þriðjudagur, apríl 23, 2013

Karma fyrir fugla

Höfundar: Kari Ósk Grétudóttir, Kristín Eiríksdóttir
Leikstjórn: Kristín Jóhannesdóttir
Leikmynd og búningar: Anna Rún Tryggvadóttir
Lýsing: Halldór Örn Óskarsson

Leikarar
Herdís Þorvaldsdóttir, Hilmir Jensson, Kristbjörg Kjeld, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Þorsteinn Bachmann og Þórunn Arna Kristjánsdóttir.

Þjóðleikhúsið,  apríl 2013 – birtist fyrst í Spássíunni.

Tvíeggjað sverð dystópíunnar


Eftir að Kristín Jóhannesdóttir fór að helga leikhúsinu krafta sína á kostnað kvikmyndanna hefur hún fengið mikið af krefjandi verkefnum og alla jafnan skilað þeim með miklum sóma. Frá endurmatssýningum hennar á helstu leikritum Jökuls Jakobssonar í Borgarleikhúsinu um rómaðar uppfærslur hennar á nýjum verkum Sigurðar Pálssonar að nýjabrumssýningum ungra leikskáldkvenna í Þjóðleikhúsinu hefur orðið til sviðsleikstjóri með skýran stíl, einn fárra slíkra sem við eigum.

Ekki hef ég séð allt sem Kristín hefur sett upp og að mörgu leyti fer smekkur okkar ekki saman. Engu að síður kann ég að meta margt sem hún gerir og þori að fullyrða að Karma fyrir fugla er hennar besta verk. Hún dregur að mér virðist allt það sterkasta fram úr skáldlegum textanum, fínstillir óhugnaðinn af smekkvísi þannig að enginn missir af neinu með því að loka augunum og dregur fram hjá leikurum sínum framúrskarandi persónusköpun.

Eitt af því sem skilur á milli í leikhússmekk okkar Kristínar er að ég hef ekki eins mikla trú og mér virðist hún hafa á gildi tákna í umgjörð og möguleikum stílfærðra hreyfinga og dans til að miðla merkingu. Hér eru þessi atriði í bakgrunni. Leikmyndin er falleg og þénug og hverjum og einum áhorfanda frjálst að lesa úr henni eða í hana það sem honum lystir.
Leikararnir þóttu mér hreint afbragð heilt yfir. Þó Þorsteinn Bachmann, Ólafía Hrönn og Kristbjörg Kjeld væru að mörgu leyti að vinna á heimavelli í hlutverkunum sínum var einhver ferskleikablær yfir því sem þau gerðu. Maríönnu Clöru hefur maður ekki séð alveg eins mikið og hún var stórfín. Til Hilmis Jenssonar hef ég lítið séð áður, en hann var skuggalega sannfærandi í sínum ofbeldismannarullum.

Það gladdi mig svo sérstaklega að sjá Þórunni Örnu fást við bitastæðara verkefni en í Jónsmessunótt og standa fyllilega undir því með fallega innlifaðri túlkun á stúlkunni sem verður hið óhjákvæmilega fórnarlamb heimsins sem leikritið lýsir.

Innkoma Herdísar í lokin var bæði fögur og snjöll. Blessuð sé minning hennar.

Það er kraftur og lýrík í verki leikskáldanna, textanum og atburðarásinni. Tilsvör og ástandslýsingar persónannar lifa með manni. Formið er frjálslegt og að einhverju leyti ó-leikhúslegt. Ekki til neinna vandræða samt. Enginn mun heldur fara í grafgötur með hvaða erindi þær eiga við gesti sína.
Af hverju finnst mér þá þetta ekki alveg hafa tekist?

Mögulega vegna þess að þær hafa kosið að koma boðskap sínum um mansal og feðraveldi með aðferðum dystópíunnar. Það er vissulega sjokkerandi að sjá hvíta efri-millistéttarmenn (og konur þeirra) selja ofbeldismönnum dætur sínar, og svo þegar það gengur ekki í hendur kynlífsþrælahaldara. En viðbrögðin eru náttúrulega bæði "djöfull er þetta ógeðslegt" (sem það er) og "hjúkkitt að þetta sé ekki svona hjá okkur" (sem er líka rétt).

Ég er ekki viss um að þetta sé sérlega áhugaverður eða árangursríkur tónn að tala í við það meðvitaða millistéttarfólk sem kaupir sér miða á sýningar sem heita „Karma fyrir fugla“ og fjalla um mansal og kynlífsþrælkun. Það þarf ekkert að sannfæra okkur um þá martröð sem þessi heimur er með því að einfalda hann niður á stig boðskapsþrunginna barnaleikrita. Það er hreinlega pínu niðurlægjandi.

Það sem bjargaði sýningunni frá því að fá a.m.k. þennan áhorfanda upp á móti sér var annarsvegar hversu frábærlega hún er unnin og leikin og hins vegar senurnar með fórnarlömbunum þremur. Þar nýtur ótvíræð skáldgáfa höfundanna sín best, hún lýsir upp fyrir okkur sálarangistina og vonleysið sem hefur brotið niður og endurbygg í afskræmdu formi persónurnar sem Ólafía og Kristbjörg túlka svo vel og við sjáum hvert stefnir með þá ungu sem Þórunn sýnir okkur.

Karma fyrir fugla breytti ekki sýn minni á heiminn en það er firnagott leikhús. Það er nóg fyrir mig.