaudiu Kaczmarek (leikmynd og búningar), Ólafi Ágúst Stefánssyni (lýsing) og Íris Thorarins (hljóð og tónlist). En hiti og þungi dagsins hvílir, eins og vera ber, á leikhópnum.

Aðallega samt á Jördisi Richter, sem er hreint frábær sem Uriela. Útgeislun, sviðssjarmi og afslöppuð orka sem fangar alltaf athyglina og heldur samúðinni þar sem hún á að vera. Hún fær verðugt mótspil frá Snorra Engilsbertssyni í hlutverki innanbúðarmannsins Gunnars, sem sjálfur efast um stöðu sína í sirkusnum og er ekki nema stundum einlægur í stuðningi sínum við baráttu Urielu. 

Þegar þau Heidi Bowes, Jordic Mist og Paul Gibson eru ekki í kórhlutverki eru þau svipmiklir stuðningsaðilar i sögu Urielu. Heidi sem ráðagóður sérfræðingur í hvernig komast megi af í óvinveittu kerfi, Jordi að hinn eilífi (launa)þræll sem heldur innviðum heldra fólksins virkum og hreinum og Paul sem aðskiljanlegir og oftast kostulegir fulltrúar valdsins, í bankanum og/eða útlendingastofnun. Allt er þetta lipurt og snjallt.

En kannski ekki mjög sláandi. Fréttirnar af óvinveittu kerfi, sérviskulegum íslenskum sundstaðareglum og ofurtrú á mætti kennitölunnar eru ekki lengur eins ferskar og þegar leikhópar byrjuðu að túlka reynslu aðfluttra. Aðgengi að stóru sirkustjöldunum er vissulega takmarkað, en það er erfitt að trúa á að kerfisbundið óréttlæti standi þar í veginum, umfram það sem alltaf hefur verið við lýði og bitnað á öllum á óheppilegum greinum Íslendingabókar, og að sjálfsögðu nú líka á þeim sem er þar hvergi að finna. 

Samt finna mörg sinn farveg. Með þrautsegju, heppni, trú á mátt sinn og megin, og með hjálp frá vinum sínum. Það gildir líka um Reykjavík Ensamble sem augljóslega er komið til að vera í flórunni, okkur öllum til gleði og upplýsingar.