miðvikudagur, september 25, 2019

Ör

Eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Leikmynd og búningar: Sigríður Sunna Reynisdóttir. Leikgervi: Valdís Karen Smáradóttir. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason. Myndband: Elmar Þórarinsson. Hljóðmynd: Aron Þór Arnarsson. Tónlist: Damien Rice. Leikarar: Baldur Tausti Hreinsson, Birgitta Birgisdóttir, Guðrún Snæfríður Gísladóttir, Hildur Vala Baldursdóttir og
Pálmi Gestsson. Frumsýning í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fimmtudaginn 19. september 2019.

Kyrrlátt kvöld í krísuvík

Leikgerðir vinsælla skáldsagna hafa gegnt lykilhlutverki í starfsemi Þjóðleikhússins frá því Íslandsklukka Halldórs og Lárusar varð fyrsta frumflutta verkið á sviði þess. Frá þeim sjónarhóli er við hæfi hvað aðlaganir eru fyrirferðarmiklar á þessu afmælisleikári. En þar er ekki allt sem sýnist. Samband leikritsins sem var frumflutt í Kassanum síðastliðið fimmtudagskvöld við samnefnda verðlaunaskáldsögu er flóknara og óvenjulegra. Verkið byrjaði sem uppkast að leikriti, tók síðan á sig skáldsagnarmynd en snýr nú aftur til upprunans. Vafalaust hefur það ummyndast á leiðinni í ljósi þess sem persónurnar opinberuðu fyrir Auði Övu Ólafsdóttur þegar hún lagði með þær í hið öllu viðameira ferðalag sem sagt er frá í skáldsögunni.

Reyndar má alveg furða sig á hvað leikritið virkar heilsteypt og áhrifaríkt þegar skoðað er að sýningu lokinni hvaða efnisþætti skáldsögunnar er ekki að finna í sviðsverkinu. Það er allnokkur listi og á honum er margt það bitastæðasta. Margt að því sem ætla mætti að hefði kveikt í áhugasömum leikgerendum, fyrir utan miðasöluforgjöfina sem verðlaun og vinsældir skila. Hér er ekkert Hotel Silence, engin stríðshrjáð borg í ónefndu landi með allt í lamasessi og jarðsprengjur um alla skógarlundi. Ekkert barn með áfallastreituröskun til að ná til Jónasar, sem heldur á þennan afskekkta stað til að ljúka jarðvist sinni án þess að valda ástvinum sínum meiri ama en óhjákvæmilegt er. Og síðast en ekki síst: engin smávægileg en ómissandi viðvik sem gera manninn með borvélina að lykilmanni í bænum. Sem aftur gegnir lykilhlutverki í að fá hann ofan af áformunum um að stytta sér aldur. Að endurheimta merkingu og tilgang.

Ekkert af þessu er að finna í handriti Auðar Övu sem liggur til grundvallar uppfærslu Ólafs Egils Egilssonar og hans fólks. Nema þetta síðastnefnda reyndar. Þetta er sagan um niðurbrot Jónasar Ebenesers og endurheimt hans á lífi sínu. En allt gerist þetta á heimavelli. Á höfuðborgarsvæðinu, aðallega heima hjá Jónasi, en líka á elliheimilinu þar sem móðir hans dvelur í umsjá hinnar aðfluttu Maí, sem hefur borið hina þungu bagga stríðsins alla leið til Íslands, en er ekki með þá á niðurníddu hóteli frænda síns ásamt syni og bróður eins og í bókinni.

Vitaskuld gerist það aðallega í huga og sál aðalpersónunnar. Þetta er ekki plottsins verk, og varla einu sinni verk um samskipti, hvað þá samfélag. Ör er skáldleg hugleiðing um ferðalag hversdagsmanns að landamærum lífs og dauða. Því verður varla á móti mælt. Þess einkennilegra hvað Ör er skemmtileg sýning í sínu lágstemmda látleysi.

Ólafi Agli er held ég sérlega lagið að fínstilla yfirbragð þess sem hann fæst við, og miða við afdráttarlausa listræna stefnu sem hann vill taka. Það er mjög auðvelt að ímynda sér mun hærra orku- og dramastig í meðferð á þessum texta. Má jafnvel halda því fram að slík nálgun hefði verið rökrétt, ákvörðun sem tæki sig sjálf. Þess augljósara er hvað mótun efnisins er meðvituð. Og skilar ríkulegum árangri.

En veldur hver á heldur. Frammistaða leikhópsins er það sem allt hvílir á. Þar verður fyrsta að nefna Baldur Trausta Hreinsson og Pálma Gestsson, en samleikssenur þeirra eru hreinn unaður og kjarni sýningarinnar. Hin ísmeygilega greining Auðar Övu á karlmennsku hefði ekki getað komist í betri hendur. Baldur Trausti er algerlega sannfærandi sem hinn trausti en umkomulausi Jónas Ebeneser, því nákomnari áhorfendanum fyrir það hve mikil friðsæld og natúralísk nákvæmni einkennir leikinn. Karlarnir hans Pálma eru sömuleiðis einstaklega skýrt dregnir en án ódýrra stæla, auðvitað fremstur þeirra nágranninn sem er kannski með fleira á hreinu en Jónas á móti, en kannski einmitt ekki.

Konurnar í kringum Jónas eru dregnar umtalsvert færri dráttum, bæði í bókinni, þar sem við kynnumst þeim með augum aðalsöguhetjunnar sem gengur í verk sögumannsins eins og önnur viðvik, og í leikritinu, þar sem sálarástand Jónasar skiptir okkur öllu máli. Guðrún Snæfríður Gísladóttir er einn okkar helsti sérfræðingur í skrítnum kerlingum þessi árin, svo hin talnaglögga og stríðsfróða Stella, móðir Jónasar, er í öruggum höndum. Eftir smá framsagnarbasl í fyrsta atriði sínu óx Hildur Vala Baldursdóttir fallega inn í hlutverk Vatnalilju, dótturinnar sem Jónasi finnst hann hafa glatað. Aftur er áreynsluleysið í samleik það sem kemur upp í hugann. Birgitta Birgisdóttir er síðan Maí, sem leysir Jónas úr álögum sínum með því að deila með honum sínum eigin sorgum. Það er kannski óvæntasta og mest afgerandi listræn ákvörðun sýningarinnar að gefa Maí fullt og hreimlaust vald á íslensku, og láta hana vera algerlega komna yfir martraðir fortíðarinnar, ef marka má hvernig hún segir sögu sína. Ég er ekki fullkomlega sannfærður um að þetta hafi verið rétti túlkunarvalkosturinn en Birgitta fór vel með hann.

Sá frægi maður Damien Rice samdi tónlist við verkið, en það er ekki hans framlag sem situr eftir úr hljóðmyndinni, heldur sniðug notkun þekktra laga, stundum kómísk en stundum ekki. Að ógleymdri eitursnjallri notkun á föstum útvarpsliðum; morgunleikfimi og dánarfregnum.

Búningar Sigríðar Sunnu Reynisdóttur voru í sannfærandi raunsæisstíl, og leikmynd hennar studdi vel við flæðandi sviðsetninguna þar sem ólíkir þættir veruleika verksins runnu hver inn í annan á fumlausan hátt. Lausn þar sem áherslan var greinilega á virkni fremur en raunsæislegan bakgrunn eða túlkun efnisins. Ég kann vel við þannig leikmyndir. Lýsing Jóhanns Bjarna Pálmasonar vann vel með veggjum Sigríðar Sunnu.

Leiksýningin Ör er fágað verk með þunga undiröldu sem haldið er undir yfirborðinu allt til enda. Hér er traust borið til efnisins, til textans, til nostursamlegs raunsæis í leik. Það er gleðilegt þegar einmitt svona vinnubrögð skila þessum árangri.