laugardagur, mars 16, 2002

Hárið

Leikhópur nemendafélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ
Fjölbrautaskólanum í Garðabæ 16. mars 2002

Höfundar: Gerome Ragni og James Rado
Tónlist: Galt MacDermot
Þýðing: Davíð Þór Jónsson
Leikgerð Baltasars Kormáks byggð á verkinu og kvikmyndahandriti Michael Weller
Leikstjóri: Ari Matthíasson
Danshöfundur: Selma Björnsdóttir
Tónlistarstjóri: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson

Tíðarandi í aðalhlutverki

ÞAÐ er auðvelt að gleyma því þegar horft er á hverja glæsisýninguna af annarri í framhaldsskólunum að hin tæknilega fullkomnun á sviði umgjarðar, tónlistar og dans er ekki sjálfsögð, heldur ber vitni metnaði og þrotlausri vinnu aðstenda sýninganna. En svo útbreiddur er þessi hái standard orðinn að þetta vill gleymast.

Það skal játað að þessi kvöldstund í Garðabænum voru fyrstu kynni undirritaðs af hinum fræga hippasöngleik Hárinu, og ekki get ég sagt að verkið hafi hrifið mig mjög við fyrstu sýn. Það er eins og höfundarnir hafi haldið að til að lýsa tíðaranda á leiksviði sé best að gera tíðarandann að helstu, og nánast einu persónu verksins. Atburðarás er nánast engin, persónurnar grunnar, átök varla fyrir hendi, samtölin flatneskjan ein. Enda varð leikhópnum ekki mikill matur úr hinum stuttu og ómarkvissu leikatriðum milli söngnúmera. Það gerði hins vegar lítið til, því tónlistaratriðin eru uppistaða verksins og þau lifðu svo sannarlega. Kom þar bæði til að söngur var undantekningalaust frábær (að vísu skildist óþarflega lítill texti) og hreyfingar óaðfinnanlegar. Sum tónlistaratriðin náðu reyndar að verða litlar stílfærðar leiksýningar, sem mér finnst alltaf mest gaman þegar tekst í söngleikjum. Selma kann líka þá list að nota kyrrstöðuna, eins og sást í áhrifamiklu lokanúmerinu. Leikmyndin er einföld eins og óhjákvæmilegt við þessar tilteknu aðstæður (hátíðarsalur skólans), búningar réttir, ljós og hljóð pottþétt.

Af leikhópnum mæðir mest á hippaklíkunni og sveitalubbanum sem dregst inn í hana eftir því sem líður á verkið. Það er ástæðulaust að gera upp á milli þeirra Ölmu Guðmundsdóttur, Margrétar Hildar Guðmundsdóttur, Thelmu Hrannar Sigurdórsdóttur, Ingólfs Þórs Péturssonar, Birgis Más Björnssonar, Davíðs Smára Harðarsonar og Guðmundar Orra Sævarssonar. Öll með kraftmikla sviðsnærveru og höfðu hlutverkin sín valdi sínu, þó lítið yrði úr dramatískri spennu eins og áður sagði. Og sungu náttúrulega hvert öðru betur. Af öðrum leikurum situr trúlega lengst í minni Sara Blandon sem gerði mannshvarfssöngnum um Frank Mills firnafalleg skil.

Sýning Fjölbrautaskólans í Garðabæ á Hárinu stenst hvað varðar tónlist, dans og umgjörð samanburð við hvaða sýningu sem vera skal á íslenskum fjölum um þessar mundir. Fyrir það verðskulda þau svo sannarlega að áhorfendur rísi úr sætum sínum eins og þeir gerðu á sýningunni á laugardagskvöldið. Það þarf að klípa sig í handlegginn til að muna að þetta var “bara” framhaldsskólasýning.