sunnudagur, júní 02, 2002

Þrymskviða

Skagaleikflokkurinn
Brekkubæjarskóla 2. júní 2002

Leikgerð og leikstjórn: Guðbjörg Árnadóttir

Hent’ímig hamrinum!

SÝNING þessi er fyrsta skrefið í langri ferð. Hún myndar íslenska hlutann af norrænu samstarfsverkefni unglingaleikhópa frá Íslandi, Færeyjum og Finnlandi, þar sem hverju landi er ætlað að vinna leiksýningu upp úr menningararfinum. Færeyingarnir vinna með hina ríku og lifandi danskvæðahefð, finnski hópurinn leggur Kalevala-kvæðin til grundvallar sinni sýningu og Íslendingarnir fást við eddukvæðin. Ætlunin er síðan að hóparnir hittist, vinni saman og sýni afraksturinn í Færeyjum og á Hjaltlandi í byrjun júlí. Verkefni á borð við þetta eru sífellt í gangi í hinu einstæða og merkilega samstarfi sem norrænu þjóðirnar hafa sín á milli. Þó oftast fari lítið fyrir fregnum af þeim skila verkefnin sér einatt í ómetanlegri reynslu, aukinni víðsýni og þroska þeirra sem þátt taka. Því er rétt að óska hinum unga leikflokki Skagaleikflokksins góðrar ferðar og skemmtunar í sumar.

Guðbjörg Árnadóttir velur hið spaugilega kvæði Þrymskviðu sem viðfangsefni, enda er kvæðið kjörið til slíkrar meðferðar; leikrænt að uppbyggingu, persónur skýrar og kátlegar aðstæður koma hvað eftir annað fyrir. Þegar sá grunnhyggni kappi Þór er sviptur krafti sínum í formi hamarsins Mjölnis verður hann að fara leið klókindanna og lætur það óneitanlega heldur illa. Karlmennskunni er illa ógnað þegar kappinn þarf að taka á sig kvenmannsgervi og gengur illa að hemja sitt karlmannlega æði. En með dyggri aðstoð hins undirförula Loka tekst honum samt að endurheimta hamarinn og ganga frá óvinum sínum þursunum. Hefur Disneyfabrikkan ekki heyrt um Þrymskviðu? Ef svo er ekki, í öllum bænum reynum að halda henni leyndri fyrir þeirri dauðu hönd, því ég fæ ekki betur séð en Þrymskviða myndi “teikna sig sjálf” ef svo bæri undir.

Guðbjörg fer ákaflega beina leið að efninu, segir söguna látlaust og án útúrdúra eða afgerandi “túlkunar”. Ef til vill stafar það af tilefni sýningarinnar og því að hún á eftir að vinnast frekar í samstarfi við hina þátttakendur í norræna verkefninu sem áður var getið að þessi “hlutlausa” leið er valin, en óneitanlega saknaði ég frjálslegri efnistaka. Það þarf ekki að líta á það sem lögmál að æsir gangi í víkingabúningum og þursar séu eins og þjóðsagnatröllin okkar. Ef arfurinn á að lifa þurfum við að koma fram við hann eins og lifandi hlut sem þolir hnjaskið sem fylgir endurtúlkun og skorinorðri afstöðu þeirra sem um hann véla. Hér er áherslan fyrst og fremst á framvinduna og tekst bærilega að segja söguna með aðferðum leikhússins.

Þátttakendur í sýningu Skagaleikflokksins eru á aldrinum tólf til fimmtán ára og trúlega fæst með mikla leikreynslu. Ekki vil ég leggja dóm á einstaka leikara en frammistaðan er í heild ágæt. Óþarflega lítið skyldi ég samt af textanum, sem er jú alltaf grundvallaratriði. Og sú orka sem fæst við að hafa hann almennilega á valdi sínum og skila af myndugleika skilar sér líka til áhorfenda sem skilja ekki málið. Í þessu ætti að vinna, og myndi skila sér í betri sýningu, fyrir utan hvað gróði þátttakenda margfaldaðist við það.