miðvikudagur, apríl 06, 2022

Ást og upplýsingar

Eftir Caryl Churchill. Íslensk þýðing: Auður Ava Ólafsdóttir. Leikstjórn: Una Þorleifsdóttir. Leikmynd: Daniel Angermayr. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Hljóðhönnun: Kristinn Gauti Einarsson. Tónlist: Markéta Irglová og Sturla Mio Þórisson. Leikarar: Almar Blær Sigurjónsson, Baldur Trausti Hreinsson, Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Ragnheiður K. Steindórsdóttir. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu föstudaginn 25. mars 2022.

Leikskáld ársins

Hin löngu tímabæra athygli sem stóru leikhús okkar Íslendinga sýna nú verkum Caryl Churchill hefur hingað til heppnast fullkomlega. Tvö gerólík verk frá síðasta skeiði hins langa og viðburðaríka ferils merkasta núlifandi leikskálds Breta hafa birst á fjölunum á leikárinu. Tvær gerólíkar sýningar sem báðar miðla efni sínu með listfengi og í fullu trausti á efniviðnum, og uppskera ríkulega.
Traustið er gagnkvæmt, sérstaklega í tilfelli Ástar og upplýsinga. Þar leggur hin síleitandi Churchill meiri ábyrgð á herðar leikstjóra og leikhóps en almennt tíðkast. Ábyrgð í formi frelsis. Verkið samanstendur af sjö hlutum og aukaefni sem má hafa með eða sleppa. Í hverjum hluta eru nokkur stutt, að því er virðist ótengd, atriði. „Sketsar“ er ekki óviðeigandi lýsing, þó þeim sé ekki öllum ætlað að vekja hlátur. Þá má leika í hvaða röð sem vera skal, engin nöfn eða fyrirmæli um kyn eða önnur einkenni eru gefin upp í handriti. Fjöldi leikenda er jafnframt frjáls, og höfundur gefur ekki til kynna fjölda persóna í hverju atriði, þó flest virðist þau við fyrstu sýn vera tveggja persóna tal. 
Ást og upplýsingar heitir verkið, en það er síðara orðið sem gefur til kynna þemað í innihaldi textans. Hér er samankomið ógrynni örverka sem rannsaka hinar ýmsu hliðar þess, bölvun og blessun, að vita og vita ekki, frá hinu fáfengilegasta (Hver er uppáhaldslykt átrúnaðargoðsins? Hvað heitir minnsta þorpið í Mið-Asíu?), til þess dýpsta (Er röddin sem þú heyrir innra með þér rödd Guðs?) og þess sem við þurfum öll að vita (Getur glæpamaðurinn komist að því að það var ég sem kom upp um hann?  Elskar hann/hún mig í alvörunni?). 
Hvert atriði frábærlega formað af meistara listarinnar að komast að kjarna málsins á mettíma. Sum morðfyndin, önnur harmræn, mörg sem gefa færi á að stilla af fyndni og harm, eða miðla hvorutveggja í senn. 
Úrvinnsla Unu Þorleifsdóttur og samverkafólks hennar er heilt yfir afbragð. Þýðing Auðar Övu Ólafsdóttur er lipur og hárrétt er sú ákvörðun að staðfæra þessi sammannlegu augnablik. Umgjörð Daniels Angemayrs (leikmynd), Jóhanns Bjarna Pálmasonar (lýsing) og Markétu Irglová og Sturlu Mio Þórissonar (tónlist) er stílhrein, fáguð og tranar sér hvergi fram. Búningar Evu Signýjar Berger er sá þáttur hönnunarinnar sem hefur sterkastan svip og eru sérlega smekklegir og gangverkið í fataskiptunum töfrum líkast. 
Þó atriðin séu meistaraverk er mikið verk óunnið við túlkun þeirra og ekki síður við að skapa þeim umgjörð og gangverk sem heldur utan um þau án þess að kæfa hvert og eitt. Túlkunarsvigrúmið er mikið í svona svipmyndum, þar sem ekkert tillit þarf að taka til samhengis, þess sem áður hefur gerst eða á eftir að henda. Taka má dæmi af atriðinu þar sem ein persóna segir annarri frá framhjáhaldi, sem hin segist hafa vitað um árum saman. Eru þær að segja satt? Er framhjáhaldið staðreynd, og er vitneskjan kannski bara uppdiktuð í sjálfsvarnarskyni?  Leikendur og leikstjóri hafa alla möguleika opna. Í einu áhrifamesta atriði sýningarinnar kviknar líf innra með persónu sem virðist út úr heiminum þegar hún heyrir The Long and Winding Road spilað á píanó og byrjar hægt og rólega að syngja með. Í handrit segir: „Hann sest niður og spilar af kunnáttu og JENNÝ syngur. Hann stendur upp.“ Annað er það nú ekki. 
Öll úrvinnsla einstakra atriða og flæðið í sýningunni sem heild einkennist af öryggi og sannfæringu sem skapar trausta heild úr sundurleitu efninu. Vera kann að Una velji oftast augljósu, „öruggu“ túlkunarleiðina, hægt er að ímynda sér meiri núning texta og túlkunar. En áhrifin eru engu að síður ótvíræð.
Leikhópur sýningarinnar er frábærlega skipaður. Allt saman fólk sem ræður við að komast beint að kjarna málsins, jafnvígt á skop og harm. Öll eiga þau glansnúmer. Almar Blær Sigurjónsson og Nína Dögg Filippusdóttir eru dásamlegir ástfangnir geimfarar að ráða drauma þannig að útkoman verði þeim hagfelld. Ragnheiður K. Steindórsdóttir er skemmtilega kaldhæðinn sálfræðingur að kljást við (rang)hugmyndir skjólstæðings um raddirnar í höfði hennar. Ebba Katrín Finnsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir eiga frábæran samleik í nistandi atriði um fjölskylduleyndarmál, að ógleymdu ótrúlegu minnis-afreki Ebbu sem tryllti salinn. Björn Thors og Hilmar Guðjónsson morðfyndnir í atriði um forna minnistækni og Baldur Trausti finnur allan harminn í örlögum mannsins sem þekkir ekki lengur eiginkonu sína og hryllir við tilhugsunina um snertingu hennar.
Ást og upplýsingar er dæmasafn um merkingu, tilgang, útmörk skynjunar, minnis og möguleika á raunverulegri nánd. Tilfinningalegt, heimspekilegt, flippað og skáldlegt. Allt sett fram af léttleika, hugkvæmni og á köflum tærri snilld, sem á líka við um úrvinnslu Unu og hennar fólks. Sérlega ánægjuleg kvöldstund í leikhúsi að gera það sem það gerir best.